Són - 01.01.2006, Page 141
Aðalheiður Guðmundsdóttir
Ljóð 2005
Íslendingar hafa löngum verið taldir ljóðelsk þjóð, jafnvel svo að tíð-
indum þykir sæta. „Er það satt að annar hver maður á Íslandi hafi gefið
út ljóðabók?“ spurði Bandaríkjamaður mig fyrir nokkrum árum með
þessum barnslega eftirvæntingarsvip sem útlendingar setja gjarnan upp
þegar þeir spyrja: „Er það satt að Íslendingar trúi á álfa?“ Það er eins
og þeir vonist hálfvegis eftir jákvæðu svari í báðum tilvikum og gott ef
ekki glittir í svolítinn vonarneista að baki spyrjandi augnaráðinu; ef til
vill vantar spyrjandann ekki annað en staðfestingu á því að mannkynið
sé ekki, þrátt fyrir allt, með öllu glatað – en það er annað mál.
Á meðan goðsagan um ljóðafólkið norður í hafi hefur væntanlega
náð að festa rætur í hugum menningarvita hér og hvar um heiminn
lítur ljóðafólkið sjálft öðrum augum á stöðu mála. Þetta er óttalegt
streð, þetta ljóðabasl. Sala ljóðabóka er lítil og einungis þekktustu
skáldin geta gengið að því sem vísu að fá bækur sínar gefnar út. Í pistli
í Morgunblaðinu þann 6. janúar 2006 talar Jóhann Hjálmarsson um
tómlæti í garð ljóðabóka og telur það vera hættulegt; það geti „dregið
mátt úr skáldum og jafnvel fengið þau til að gefast upp“ og setja ljóð
sín niður í skúffu.1 Það er rétt að ljóðabækur eru lítið áberandi og ná
aldrei að vekja viðlíka athygli og skáldsögur, hvað þá ævisögur, í
annars stórtækri bókaframleiðslu landsmanna. En ef til vill má líka
segja að meginhluti ljóðabóka tilheyri neðanjarðarmenningunni frek-
ar en þeirri opinberu, og kannski er það vel. Ljóð hafa nefnilega til-
hneigingu til að vera fremur „innhverfar“ bókmenntir, jafnvel stund-
um svolítið „einrænar“ enda hafa þau verið nefnd listform sálarinnar.
Það er því oftar en ekki svolítil dulúð sem fylgir ljóðskáldum og
bókum þeirra og dulúðin þrífst, ef eitthvað er, betur neðanjarðar eða
að minnsta kosti nálægt jaðri þess viðurkennda.
En hvernig stóð ljóðagerð á Íslandi árið 2005? Hversu slæmt ætli
ástandið hafi verið? Í eftirfarandi grein – eða réttara sagt skýrslu –
verður gefið yfirlit um stöðu íslenskrar ljóðlistar árið 2005; bækur
1 Jóhann Hjálmarsson (2006:22).