Són - 01.01.2006, Síða 137
GÖMUL PRÓSALJÓÐ OG FRÍLJÓÐ 137
Breton tók þessa skilgreiningu raunar aftur upp aldarfjórðungi síðar,
1949, í bókinni Rísandi merki (Signe ascendant) og bætti þá við (sbr, grein
mína í Andvara 2005):
Svo bráðnauðsynlegt sem þetta skilyrði er, þá nægir það ekki.
Við hlið þess skipar sér önnur krafa, sem gæti reynst siðferðileg,
þegar allt kemur til alls. Athugið að enda þótt hliðstæðumyndin
takmarkist við að varpa hinu skærasta ljósi á svip að hluta, þá
getur hún ekki orðið jafna. Hún hreyfist milli þeirra tveggja
fyrirbæra, sem birtast, í ákveðna átt, og þeirri hreyfingu verður ekki
snúið við. Frá fyrra fyrirbærinu til hins síðara markar hún lífs-
þrungna spennu sem beinist eins og mögulegt er að heilbrigði,
ánægju, kyrrð, veittum þokka, samþykktum siðum.44
Í Kóralforspili skrifaði ég meðal annars:
Í þessari rannsókn rekumst við iðulega á þessa ofuráherslu á
hugmyndir í bókmenntaverkum, áherslu á umfjöllunarefni
skálda og viðhorf, rétt eins og þeir hefðu skrifað blaðagreinar en
ekki bókmenntaverk. Ég held að þetta viðhorf megi kalla at-
vinnusjúkdóm menntamanna. Samkenni þeirra er í rauninni
hvorki þekking, prófgráður né fræðileg vinnubrögð, heldur ein-
faldlega það, að þeir fást við hugmyndir, fyrst og fremst. Því eru
það þær sem einkum höfða til þeirra í bókmenntum, nema þeir
fái þjálfun í að huga að öðru.45
Úr þessu gerir Þorsteinn að ég kalli það „atvinnusjúkdóm mennta-
manna“ að gefa gaum að hugmyndum”46 í stað þess sem ég sagði,
að leggja ofuráherslu á þær. Til hvers er þessi rangfærsla? Til að
auðvelda að hafna riti mínu?
Ennfremur segir Þorsteinn að skilgreining mín á módernisma sé
„fjarskalega þröng, mun þrengri en enska hugtakið modernism, og hæfir
varla öðrum ljóðum en þeim sem eiga ættir að rekja til súrrealisma.“47
Þetta eru bein ósannindi, ég ræði auk þess expressjónisma á fimmtán
44 Breton, Andre (1949:11–12). Þýðing mín.
45 Örn Ólafsson. Kóralforspil hafsins (1992:23).
46 Þorsteinn Þorsteinsson (2005:96).
47 Þorsteinn Þorsteinsson (2005:97).