Dagblaðið Vísir - DV - 11.11.2011, Side 30
30 Bækur 11.–13. nóvember 2011 Helgarblað
N
ýjasta skáldsaga Steinars
Braga, Hálendið, skilur les
andann eftir í tómarúmi
að lestri loknum. Sjaldan
hef ég áður verið í þeim
sporum að líða eins og ég sé óviss
ari um innihald bókar eftir að hafa
lokið við hana en áður en ég hóf
lesturinn – eftir að hafa kynnt mér
innihaldið gróflega með lestri textans
aftan á kápunni eða eitthvað slíkt.
Ég lauk við Hálendið, af því ég hafði
ekki getað lagt hana frá mér, ein
hvern tímann löngu eftir miðnætti,
aðfaranótt þriðjudags í lok október.
Ég spurði mig að því – upphátt að ég
held – þegar ég lokaði bókinni: Hvað
gerðist eiginlega? Mér leið ónotalega
og ég gat ég ekki hætt að hugsa um
það áður en ég festi svefn, og eins
þegar ég vaknaði daginn eftir. Svo las
ég bókina aftur.
Minni um hrun
Hálendið fjallar um tvö pör á fertugs
aldri sem fara í ferðalag upp á há
lendi Íslands einhvern tímann eftir
íslenska efnahagshrunið. Á sönd
unum norðan við Vatnajökul keyra
þau á hús í auðninni. Bíllinn þeirra
eyðileggst og þau þurfa að dvelja
um tíma í húsinu ásamt íbúum þess,
konu sem heitir Ása og gömlum
manni sem eru vægast sagt dular
full. Eftir þetta verða pörin vitni að
dularfullum atburðum á hálendinu
sem þau eiga í erfiðleikum með að
átta sig á.
Karlkyns söguhetjur bókarinn
ar, æskuvinirnir Hrafn og Egill, voru
báðir þátttakendur í íslenska góðær
inu og auðguðust á viðskiptum á
þessum tíma. Hrafn seldi hlut sinn í
útgerðarfyrirtæki fjölskyldunnar og
byrjaði að stunda fjárfestingar víða
um heim og græða enn meiri pen
inga. Egill fékk aftur á móti minna í
forgjöf en auðgaðist að sama skapi
sem starfsmaður banka sem prang
aði hlutabréfum í deCode – hluta
bréfum sem starfsmaður Búnaðar
bankans sagði í kringum aldamótin
að væri meiri áhætta að fjárfesta ekki
í en að kaupa – inn á grunlausan al
menning og eins á eigin fjárfesting
um. Látið er í það skína að Egill eigi
digra sjóði í skjóli einhvers staðar
erlendis og að hann geti hugsanlega
verið ákærður vegna þátttöku sinnar
í viðskiptalífinu. Báðir standa þeir
Hrafn og Egill á ákveðnum tímamót
um eftir hrunið, og er þeirri spurn
ingu varpað fram hvort þeir kunni að
hafa glatað stórum hluta eigna sinna.
Steinar Bragi nær því að fanga
ákveðna stemningu sem er þekkt
úr samtímasögu þjóðarinnar eftir
bankahrunið og notar til þess þekkt
minni eins og óheiðarleg viðskipti
með hlutabréf í deCode og sög
una af kvótaerfingjanum sem snýr
baki við uppruna sínum og stingur
af með kvótafé til að lifa í vellyst
ingum erlendis. Beinum tenging
um við efnahagshrunið er annars
haldið í lágmarki þó tilvísanir í það
séu undirliggjandi í bókinni í ýmsum
myndum.
Eitt af því sem Steinar Bragi mun
einnig hafa gert á meðan hann skrif
aði bókina var að sökkva sér ofan í ís
lenskar þjóðsögur og sér þess merki á
nokkrum stöðum, bæði í beinum vís
unum í þjóðsögur og eins í atburða
rásinni sjálfri. Sagan er því bæði, ef
svo má segja, nútímaleg þjóðsaga og
saga af þjóð í kjölfar hruns sem er
sögð í gegnum fjórar manneskjur.
Firrtar söguhetjur
Látið er í það skína að Hrafn og Eg
ill séu yfirborðslegir efnishyggju
menn, siðlausir, jafnvel sósíópatar
með tilheyrandi persónubrestum og
að þeir aðhyllist ekki í reynd neins
konar hugmyndafræði eða lífsspeki.
Orðið pragmatistar er notað til að
lýsa þeim; menn sem haga seglum
eftir vindi og gera það sem gera þarf
en breyta ekki eftir prinsippum eða
ígrunduðum lífsskoðunum. Kærust
ur þeirra, Vigdís og Anna, eru sympa
tískari og betri manneskjur.
Í umfjölluninni um Vigdísi og
Önnu er þó líka að finna vísanir til
góðæris og hruns. Anna er blaða
kona sem skrifaði meðal annars
um íslensku viðskiptamennnina í
léttum dúr á meðan Vigdís er sál
fræðingur sem byrjaði með Hrafni
eftir að honum var lýst í hennar eyru
sem einni af „skítlegustu blóðsug
um Íslands“. Vigdís hjálpar Hrafni
svo að díla við sjálfan sig, fyrst með
sálfræðimeðferð og svo með því að
verða kærastan hans. Líkt og í einni
af síðustu bókum Steinars Braga,
Konum, eru það aftur á móti fyrst
og fremst karlarnir sem eru siðvilltir
gerendur í þessari bók.
Einhver gæti séð tengsl við efna
hagshrunið í þessari uppstillingu
Steinars Braga en eftir hrunið var
gjarnan talað um það sem karlægt
og að kvenstjórnendur og kvenleg
gildi hefði skort í íslenskt atvinnu
og fjármálalíf sem hefði verið drifið
áfram af kaldranalegri sérhyggju og
græðgi.
Auðærið íslenska
Þekktir kapítalískir sósíópatar úr
bókmenntum liðinna áratuga koma
upp í hugann, Patrick Bateman úr
American Psycho eftir Bret Easton
Ellis, John Self úr Money eftir Martin
Amis og Harry White úr The Demon
eftir Hubert Selby Jr., við lýsingarn
ar á Hrafni og Agli, sem og ýmsir
þekktir íslenskir kaupsýslumenn sem
mikið hefur borið á í samfélagsum
ræðunni. Hinn engilsaxneski heimur
gekk í gegnum sitt auðæri á níunda
áratug síðustu aldar, um tveimur
áratugum á undan okkur Íslend
ingum, og eignuðust enskumælandi
lesendur sínar skálduðu táknmyndir
þessa tíma á undan okkur – karakt
er Gordons Gekko í myndinni Wall
Street er annað dæmi um slíka pers
ónu. Við þurftum að ganga í gegnum
einkavæðingu, markaðsvæðingu,
afsiðun, bólugóðæri og svo óhjá
kvæmilegt hrun til að eignast Hrafn
og Egil. Hrafn og Egill eru þó ekki
eins ýktir og umræddar sögupersón
ur, þeir myrða ekki fólk og búta það í
sundur í stofunni heima hjá sér eins
Bateman, en ákveðin persónuleika
einkenni, sem kenna má við tóm
hyggju, græðgi, siðblindu og firringu,
eru augljós í þeim báðum. Lesandi
fær það á tilfinninguna að undir niðri
séu þeir færir um ýmislegt misjafnt.
Steinar Bragi teiknar upp myndir
af þessum fjórum persónum. Segir
frá uppvaxtarárum þeirra og bak
grunni og hvernig þær kynntust hinu
fólkinu sem þær ferðast með. Þegar
þessar sögur eru raktar kemur í ljós
að ýmislegt hefur gengið á í lífi þeirra
eins og gengur og slest hefur upp á
vinskap þeirra Hrafns og Egils. Í for
tíð Hrafns leynist einnig hræðileg
ur atburður sem Steinar Bragi lýsir
óljóst á afar óþægilegan og martrað
arkenndan hátt á nokkrum stöðum
í bókinni. Einnig er bersýnilegt að
allar þessar sögupersónur eru í reynd
týndar í lífinu, hafa ekki fundið sig al
mennilega og vita ekki fyrir víst hvað
þær vilja. Þessi minningabrot mynda
annan þráðinn af tveimur í fram
vindu bókarinnar.
Keyrð áfram í æði
Steinar Bragi tvinnar þennan þráð
saman við þá einkennilegu og dular
fullu atburði sem pörin verða áskynja
í auðninni við hús Ásu og gamla
mannsins. Þau reyna að komast í
burtu frá húsinu, reyna meðal annars
að fara keyrandi á gömlum ryð
háki sem liggur undir skemmdum á
bænum, og eins gangandi að Öskju.
En alltaf kemur eitthvað upp á sem
meinar þeim að komast burt frá
húsinu. Smám saman, eftir því sem
lengra líður á bókina, stigmagnast
atburðarásin sem þau verða vitni að í
kringum sig og þau skilja hvorki upp
né niður í. Inn í atburðina sem eiga
sér stað fyrir utan húsið fléttast svo
harmsaga Ásu og gamla mannsins
sem fjórmenningarnir skilja heldur
ekki alveg.
Fjórmenningarnir eiga því í
ákveðinni baráttu á fjórum vígstöðv
um: Fyrir utan húsið er lítt þekkt ógn
sem steðjar að þeim og getur gert
þeim mein, þau búa tímabundið hjá
fólki sem þau átta sig ekki almenni
lega á, auk þess sem þau eiga í innri
baráttu hvert fyrir sig og eins ytri
baráttu hvert við annað. Á síðustu
50 síðum bókarinnar eða svo tekur
atburðarásin á hálendinu völdin
af minningabrotunum og verður
dularfyllri og meira spennandi með
hverri blaðsíðu. Sagan getur svo
aðeins endað á einn veg eftir því
sem atburðarásin verður ónotalegri
og meira truflandi og hún er keyrð
áfram í súrrealísku æði.
Sálfræðileg virkni
Bók Steinars Braga er einhver áhuga
verðasta og óvenjulegasta íslenska
lestrarreynsla sem ég man eftir í
svipinn. Bókin snerti mig á einhvern
mjög einkennilegan hátt sem ég á
erfitt með að ná utan um. Því má
segja að bókin sé frumleg.
Af lýsingunni á söguþræðinum
að dæma gæti einhver haldið að um
væri að ræða spennusögu eða hroll
vekju í hefðbundnum skilningi þeirra
orða. Svo er ekki þó bókin sé hins
vegar bæði spennandi, óþægileg og
hrollvekjandi á köflum – tvisvar fann
ég ég fyrir einhvers konar kulda læð
ast niður eftir bakinu á mér. Virkni
bókarinnar er fyrst og fremst sál
fræðileg; hún segir svo miklu meira
en hún sýnir. Aðeins lítill hluti henn
ar er á yfirborðinu en afgangurinn er
falinn undir því. Steinar Bragi spyr
ekki beinna spurninga heldur lætur
lesandann búa þær til með því að
segja hæfilega lítið og búa til efa og
margræðar hugsanir. Að því leytinu
til má segja að bókin sé djúp og risti
inn að beini.
Þó að tengslin við hrunið séu
nokkur í bókinni er þó alls ekki hægt
að segja að hún sé einföld allegoría
þar sem atburðir í sögunni eiga sér
einhverja skýra samsvörun í raun
veruleikanum. Hálendið er ekki
einhvers konar hrunsgáta þar sem
formúlukennd niðurstaða liggur
fyrir að lestri loknum. Hún er miklu
flóknari bók en það sem snýst um
dýpri, mannlegri spurningar. Bókin
sprengir því af sér tilraunir til slíkrar
skilgreiningar.
Tengsl þráðanna
Á sama tíma og bókin er súrrealísk
og truflandi er hún líka realísk, trag
ísk og á köflum kómísk. Bakgrunnur
sögupersónanna er svo skemmti
lega hversdagslegur og steríótýpískur.
Hrafn og Egill kynntumst í Árbænum
þar sem sá fyrrnefndi, pabbastrákur
inn sem fær allt upp í hendurnar, bjó
í fínu einbýlishúsi í Ásunum á meðan
sá síðarnefndi, alþýðudrengurinn
sem þarf að vinna fyrir lífinu, bjó í
blokk í Hraunbænum. Þessi ólíki bak
grunnur þeirra býr til spennu á milli
þeirra sem gengur í gegnum alla bók
ina. Samt verða þeir miklir vinir og
bralla ýmislegt ungæðislegt saman.
Við allt annan tón kveður í þeim
hlutum bókarinnar þar sem Steinar
Bragi lýsir bakgrunni persónanna,
þar er á stundum meiri afslöppun
og húmor, en í þeim hlutum þar sem
ónotalegri veru þeirra á hálendinu
er lýst. Báðir þessir þræðir hafa sína
kosti og koma hæfileikar Steinars
Braga sem realísks samtímarýnis
fram í þeim fyrrnefnda. Atburðalýs
ingin á hálendinu er samt sá þáttur
sem keyrir lesandann áfram í leit
sinni að svörum við spurningunum
sem vakna við lesturinn. Í þeim
skilningi er bókin á yfirborðinu eins
og hrollvekja.
Lesendur bókarinnar þurfa svo
sjálfir að átta sig á tengslunum á milli
þessara tveggja þráða Steinars Braga,
lýsinganna á bakgrunni og sálar
lífi sögupersónanna, og nöturlegra
atburðanna sem þau upplifa á há
lendinu. Í lok bókarinnar er hugsan
legt að lesandanum líði á sambæri
legan hátt og honum leið líklega fyrir
nokkrum árum þegar eitthvað stórt
gaf sig á Íslandi og við rönkuðum
eilítið við okkur. Tómarúmið sem
bókin skilur eftir sig getur jafnvel lát
ið lesandann velta því fyrir sér hvort
atburðirnir í Hálendinu séu ekki bara
órar huga sem er í losti eftir alvarlegt
áfall. n
Hrunið á hálendinu
Hálendið
Höfundur: Steinar Bragi.
Útgefandi: Forlagið.
Ingi Freyr Vilhjálmsson
ingi@dv.is
Dómur