Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Blaðsíða 67
66 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
sínum útvarpað? Við skoðun á dánar- og útfarartilkynningum í
Morgun blaðinu 1935–1967, að báðum árum meðtöldum, kemur í ljós
að í einungis 29% tilvika að meðaltali er gefin upp atvinna eða staða.
Það er því ekki hægt að draga víðtækar ályktanir af þessum tölum,
en samtals er um 100 starfsheiti að ræða á framangreindu tímabili.
Áberandi stærsti hópurinn eru iðnaðarmenn en síðan koma kennarar,
ýmsir embættismenn (s.s. prestar og sýslumenn), bændafólk, sjómenn
og „betra“ ófaglært fólk (t.d. verkstjórar og vitaverðir). Þessir hópar
eru álíka stórir. Stjórnmálamenn, ráðherrar, listamenn, kaupmenn
og æðstu stjórnendur fyrirtækja eru allnokkrir. Ómögulegt er að
segja til um úr hvaða stéttum um 70% hinna látnu voru. Þó mætti
giska á að hluti þeirra hafi verið ellilífeyrisþegar, þ.e. komnir út af
vinnumarkaði sem hugsanlega gæti skýrt vöntun á starfsheiti, og svo
húsmæður. Í þessu sambandi skal vakin athygli á að afar sjaldan er
greint frá stöðu kvenna og er þá nær eingöngu um félagslega hærra
settar konur að ræða: Forstöðukonur, veitingakonur, skáldkonur,
kaupkonur, yfirhjúkrunarkonur, ljósmæður og prestsekkjur. Nokkrar
voru húsfreyjur, þ.e. bændakonur, og stóra undantekningin er óbreytt
saumakona sem jarðsett var árið 1960. Aldrei er getið um húsmæður.
Þegar hefur komið fram að jarðarförum tveggja fyrrverandi forsætis-
ráðherra var útvarpað 1935. Árið eftir er kunnugt um útför eins
skólastjóra og tveggja iðnnema sem létust af slysförum. 1937 hafði
hópurinn breikkað nokkuð: Prestur, verslunarstjóri, ullarmatsmaður,
alþingismaður og bankastjóri, trésmíðameistari, útvegsbóndi, bílstjóri,
verslunarstjóri, ráðherra, skáldkona, veitingakona. 1938 voru jarðsettir
tveir prestar, rithöfundur, prentari, verkstjóri, skrautritari og forseti
sameinaðs Alþingis. Upplýsingar um starfsheiti jukust smám saman og
er áberandi fjölgun árið 1945. Vitneskja um stöðu hélst nokkurn veginn
í hendur við fjölgun útvarpsjarðarfara.
Þegar borin eru saman kynjahlutföll kemur í ljós að 1936-1938 var
hlutfall karla meira en tvöfalt á við konur. Fyrsta árið var útvarpað
jarðarför tveggja karla. Árin 1939-1945 voru konur rúmlega helmingur
en eftir það voru karlar oftast í nokkrum meirihluta. Munurinn var
þó ekki mikill, mest um 10%. Það má því segja að frá um 1940 hafi
hlutfall kynjanna verið mjög áþekkt, og er það óvænt niðurstaða miðað
við hið karllæga samfélag þess tíma. Hugsanlega hefur meiri jöfnuður
ríkt hvað þetta snerti þótt efnahagur og félagsleg staða fólks hafi lengst
af endurspeglast í greftrunarsiðum. Til samanburðar skal þess getið að
jarðarfarir sjö þjóðkunnra einstaklinga, allt karla, voru sendar út til