Dagblaðið Vísir - DV - 17.04.2009, Blaðsíða 26

Dagblaðið Vísir - DV - 17.04.2009, Blaðsíða 26
föstudagur 17. apríl 2009xx Helgarblað mál, menntamál og pólitík og það er ekki fyrr en ég byrja að kynna mér viðskiptalífið almennilega í ágúst- september 2008 að ég átta mig á því hvurs lags skelfing þetta er. Skömmu fyrir hrun hitti ég heimildamann sem sýndi mér gögn sem voru þess eðlis að ég trúði ekki eigin augum. Þá áttaði ég mig á því að fjölmiðlar sváfu algjörlega á verðinum. En ég vona að ég hafi verið nokkuð gagnrýninn eftir bankahrunið.“ Engar pólitískar tilfinningar Talið berst að stjórnmálum, þeirri pólitísku krísu sem upp kom í vet- ur eftir bankahrunið og hvar Sölvi stendur í stjórnmálum. „Ég ætla ekki að segja hvað ég hef kosið í gegnum tíðina, en ég hef ekki alltaf kosið það sama. Ég get aftur á móti sagt með afskaplega góðri sam- visku að ég tek viðtöl við fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og mér líður ná- kvæmlega eins. Það er að segja, það kvikna engar tilfinningar hjá mér um- fram aðrar eftir því hvort ég er að tala við einhvern í Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni, Vinstri grænum eða í öðrum flokkum. Mér finnst það líka eiginlega galið að tengja mitt „ident- ity“ við einhvern stjórnmálaflokk af því að þau vandamál sem koma upp eru, að mínu mati, langoftast kerf- islæg frekar en að þau snúist um að einhver flokkur sé betri eða verri en annar. Um leið og einhver flokkur eða hópur hefur verið við völd í áratugi er hætta á að ákveðnir hlutir fari úr- skeiðis og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða vinstrimenn eða hægrimenn. Þetta hefur líka mann- kynssagan kennt okkur. Það er alveg sama hvort það eru kommúnistar, kapítalistar eða eitthvað annað; þeir sem hafa völd of lengi tapa sér yfir- leitt.“ Mamma mokaði skurði fyrir Kastró Fólk litast ósjaldan af þeim stjórn- málaskoðunum sem við lýði eru á æskuheimilinu. Ef tekið væri mið af því ætti Sölvi líklega að vera kommúnisti. „Mamma er allavega gallharður kommúnisti. Það gekk svo langt að hún fór til Kúbu á átt- unda áratugnum og mokaði skurði fyrir Kastró. Það hefur hins vegar að- eins sljákkað í henni, hún er ekki al- veg jafnhörð og í gamla daga,“ segir Sölvi og hlær. Spurður nánar út í mokstursferð- ina til Kúbu segir Sölvi þetta hafa verið ferð með einhverjum hópi Ís- lendinga sem stóð yfir 3–4 vikur. Móðir Sölva er Elsa Guðmunds- dóttir, sérkennari í Öskjuhlíðarskóla, og faðir hans heitir Tryggvi Sigurðs- son og er barnasálfræðingur. „Pabbi er mjög líkt þenkjandi og ég, er gagnrýninn á alla. En bæði mamma og pabbi voru upp á sitt besta á hippatímabilinu. Ég held að ég hafi fengið mjög frjálslegt uppeldi. Það voru ekki allt of stíf borgaraleg gildi í hávegum höfð.“ Stóri bróðir lést í eldsvoða Af foreldrum sínum kveðst Sölvi hafa lært að vera meðvitaður um þá sem minna mega sín í samfélaginu. „Ég vil meina að það hafi skilað sér að- eins inn í fréttamannsstarfið, að ég finn til með þeim eiga bágt. Ég segi ekki að ég geti sett mig í spor fólks sem hefur ekki til hnífs og skeiðar en þegar ég tek viðtöl við fólk sem hef- ur lent í erfiðum hlutum þá virkilega finn ég til með því. Það mótast bæði af þessu og hlutum sem ég hef lent í í lífinu.“ Í því sambandi segir Sölvi frá því þegar eldri bróðir hans lést í elds- voða aðeins tíu ára að aldri. „Það var gífurlega sorglegur atburður. Hann dó aðfaranótt aðfangadags árið 1982, þegar ég var fjögurra ára. Ég var nátt- úrlega rosalega lítill en ég man að við vorum mjög nánir eins og eðlilegt er hjá bræðrum. En ég man alltaf eftir þessum aðfangadagsmorgni þegar foreldrar mínir vöktu mig, mjög al- varlegir, og sögðu: „Hann Högni litli er dáinn.“ Sölvi og Högni voru samfeðra og var stóri bróðir hans heima hjá mömmu sinni þegar slysið varð. Að sögn Sölva eru jólin alltaf svolít- ið sérstakur tími hjá fjölskyldunni vegna andláts Högna. „Svona hlutir hafa vitanlega áhrif á alla. Og svona lagað hefur áhrif á mann á einhverju leveli sem maður áttar sig kannski ekki á þrátt fyrir að börn séu fljót að jafna sig og halda áfram.“ Sölvi á eina systur, samfeðra, sem er fjórum árum yngri og halda þau góðu sambandi. Í depurð mánuðum saman Í sambandi við samkenndina með þeim sem minna mega sín segir Sölvi tvær virkilega erfiðar krísur seinna á lífsleiðinni hafa mótað sig enn frek- ar. Þeirri fyrri stóð hann frammi fyr- ir rúmlega tvítugur að aldri. Þá fór hann í utanlandsferð þar sem hann nældi sér í mjög slæman vírus sem endaði með því að hann fékk snert af heilahimnubólgu. „Í kjölfarið fór ég mjög langt niður andlega,“ segir Sölvi. „Í marga mán- uði upplifði ég hreinlega depurða- rástand. Eftir á að hyggja sé ég hvað ég þroskaðist gríðarlega mikið á þessu tímabili. Það var eins og ég hefði elst um mörg ár. Upp frá þessu lít ég svo á að þjáningin sé besti kennarinn. Maður þroskast fyrst virkilega þegar maður upplifir eitthvað erfitt. Í mín- um huga er þjáning líka afstæð. En ég finn sérstaklega til með ungu fólki sem þarf að glíma við geðsjúkdóma. Þegar ég heyri um eða hitti fólk sem glímir til dæmis við geðhvörf eða geðklofa finn ég gífurlega til með því. Ég fæ hreinlega sting í hjartað. Það kemur kannski til af þessu að ég hef áttað mig á því hvernig það er að vera gífurlega langt niðri.“ Sölvi segir vírusinn hafa lýst sér eins og langvinn flensa sem hann losnaði aldrei við. Hann fór í fjöld- ann allan af rannsóknum þar sem læknarnir sáu aldrei neitt. „Á endanum sáu þeir að ég hafði fengið vírus sem er þekktur fyrir að skilja eftir sig þessi einkenni, hafa þessi áhrif á taugakerfið, og togar fólk svona langt niður andlega. Ég þurfti að taka lyf á tímabili og svo vann ég bara mikið í sjálfum mér. Það er meðal annars af þessum sök- um sem ég fór að læra sálfræði uppi í Háskóla. Eftir þessa lægð upplifði ég mig sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég hefði alls ekki viljað missa af því að ganga í gegnum þetta því mér fannst ég hafa þroskast svo og lært svo mik- ið af þessu,“ segir Sölvi og leggur áherslu á orð sín með handapati. Grét klukkustund fyrir viðtal Seinni krísuna sem Sölvi nefndi gekk hann í gegnum fyrir örfáum árum þegar slitnaði upp úr sambandi sem hann hafði verið í í fimm og hálft ár. „Það fékk gríðarlega á mig, þó ég hafi haldið haus, mætt alltaf í vinnu og svoleiðis. Það sem gerði þetta miklu erfiðara en ella er sýnileikinn við starfið. Mig langaði að vera með úfið hárið á inniskónum allan dag- inn, en það var ekkert í boði. Ég man sérstaklega eftir einu skipti í mars fyrir rúmu ári þegar mér leið gjörsamlega ömurlega síð- degis og fór heim að ná í jakkafötin. Klukkutíma áður en ég var að fara að taka langt viðtal við forsætisráðherra í beinni útsendingu sat ég grátandi í sófanum heima. En viðtalið tókst vel og ég efast um að einn einasti kjaftur hafi séð að nokkuð amaði að mér. Ég er mjög stoltur af mér að hafa hald- ið höfði, vinnandi þessa krefjandi vinnu. Mælikvarðinn á styrk manna er ekki hve vel þeir fela erfiðleikana eða bæla þá niður heldur hvernig þeir vinna úr þeim. Lífið er blanda af sorg og sigrum og það er ekki síður sorgin sem gerir fólk dýpra, vitrara og heilsteyptara. Mér finnst hund- leiðinlegt að umgangast fólk sem þykist aldrei eiga erfitt.“ Tapaði skírnargjöfinni frá afa Sumarið 2007 kynntust Sölvi og Silvia og búa þau saman á Laugateignum í dag. „Hún er frábær félagi, ég kann alltaf betur og betur að meta hana. Yndisleg stelpa með hjartað á réttum stað og okkur líður mjög vel saman,“ segir Sölvi. Það hýrnar yfir honum við þessi orð og hann fær sér sopa af kaff- inu. Sölvi og Silvia eru ekki „í skítnum“ fjárhagslega eins og sumir eru eftir hrunið, svo það sé orðað á beinskeyttri íslensku. „Nei, nei, við erum það ekki. Ég keypti reyndar bíl á myntkörfuláni, það voru mín stóru mistök í góðær- inu,“ segir Sölvi og skellir upp úr. „Að vísu bara venjulegan fólksbíl og það er betra að læra af bíl en íbúð. En ég hef aldrei misst mig. Ég átti hins veg- ar peninga í peningamarkaðssjóði og 30-40 prósent af þeim töpuðust. Það má því segja að ég sé skynsamur mað- ur, en þó ekki svo ýkja skynsamur því maður hefði betur eytt þessum pen- ingum.“ Hann vill ekki segja hversu há upphæð þetta var en segir að grunnur- inn að sjóðnum hafi verið skírnargjöf frá afa hans. „Þetta er því harmsaga úr bankahruninu,“ segir Sölvi og hlær. Með lífsspekibók í maganum Sölvi hefur nú starfað í fjölmiðlum í fimm ár. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að halda áfram í fjölmiðla- geiranum um ókomna tíð kveðst hann aldrei hafa ákveðið líf sitt langt fram í tímann. „Það var mjög mikil tilviljun að ég byrjaði í fjölmiðlum því ég ætl- aði aldrei að starfa við þá. Mér finnst þetta afskaplega skemmtilegt starf og ég nýt þess sem ég er að gera í dag. En ég er bæði opinn fyrir því að mennta mig meira í sálfræði, hef bæði gaman af því og tel mig hafa ágætis hæfileika í það, og síðan er margt annað sem kemur til greina. Mig hefur til dæm- is alltaf langað að búa í útlöndum og alltaf langað til að skrifa bók. Síðustu ár hef ég lesið mjög mikið af bókum um lífsspeki og mig hefur alltaf lang- að til að skrifa bók um eitthvað slíkt. Ég hef viðað að mér mikilli þekkingu á þeim málum og er ánægður með það sem ég hef náð að tileinka mér í mínu lífi. Ég hefði því mjög gaman af að deila því.“ Sölvi nefnir í því samhengi að hann stundaði japanskar skylmingar í rúmlega fimmtán ár, keppti meðal annars á heimsmeistaramóti í íþrótt- inni í Japan. Reynslan af skylming- unum kenndi honum aga og fleira sem hafi reynst honum vel í lífinu. „Ég er algjörlega heillaður af Japan. Mig hefur alltaf langað til að rækta þessi tengsl betur og gera eitt- hvað með þau. Ég hef kynnt mér mjög vel Japan og japanska menn- ingu og gæti vel hugsað mér að vinna eitthvað meira með það í framtíðinni þótt ég sé ekki svo snjall að kunna japönsku ennþá,“ segir Sölvi en hann vann meðal annars fyrir japanska sendiráðið fyrir nokkrum árum. Sölvi segir þau Silviu vissulega hafa rætt það að búa erlendis og það komi vel til greina. „En okkur líður samt mjög vel á Íslandi eftir hrun. Þrátt fyrir slæmt efnahagsástand og óvissuna í atvinnumálum og fleiru er þjóðfélagið orðið rólegra. Fólk virð- ist aftur byrjað að átta sig á því hvað raunverulega skiptir máli í lífinu.“ kristjanh@dv.is „Mannskepnan er þannig að ef hún hefur vonda samvisku er hún mjög léleg í að fela það. Ég fékk svo mikið óbragð í munninn eftir þessa tölvupósta og símtöl að ég hugsaði um leið: Þetta er mál sem verður að fjalla um.“ Á Stöð 2 sölvi ásamt láru Ómarsdóttur, fyrrverandi samstarfskonu sinni á stöð 2. MYND EGGErT JóhaNNESSoN

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.