Náttúrufræðingurinn - 2011, Qupperneq 32
Náttúrufræðingurinn
84
Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur á
sveppum í greninálabreiðum, sem
kynntar voru á veggspjöldum, gáfu
innsýn í tegundafjölbreytni á öllu
smærri og sérhæfðari kvarða, sem í
báðum tilvikum hefur mikil áhrif í
stærra samhengi.
Flokkunarfræði (e. systematics) er
afar mikilvæg fræðigrein sem veitir
okkur yfirlit yfir tegundafjölbreytni
og leitast við að skilja skyldleika
tegunda og þróunarsögu. Eins og
kom fram hér á undan er enn verið
að uppgötva og lýsa nýjum teg-
undum og er sífellt verið að endur-
skoða flokkun lífvera í ljósi nýrra
aðferða við skyldleikarannsóknir.
Erindi Starra Heiðmarssonar um
svertuætt (Verrucariaceae) gaf góða
innsýn í þær rannsóknir. Tegundir
eru hins vegar hvorki staðlaðar
mælieiningar né einu mælieiningar
lífbreytileika.
Breytileiki innan tegunda
og tegundamyndun
Það getur oft reynst erfitt að
aðgreina mismunandi tegundir því
innan tegundar getur leynst geysi-
mikill breytileiki. Þetta á ekki síst
við hið unga lífríki norðurslóða,
sem er í hraðri mótun eftir rask
jökla sem þar gengu ítrekað yfir á
jökulskeiðum ísaldar. Þetta var inn-
tak nokkurra erinda og veggspjalda
ráðstefnunnar. Snæbjörn Pálsson
fjallaði um hvernig skýra má mis-
munandi erfðabreytileika í stofnum
ólíkra tegunda út frá sögu landnáms,
líflandafræði og möguleika tegunda
til kynblöndunar. Í erindi sínu kom
Skúli Skúlason inn á sama þema
og vakti jafnframt athygli á mikil-
vægi þess að þekkja ýmsa vist- og
þróunarfræðilega ferla til að vernda
lífbreytileika. Bjarni K. Kristjánsson
fylgdi þessu eftir í umfjöllun sinni
um mikilvægi vistfræði fyrir þróun
og tegundamyndun, ferli sem er í
fullum gangi nú sem fyrr.
Stöðuvötn hér á landi skapa ein-
stakar aðstæður til að skoða vist- og
þróunarfræðilega ferla og má líta
á þau sem náttúrulega tilraun þar
sem stofnar sömu tegundar hafa
verið einangraðir hver frá öðrum
í mislangan tíma. Tvær tegundir
ferskvatnsfiska, bleikja og hornsíli,
hafa reynst einstaklega heppilegar
til að svara spurningum sem varða
aðlögun að búsvæðum og tegunda-
myndun. Auk erinda þeirra Skúla
og Bjarna gerðu Kalina Kapralova
og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir þessu
góð skil í erindum sínum. Einnig
voru rannsóknir tengdar erfða-
breytileika bleikjunnar kynntar
á veggspjöldum þeirra Ragnars
Óla Vilmundarsonar og félaga og
Sigrúnar Reynisdóttur og félaga.
Erfðabreytileiki og þróun lífvera
í hafinu er einnig rannsóknarverk-
efni öflugra rannsóknahópa hér
á landi. Hildur Magnúsdóttir og
meðhöfundar kynntu rannsóknir
á erfðabreytileika beitukóngs við
Ísland og Færeyjar sem sýndu fram
á talsverða aðgreiningu mismun-
andi stofna. Óskar Sindri Gíslason
og félagar kynntu rannsóknir á
erfðabreytileika grjótkrabba sem er
nýr landnemi við Íslandsstrendur,
kominn hingað frá Norður-Ameríku,
en mikill erfðabreytileiki landnema-
stofnsins bendir til að hann sé mjög
lífvænlegur hér við land. Þorskur-
inn er e.t.v. okkar verðmætasti nytja-
stofn. Ubaldo B. Hernandez og
Einar Árnason kynntu rannsóknir
á genaaðlögun þorsks að mismun-
andi umhverfisþáttum.
Manngerð vistkerfi og
landgræðsla
Með ræktun raskar maðurinn nátt-
úrulegum vistkerfum og skapar
ný og það er mikilvægt að skoða
þessi manngerðu vistkerfi í ljósi
lífbreytileika. Ásrún Elmarsdóttir
kynnti niðurstöður umfangsmikils
samvinnuverkefnis fimm stofnana
sem nefnt var Skógvist, en mark-
mið þess var m.a. að lýsa og bera
saman tegundafjölbreytni ræktaðra
og náttúrulegra skóga. Mikilvæg-
ustu skilaboðin voru þau að ef meta
á áhrif skógræktar á fjölda tegunda
nægir ekki að skoða einn eða fáa
lífveruhópa. Ragnhildur Sigurðar-
dóttir gerði grein fyrir rannsóknum
sem sýna að tvær tegundir inn-
fluttra barrviða, rússalerki og stafaf-
ura, hafa ólík en í báðum tilfellum
mikil og óafturkræf áhrif á starfsemi
vistkerfa. Þekking á áhrifum teg-
undafjölbreytni á starfsemi vistkerfa
er einnig mikilvæg við þróun sjálf-
bærra ræktunarkerfa, en um það
fjallaði Áslaug Helgadóttir.
Eins og áður var getið er eyðing
búsvæða nú ein helsta ógnin við líf-
breytileika í heiminum. Hér á landi
hefur Landgræðsla ríkisins gegnt
lykilhlutverki í að stemma stigu við
eyðingu gróðurs og hefur á síðari
árum, í samstarfi við aðrar stofn-
anir, í æ ríkara mæli einbeitt sér að
endurheimt vistkerfa. Í erindi sínu
gaf Guðmundur Halldórsson yfirlit
yfir það starf.
Hvati til frekari rann-
sókna og samvinnu
Sigurður Þráinsson ávarpaði ráð-
stefnuna fyrir hönd umhverfisráð-
herra. Hann flutti ráðstefnugestum
fréttir af nýafstöðnum ársfundi aðild-
arríkja samningsins um líffræðilega
fjölbreytni, sem haldinn var í Nagoya
í Japan. Þar náðist samkomulag um
framkvæmd samningsins næstu tíu
árin, sem felur meðal annars í sér
að stefnt skuli að því að draga úr
eyðingu búsvæða um 50–100%, að
15% laskaðra svæða verði endur-
heimt og að verndarsvæði verði
stækkuð þannig að þau nái yfir
17% þurrlendis og 10% hafsvæða.
Þetta eru mjög góðar fréttir en jafn-
framt felst í þessu mikil áskorun
fyrir vísindamenn sem sinna rann-
sóknum á þessu sviði.
Ráðstefna Vistfræðifélagsins og
Líffræðifélagsins tókst mjög vel, og
má búast við því að hún hvetji til
frekari rannsókna á lífbreytileika og
aukinnar samvinnu íslenskra vís-
indamanna. Ráðstefnan var styrkt
af Umhverfisráðuneytinu og Gróco
og færi ég þeim þakkir fyrir hönd
skipulagsnefndar. Snæbjörn Pálsson
og Ástþór Gíslason lásu yfir hand-
ritið og kann ég þeim bestu þakkir
fyrir.
Ingibjörg Svala Jónsdóttir,
formaður Vistfræðifélags Íslands
81_2#profork070711.indd 84 7/8/11 7:41:47 AM