Dagblaðið Vísir - DV - 31.10.2008, Blaðsíða 38
Græðgi réð ferðinni
Ég efa ekki að ráðamenn séu að gera það sem þeir geta til að bjarga okkur úr því öng-þveiti sem við erum komin í.
Þó skil ég ekki sumt af því sem ver-
ið er að gera, til að mynda að hækka
stýrivexti Seðlabankans,“ segir Stein-
grímur Hermannsson, fyrrverandi
forsætisráðherra, formaður Fram-
sóknarflokksins og seðlabankastjóri.
Steingrímur hefur fylgst vel með því
sem gengið hefur á í þjóðfélaginu
undanfarnar vikur, þrátt fyrir að hafa
verið staddur á Spáni í golfferð þeg-
ar bankarnir hrundu einn af öðrum.
„Ég missti því af miklu af þessu sem
var að gerast. En ég var í stöðugu
símasambandi.“
Á meðal þess sem Steingrími
finnst orka tvímælis í umrótinu öllu
er tveggja milljarða dollara lán-
ið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
hefur gefið vilyrði fyrir til handa Ís-
lendingum. „Ég er tortrygginn á Al-
þjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann er svo
markaðshyggjustefndur. Og hann
hefur alltaf verið það. Hann hef-
ur ekki staðið sig vel í ýmsum lönd-
um upp á síðkastið. Honum mis-
tókst til dæmis ferlega í Suður-Kóreu
og þurfti að biðjast afsökunar á því.
Ég held að ástandið hér í okkar litla
þjóðfélagi sé töluvert annað heldur
en þeir skilgreina.“
Sáu menn ekki hætturnar?
Steingrímur kveðst ekki hissa á
að hrun markaðshyggjunnar um
heim allan hafi áhrif hér á landi.
„En ég spyr: Sáu menn ekki í hvað
stefndi? Hér sat ég heima og sá að
það voru hættur framundan. Héldu
menn að þeir gætu rekið þjóðfé-
lagið með viðskiptahalla ár eftir ár,
safnandi skuldum og stefnandi í að
verða skuldsettasta þjóð í heimi? Og
gat það gengið upp að skuldir heim-
ilanna voru orðnar tvöfaldar ef ekki
þrefaldar ráðstöfunartekjur heimil-
anna?“ spyr Steingrímur og bætir við
að þegar hann var í pólitík hafi það
verið talið hættulegt þegar skuldirn-
ar voru orðnar jafnháar ráðstöfunar-
tekjunum.
„Og ég spyr hvers vegna bönkun-
um var hleypt lausum við einkavæð-
inguna? Hvers vegna voru ekki sett-
ar einhverjar girðingar? Þetta minnti
mig á þegar kúnum var hleypt út á
vorin í sveitinni. Þær hlupu alltaf í
fjóshauginn ef hans var ekki gætt,“
segir Steingrímur. Hann kveðst vissu-
lega hafa verið fylgjandi einkavæð-
ingu bankanna á sínum tíma, en vildi
að farið hefði verið hægar í sakirnar,
til að mynda með því að einkavæða
annan bankann í einu. „Ég var líka
algjörlega á móti því að leggja niður
Þjóðhagsstofnun. Ég taldi það hreina
vitleysu. Við þurftum mjög á henni
að halda. Og hvað með bindiskyld-
una sem var felld niður? Fjármála-
eftirlitið hefði svo þurft að efla mjög
mikið í ljósi breyttra aðstæðna.“
Ég afsaka engan
Þegar bankarnir voru einkavædd-
ir átti að setja niður reglur um rekst-
ur bankanna að mati Steingríms og
gæta þess vandlega að þeir yxu ís-
lenska þjóðarbúinu ekki yfir höfuð.
„Sáu menn ekki þegar Landsbank-
inn opnaði útibú í Bretlandi að þeir
voru komnir í vandræði og fóru því
að leita eftir fjármagni þar?“
Steingrímur furðar sig á því, ef
rétt er, að mönnum hafi ekki verið
ljóst að hættuástand væri í uppsigl-
ingu þegar bankarnir voru orðnir
margfalt stærri en íslenska þjóðar-
búið. „Það er svo mörgum spurning-
um ósvarað. Hvað réð til dæmis ferð-
inni? Mér sýnist það fyrst og fremst
hafa verið græðgi sem réð ferðinni.
Af sumum var græðgin talin vera afl-
vaki hagvaxtar. En græðgin er versti
eiginleiki mannsins. Hún hefur mjög
augljóslega gengið yfir allt undan-
farin ár,“ segir Steingrímur og setur
hljóðan.
Margir segja Sjálfstæðisflokki
og Framsóknarflokki um að kenna
hvernig fór þar sem þessir tveir
flokkar voru í ríkisstjórn þegar bank-
arnir voru einkavæddir. Steingrím-
ur, formaður Framsóknarflokksins
til fimmtán ára, segir alveg rétt að
báðir flokkarnir eigi sök á því hvern-
ig fór. „En þeir flokkar sem hafa ver-
ið við völd núna í sautján mánuði
eða svo áttu að grípa langtum fyrr í
taumana. Þannig að það eru margir
sem eiga sök á því hvernig fór og ég
afsaka engan í þeim efnum.“ Útrás-
arvíkingarnir svokölluðu eiga stóra
sök að mati Steingríms, enda stjórn-
uðust þeir af algjörlega hóflausri
græðgi.
Ekki hræddur við Rússana
Steingrími finnst erfitt eins og
sakir standa að leggja mat á við-
brögð stjórnvalda eftir að bankarnir
hrundu. Svo mörgum spurningum
sé enn ósvarað og margt fullyrt sem
ekki hafi fengist staðfest. „En mér
finnst þetta heldur fálmkennt.“
Eins og kom fram í máli Stein-
gríms hér að framan tekur hann lán-
inu sem stjórnvöld hafa fengið vilyrði
fyrir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
með fyrirvara. Rússalánsins sem
verið hefur í deiglunni horfir hann
jákvæðar til. „Mér finnst alveg sjálf-
sagt að tala við Rússana. Ég er ekkert
hræddur við þá,“ segir hann. Á Stein-
grími er að heyra að honum finnist
það ekki orka tvímælis að óska eft-
ir aðstoð Rússa eftir áratugalangt
hernaðarlegt samstarf og vináttu,
að minnsta kosti meinta vináttu, við
Bandaríkjamenn.
„Ég held mikið upp á Bandarík-
in, og á marga vini og kunningja þar,
en Bandaríkjamenn reyndust okkur
ekkert sérstaklega vel þegar Vellin-
um var lokað nánast fyrirvaralaust.
Ég var reyndar þeirrar skoðunar að
það hefði átt að gerast fyrr. En þeir
komu ekkert sérstaklega fallega fram
við okkar ráðamenn verð ég að segja.
Og ég held að í svona ástandi sé eng-
inn annars vinur, en menn ættu að
þiggja aðstoð hvaðan sem hún kem-
ur, ef hún er ekki bundin neinum skil-
yrðum. Ég hef ekki heyrt nein skilyrði
frá Rússum, en ég heyrði skilyrði frá
Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.“
Megum ekki ösla fram
Hvað varðar fyrstu skref í endur-
uppbyggingunni sem framundan er
segir Steingrímur nauðsynlegt að ná
samstöðu allra. „Og ég myndi leggja
áherslu á að styrkja okkar innviði
– sjávarútveginn, landbúnaðinn og
þann iðnað sem við eigum hér. Sem
betur fer lifir landbúnaðurinn enn.
Og við verðum að koma gjaldeyris-
málunum í lag til að geta átt viðskipti
erlendis. Við komumst út úr þessu
en það tekur okkur töluverðan tíma.
Ég er ekki svartsýnn á framtíðina því
við eigum svo mikið af vel menntuðu
ungu fólki og fólki sem trúir á Ísland
og nýsköpunarmátt þjóðarinnar. Það
var til dæmis mjög gaman að hlusta
á Björk í sjónvarpinu í gærkvöldi
[fyrrakvöld].“
Umhverfisvernd hefur lengi verið
Steingrími hugleikin og finnst hon-
um mjög rangt að setja hana á hak-
ann í skjóli slæms árferðis nú um
stundir. Bygging fleiri álvera í nafni
aukinnar atvinnusköpunar hugn-
ast honum því ekki. „Ég held að það
sé komið nóg af álverum í bráð. Eitt
álver breytir eflaust litlu af eða á en
ég held að það sé mjög skakkt að
kasta umhverfisvernd út um glugg-
ann núna. Við þurfum mjög á því að
halda að framtíð sé í ferðaþjónust-
unni,“ segir Steingrímur og bætir við
að íslensk stjórnvöld eigi að styðja
vel við bakið á sprotafyrirtækjum.
„Við megum ekki ösla fram og gera
hluti í blindni.“
Fylgist jafnvel of vel með
Sjálfur kveðst Steingrímur ekki
hafa tapað neinu á hruninu. Hann
átti hlutabréf þegar skattaafsláttur
var veittur af slíkum kaupum en seldi
um leið og mátt selja skattlaust. „Ég
hef mín góðu eftirlaun og hef engu
tapað. Ég hef hins vegar áhyggjur af
unga fólkinu sem er búið að binda
á sig stóra bagga með íbúðir á ofur-
lánum, jafnvel gengistryggðum. Mér
finnst það sorglegt.“
Steingrímur fylgist enn vel með
þjóðfélagsumræðunni. Þá gildir
einu hvort hann er staddur á Íslandi,
Spáni, Bandaríkjunum eða annars
staðar í veröldinni. „Ef eitthvað er
fylgist ég of vel með henni. Krakk-
arnir segja að ég megi aldrei missa af
fréttunum. Þótt ég sé orðinn of gam-
all til þess að skipta mér af þjóðmál-
unum fylgist ég með.“
kristjanh@dv.is
föstudagur 31. október 200838 Helgarblað
Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra landsins í samtals sjö ár á 9. og 10. áratugnum og seðla-
bankastjóri í fjögur ár. Hann furðar sig á því hversu blind stjórnvöld voru á þróunina í efnahagsmálum fyrir
hrun bankanna og hversu fálmkennd viðbrögð þeirra eru núna. Steingrímur segir hóflausa græðgi hafa rek-
ið útrásarvíkingana áfram, og það sé versti eiginleiki mannsins. Hann horfir þó bjartsýnum augum á fram-
tíð íslensku þjóðarinnar.
Steingrímur Hermannsson „Hér sat ég
heima og sá að það voru hættur fram undan.
Héldu menn að þeir gætu rekið þjóðfélagið
með viðskiptahalla ár eftir ár?“ spyr steingrímur.