Són - 01.01.2012, Page 9
Gunnar Skarphéðinsson
„Yggjar bjór hver eiga myni,
ósýnt þykir lýða kyni“
Málsháttakvæði – nokkrar vangaveltur
um hugsanlegan höfund1
Inngangur
Fyrir nokkrum árum gaf ég út svokallað Málsháttakvæði (M) og samdi
jafnframt skýringar við kvæðið.2 M er þrítug runhend drápa og er
nafnlaust í eina handritinu, sem geymir kvæðið, en það er Konungs
bók Snorra-Eddu.3 Þýskur fræðimaður, Theodor Möbius (1821–1890),
varð fyrstur til þess að gefa kvæðið út árið 1873. Hann skýrði kvæðið
rækilega og bjó til þýska endursögn. Einnig samdi hann greinargóðan
inngang og lét kvæðinu fylgja orðasafn.4 Auk þess fjallaði hann um
mansöng (Vom isländischen mansöngr, bls. 42–61) frá ýmsum hliðum
og gerði bókmenntasögulega grein fyrir honum. Útgáfan er frábær-
lega vel úr garði gerð og allar athugasemdir og skýringar samdar af
mikilli nákvæmni.
M, sem talið er ort á þrettándu öld, var þó þekkt meðal fræði-
manna áður en Möbius gaf það út og til dæmis notuðu þeir Svein -
björn Egilsson og Guðbrandur Vigfússon báðir kvæðið þegar þeir gáfu
út orðabækur sínar og tóku þaðan allmörg dæmi. Sveinbjörn nefndi
það Amatorium carmen eða Mansaungsdrápu en í orðabók þeirra Cleasbys
og Guðbrands Vigfússonar er það nefnt Málsháttakvæði (proverbiorum
carmen) og því heiti hefur kvæðið jafnan haldið síðan. Möbius valdi
1 Ég vil þakka ónafngreindum ritrýnendum tímaritsins Sónar fyrir afar gagnlegar
ábendingar. Einnig þakka ég Baldri Hafstað, Guðrúnu Nordal, Helga Bernódussyni,
Jóni Friðjónssyni og Óskari Guðmundssyni fyrir yfirlestur greinarinnar og góðar
athuga semdir. Ég slæ samt hinn gamalkunna varnagla – einn ber ég vitaskuld alla
ábyrgð á því sem ofsagt eða vansagt kann að vera í greininni.
2 Gunnar Skarphéðinsson. (2004). „Málsháttakvæði.“ Són. Tímarit um óðfræði, 2. hefti, bls.
31–72.
3 Wessén. (1940).
4 Málsháttakvæði (1873) (Sprichwörtergedicht). Ein isländisches gedicht des XIII. jahr-
hunderts. Separatabdruck aus der Zeitschr. f. deutsch Phil. Ergänzungsb. Halle,
Buch-druckerei des Waisenhauses. Th. Möbius gaf út.