Lögmannablaðið - 01.10.2013, Blaðsíða 22
22 lögmannaBlaÐiÐ tBl 03/13
Á léttUM nótUM
af merði lögmanni
Mörður er í þungum þönkum þar sem hann berst á móti sölnuðu laufi og túristum
sem feykjast um Austurstrætið og skeyta engu um síðmiðaldra lögmann í súru skapi.
Fyrirtöku í skiptamáli var rétt að ljúka,þar sem Mörður fékk yfirhalningu frá dómara
sem lapti hverja vitleysuna á fætur annarri frá ungu lögfreyjunni sem sat á móti
Merði, velgreidd og vellyktandi en með ógurlegan vandlætingarsvip yfir málsmeðferð
Marðar - eða öllu heldur því sem hún taldi uppá hana vanta.
Það er brýn nauðsyn að mati Marðar að setja aldurstakmörk og kynjakvóta á
lögmannsréttindi og koma með því í veg fyrir stórhættulega offjölgun í stéttinni.
Ofgnótt er aldrei af hinu góða að mati Marðar sem man þá gömlu góðu daga þegar hann
þekkti alla kollega sína og kellingar í stéttinni var hægt að telja upp á fingrum
beggja handa.
Það var svo alfarið henni að kenna, þessari lögfreyju, að Merði entist ekki sumarið
til að hefja glæstan golfferil sinn, sökum anna við að ljúka skiptum á dánarbúi sem
hafði tafist aðeins eilítið að ganga frá. Það var ljóst að lögfreyjan hafði aldrei
skipt dánarbúi sjálf og hafði engan skilning á því að það er ekkert óeðlilegt við
það þó að það taki svo sem áratug eða þrjá að ganga frá svona máli. Rétt fyrir
réttarhlé skullu ósköpin á Merði þegar erfingjar erfingjanna réðu sér nýjan lögmann,
þann þriðja eða fjórða sjálfsagt. Upphófst þá endalaust ónæði þar sem Merði var
hótað öllu illu ef hann lyki ekki skiptum þegar í stað, kærum til háttvísisnefndar
lögmanna, klögum til dómstóla og jafnvel opnuúttekt í DV. Romsaði lögfreyjan við
öll tækifæri uppúr sér orðrétt hinum og þessum lagagreinum og fræðitilvísunum. Ekki
fór minnstur tími í það að vísa í stjórnarskrá og MSE (sem Mörður hélt reyndar að
væri stórhættulegt krydd ættað frá austurlöndum). Útskýringum Marðar og föðurlegum
ráðleggingum um lögmannshætti almennt og samvinnu kollega var ekki vel tekið og hélt
lögfreyjan því ítrekað fram að ef Mörður hefði virkilega einhvern tíma lagt stund á
skiptarétt þá væri alveg „kýrskýrt“ (eins og hún lagði sérstaka áherslu á) að hann
væri orðinn svo kalkaður að hann væri búinn að gleyma því og almennri kurteisi í
þokkabót.
Mörður greip þarna síðsumars í örvæntingu sinni til þess ráðs að leita aðstoðar
hjá gömlum kollega sínum sem kennir sig við skandínavískt ríkisflugfélag. Kolleginn,
sem er bóngóður og skilningsríkur að eðlisfari, var meira en til í að hjálpa og
sagðist ætla „adda lögfreyjunni á feisbúkk.“ Mörður hefur ekki hugmynd um hvað það
þýðir, vonandi ekkert refsivert, en það svínvirkaði því hringingum og bréfaskriftum
freyjunnar stórfækkaði svo að Merði gafst færi á að skreppa heim í hérað í réttir.
Ekki varð sú ferð þó til að lyfta geði Marðar. Í samtölum sínum við gamla
sveitunga í réttunum taldist honum svo til að hlutfall framámanna í Framsóknarfélagi
Strandamanna, sem ekki hefðu landað ráð- eða nefndarsetu, væri á pari við fjölda
áfrýjanna Marðar til Hæstaréttar sem ekki hefur verið vísað frá. Hvorugt hlutfallið
kætir skammdegisskap Marðar sem í hundrað daga hefur beðið með réttmætar væntingar
eftir því að formaðurinn ungi og gjörvulegi leitaði í reynslubrunn hans til að stýra
einhverri nefndinni eða ráðinu sem hafa hlaðist upp í sumar eins og hormónabólur á
nefi unglingsdrengs.
Á sama tíma berast hins vegar fréttir af hverjum flokksfolanum á fætur öðrum
sem landað hefur feitum bitlingi. Í kjötkatlafræðunum eru landanir í anda
náttúruunnandans Helga Jó. Þar er ekkert „veiða og sleppa“ rugl á ferð og landaður
bitlingur úthlutast því ekki aftur á tímabilinu.