Dagblaðið Vísir - DV - 17.04.2009, Blaðsíða 16

Dagblaðið Vísir - DV - 17.04.2009, Blaðsíða 16
föstudagur 17. apríl 200916 Fréttir Stóru Spurningarnar sigmundur davíð gunnlaugsson, formaður framsóknarflokksins, er vonsvikinn yfir örlögum áforma um stjórnlagaþing og vonast til þess að sjálfstæðismenn verði ekki í aðstöðu eftir kosningar til þess að koma í veg fyrir stjórnarskrárbreytingar. Bráðavandinn – ríkisfjármál „Það er satt að segja hæpið að hægt sé að ná hagkerfinu aftur á flot með niðurskurði. Verulegur niðurskurður fæli í sér uppsagnir starfsmanna í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu og slíkar uppsagnir munu ekki aðeins skaða okkur í framtíðinni heldur jafnvel ýta undir efnahagshrun. Það þarf þá að greiða fleirum atvinnuleysisbætur, færri greiða skatta og það eru færri til að halda uppi neyslu og þar með fyrirtækjum gangandi. Það kallar á fleiri gjaldþrot og enn meira atvinnuleysi og svo koll af kolli. Þess vegna verður öll áherslan að vera á að lágmarka þörfina fyrir niðurskurð. allar tillögur framsóknar í efnahagsmálum ganga einmitt út á það. Það er að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og auka skatttekjur með þeim hætti. Það er ekki hægt að auka tekjur ríkisins með skattahækkunum ef fyrirtækin og heimilin eru ekki með tekjur til að standa undir rekstri, hvað þá auknum skattgreiðsl- um. tækifæri íslendinga liggja í skuldaleiðréttingu. tækifærið er til staðar vegna þess að lán til íslands teljast að miklu leyti töpuð. svo verðum við að komast hjá því að taka á okkur meiri skuldbindingar en okkur ber lagaleg skylda til. Bara vextirnir af Icesave-láninu gætu hæglega numið nærri 50 milljörðum króna. Ef við sitjum uppi með slíkar skuldbindingar mun okkur reynast erfitt að ná okkur á strik. Það má ekki gerast.“ Evrópusambandið „stefna framsóknarflokksins í Evrópumálum er skýr enda var hún meginumræðuefni flokksþingsins í janúar. stefnan er sú að fara í aðildarviðræður en skilgreina fyrirfram hvað við værum ekki tilbúin til að gefa eftir. Það er hins vegar ljóst að ferlið allt tæki langan tíma og að með því yrðu málin ekki leyst í hvelli. Það hefur reyndar verið nefnt að umsókn ein og sér mundi skapa aukið traust en eftir stendur að gjaldmiðillinn er mjög viðkvæmur fyrir sveiflum. um- sóknin mundi ekki breyta því. aðild póllands og margra annarra landa kom ekki í veg fyrir hrun og miklar sveiflur á gjaldmiðlum þeirra landa. Við getum því ekki slegið út af borðinu möguleikann á einhliða upptöku erlendrar myntar, líklega evru. upplýsingarnar sem láku úr alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að sjóðurinn legði til að Mið- og austur-Evrópuríki tækju einhliða upp evru og gerðust ef til vill nokkurs konar aukaaðilar að myntbandalaginu voru afar áhugaverðar. Vel kann að vera að slík leið væri fær fyrir okkur með réttum stuðningi.“ Lýðræðisumbætur „Þingmenn framsóknar urðu fyrir miklum vonbrigðum og voru raunar undrandi á framgöngu sjálfstæðismanna í stjórnlagaþings- málinu. steininn tók svo úr með nýjasta útspili sjálfstæðisflokksins um að í stað stjórnlagaþings setji alþingi pólitískt skipaða nefnd í málið. Þótt leiðinlegt sé að ekki hafi verið hægt að klára stjórn- lagaþingsmálið fyrir kosningar er skaðinn ekki óbætanlegur því að það er ekkert því til fyrirstöðu að taka málið upp fljótlega eftir kosningar. Þá skiptir þó máli hvernig skilið er við 79. greinina sem segir til um hvernig stjórnarskrá er breytt. að öðru leyti er líklega fátt annað að gera en sætta sig við að þingflokkur sjálfstæðis- flokksins getur komið í veg fyrir afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga fyrir kosningar og vona að þeir verði ekki í aðstöðu til þess eftir kosningar.“ Harmar örlög stjórnlagaþings sigmundur davíð gunnlaugsson forMaður fraMsóknarflokksIns Illugi gunnarsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, segir að EsB- málið sé ekki einfalt og Evrópuþjóðir hafi misjafna reynslu af aðild og upptöku evrunnar á erfiðum tímum. Bráðavandinn - ríkisfjármálin „Þarna er stóri ágreiningurinn milli hægri- og vinstrimanna. Þetta er gamall ágreiningur og nýr. Við segjum að eina leiðin til að stoppa upp í gatið hjá ríkinu sé að endurvekja skattstofnana og koma atvinnulífinu aftur af stað. koma þeim í vinnu sem nú eru atvinnulausir. Það að hækka skatta á atvinnulíf þegar samdráttur þjóðarframleiðslunnar er upp undir 10 prósent, þúsundir að verða gjaldþrota og eftirspurn að dragast saman eykur ekki sem neinu nemur tekjur ríkisins og dregur úr því að menn ráðist í ný verkefni á almennum markaði og drift komist á efnahagslífið. Þetta er í hrópandi þversögn við þá hugsun að reyna að koma atvinnulífinu aftur af stað og að með þeim hætti myndist tekjur fyrir ríkissjóð. um skatta á almenning er þetta að segja: Þegar lán hafa hækkað og fasteignaverð og laun lækkað og vinna dregist saman er ekki skyn- samlegt að auka skatta heimilanna. Það eykur aðeins vanda þúsunda heimila. skattar á heimili draga úr eftirspurn eftir vöru og þjónustu. færri störf myndast og það dregur úr drift í hagkerfinu. neysla eins er vinna annars. Það sem mestu máli skiptir er að lækka stýrivexti. Það er óskiljanlegt að seðlabankinn haldi þeim svona háum. Hvergi í veröldinni eru menn með stýrivexti í þessum hæðum. Það lifnar ekkert yfir íslensku atvinnulífi fyrr en þeir lækka. Þeir áttu að fara niður strax fyrir áramót.“ Evrópusambandið „Við sögðum á landsfundinum eftir að hafa skoðað allar hliðar málsins og metið hagsmunina að ekki væri ástæða til að sækja um aðild að Evrópusambandinu að svo komnu. Það kom líka fram hjá okkur að fyrr eða síðar verði þjóðin að taka afstöðu til málsins í þjóðaratkvæða- greiðslu. Ekki má gleyma því að næstu árin erum við þrátt fyrir allt með EEs- samninginn og erum þátttakendur þar. Það sem við höfum ekki er evran. Menn verða að horfa á þetta þannig að til þess að sækja evruna sé nauðsynlegt að ganga í EsB. En þá sé einnig óhjákvæmilegt að gangast undir sjávarútvegsstefnu EsB og gefa eftir full yfirráð yfir fiskveiðunum. Þetta dæmi er ekki ókeypis. síðan er hitt að næstu árin liggur fyrir að við tökum ekki upp evruna þótt við gengjum í EsB innan tíðar. Við verðum líka að horfa til annarra landa. Evran hefur ekki bjargað spánverjum frá 15 prósenta atvinnuleysi. Hún hefur ekki bjargað írska bankakerfinu sem írsk stjórnvöld hafa þurft að ábyrgjast. austurríksimenn eiga í erfiðleikum. Þjóðir, sem gengið hafa í sambandið eins og Eystrasaltsríkin en hafa ekki tekið upp evru búa við mjög versnandi efnahag. Við verðum að leysa málin með þeim spilum sem við höfum á hendi. Það felast líka tækifæri í því að hafa krónuna. í fyrsta lagi gefur það útflutningsgreinum tækifæri, það eykur líkur á ný- sköpun og gefur innlendri framleiðslu vernd í samkeppni við erlenda vöru og getur þess vegna verið tæki til þess að vinna okkur hraðar út úr því atvinnuleysi sem plagar þjóðina. Á írlandi eru vandamálin mikil í útflutningi vegna styrkrar evru. Þeir eiga erfitt með að koma vöru sinni til Bretlands og Bandaríkjanna vegna styrkingar evrunnar. Þetta er með öðrum orðum ekki svo einfalt að töfralausn sé í boði.“ óskiljanlega Háir stýrivextir illugi gunnarsson ÞIngMaður sjÁlfstæðIsflokksIns guðjón a. kristjánsson, formaður frjálslynda flokksins, segir brýnt að lækka stýrivextina fljótt og örugglega og að sett verði þak á verðtryggingu veðskuldbindinga heimilanna. Bráðavandinn - ríkisfjármál „Það er betra fyrir hag fjölskyldna en margt annað að setja þak á verðtrygginguna um tíma umfram 5 prósent. allt umfram það yrði sett inn á biðreikning. svo geta menn metið það síðar þegar verðbólgan er farin að nálgast 5 prósent hvað komið er inn á biðreikning og hver þróun fasteignaverðs verður. Ef þetta liggur fyrir er um leið komin forsenda fyrir afskriftum sem þurfa að eiga sér stað gagnvart almenningi. lánardrottnar hefðu hvort eð er ekki fengið fullt endurgjald eins og ástatt er. síðan er mest um vert að hækka atvinnustigið, auka tekjur þjóð- arheimilisins. Við höfum lagt til að tekinn verði 260 þúsund tonna þorskafli í þrjú ár; árlegur þorskafli verði með öðrum orðum aukinn um 100 þúsund tonn. Það gæfi okkur 40 milljarða inn í þjóðarbúið á ári. staðreyndin er sú að frá 1920 til 2000 veiddu menn að jafnaði 385 þúsund tonn af þorski á ári. að halda því fram að hægt sé að setja þorskstofninn í bráða hættu við þau skilyrði sem eru í sjónum er fráleitt. Þeir sem halda slíku fram eru ekki með öllum mjalla. Við eigum að nota allt með köldu höfði það sem getur aukið at- vinnu í landinu án þess þó að ganga of hart fram gegn náttúrunni, til dæmis með stóriðju. Við komumst ekki í gegnum 150 milljarða ríkissjóðshalla nema með því að auka tekjurnar. Ég held að það sé mjög erfitt að ná meiri niðurskurði en 35 milljörðum í ríkisútgjöld- um, hvað þá 55 milljörðum króna. Það getur komið til greina að lækka laun opinberra starfsmanna. Það er alltaf erfitt að lækka laun. Það er miklu betra að nota persónuafsláttinn til að verja tekjur láglaunafólksins.“ Evrópusambandið „Er staða okkar þannig að við séum á leiðinni inn í EsB? Ég tel að svo sé ekki. í fyrsta lagi er skuldastaða okkar með þeim hætti að við erum ekki einu sinni gjaldgeng þar innanbúðar. og varðandi gjaldmiðilsvandann er staðan sú að við verðum að koma okkur út úr þessari stöðu með krónuna að vopni. Við höfum hins vegar ekki hafnað neinu. staðreyndin er sú að við eigum enga góða kosti. Við höfum ekki möguleika á að taka upp evru í hvelli. Við eigum ekki möguleika á að fara inn í EsB nú þegar. Ef þjóðin vildi veita aðgang að auðlindum sínum mundi Evrópusambandið vafalaust sækjast eftir okkur. Við styðjum að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Við heyrum á máli sjálfstæðismanna að auðlindirnar eigi að vera einkaeign manna og erfast eftir erfðalögum. Meirihluti sjálfstæðis- manna vill viðhalda þessu óbreyttu eins og kom fram á landsfundi þeirra. Þetta þýðir að smátt og smátt festast séreignarréttindi yfir auðlindunum í sessi; hefðarrétturinn vinnur með þeim.“ Kvótakerfið „Við bendum á að nú er megnið af skuldum sjávarútvegsins í ríkisbönkunum. Það er því tiltölulega einfalt að innkalla aflaheim- ildirnar þótt við gerum okkur grein fyrir að það verði ekki gert á þessu ári. Það hefur lengi verið okkar skoðun að útgerðarmenn eigi að hafa vissu fyrir nýtingarrétti og aðgang að aflaheimildum innan ríkjandi fiskveiðikerfis. En það eigi skilyrðislaust að taka af þeim veðsetningarréttinn, söluréttinn og leiguréttinn á óveiddum fiski í sjó. Þessir réttur á að vera hjá þjóðinni. Þjóðin á að fá arð af auðlind sinni. Það er mjög óeðlilegt að meginauðlind þjóðar geti verið háð reglum séreignarréttar.“ auknar veiðar - meiri atvinna guðjón a. kristjánsson forMaður frjÁlslynda flokksIns

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.