Són - 01.01.2006, Side 134
ÖRN ÓLAFSSON134
en það verk einkennist mikið af samskonar surrealisma þar sem
ósamrýmanleg atriði eru sameinuð. Þorsteinn minnist bara á „Ungl-
inginn í skóginum“ og „Rhodymenia palmata“, sem voru miklu
minni nýjung en þessi kvæði Halldórs.
Tilvísanir Þorsteins
Framangreindar yfirsjónir eru frágangssök. En ekki tekur betra við
þegar rýnt er í það sem Þorsteinn hefur eftir fræðiritum. Hann hengir
hatt sinn á að Hugo Friedrich sagðist una sér betur í félagsskap
Goethes en Eliots og að hann skilgreindi módernismann neikvætt og
því segir Þorsteinn að Friedrich „setji fyrir sig óskiljanleika” módern-
ismans.32 En þegar Friedrich segir um Illuminations Rimbaud að þær
séu fyrsta stórvirki ímyndunarafls sem orðið sé algerlega nútímalegt
(“Sie sind das erste grosse Denkmal der absolut gewordenen
modernen Phantasie”)33 þá skil ég það sem aðdáun, og það hlýtur
þýskukennarinn og þýskuþýðandinn Þorsteinn að vita. Og þetta tel
ég eitt dæmi af mörgum um óvandaða meðferð hans á fræðiritum sem
hann vitnar til. Það skiptir að mínu mati engu máli hvaða skáldskap
Hugo Friedrich var hrifnastur af. Ég hefi ekki meiri áhuga á því en
hinu hvort hann var meira fyrir svínasteik eða héra. Spurningin er
einfaldlega hvort lýsing hans á módernum ljóðmælum í þessari bók
hans sé frjó, gefi góða hugmynd um þau. Það sýnist mér einmitt af
öllum þessum neikvæðu skilgreiningum, sem Friedrich leggur áherslu
á, að séu ekki fordæming. Hann segir ennfremur í lauslegri þýðingu
minni:
Sú hugmynd reis af túlkun rómantískra ljóða, að ljóð væru
einkum mál tilfinninga, tjáning einstaklingssálar. Því gætu ljóð
veitt samkennd, jafnvel þeim sem mest væri einmana. En þessi
kenning er of mikil alhæfing. Módern ljóð forðast þetta sam-
kenndarrými. Þau sneiða hjá því sem kallað var mannlegt, þ.e.,
þau sneiða hjá reynslu, tilfinningum, og og oft sneiða þau hjá
persónu skáldsins. Skáldið birtist þá ekki sem einstaklingur í
ljóðum sínum, heldur er þar bara unnið úr möguleikum
málsins, efnið séð frá óvæntum sjónarhóli.34
32 Þorsteinn Þorsteinsson (2005:101).
33 Friedrich, Hugo. (1988:84).
34 Friedrich, Hugo. (1988:16–18).