Són - 01.01.2012, Page 12
12 Gunnar Skarphéðinsson
ekki allir. Til dæmis segir Jan de Vries að ekki séu nægilegar forsendur
til þess að eigna Bjarna kvæðið. Hann bendir hins vegar á að J sýni að
sá, sem orti hana, hafi þekkt vel til íslenskra dróttkvæðaskálda.15
Í þessari grein verður sett fram sú hugmynd að Snorri Sturluson
hafi hugsanlega ort M og konan, sem um er rætt í kvæðinu og sem
Snorri hafi að öllum líkindum haft í huga, sé Solveig Sæmundardóttir
af ætt Oddaverja. Til þess að glöggva sig betur á sögu Solveigar verður
rakið allrækilega í viðauka hvar og hvernig Solveig kemur við sögu í
Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar í Sturlungu, sem er höfuðheimild um
hana. Í Íslendinga sögu kemur berlega fram að Snorri hafi ætlað sér að
ganga að eiga Solveigu en Sturla, bróðursonur hans Sighvatsson, hafi
orðið hlutskarpari.
Málsháttakvæði – athuganir I
Hér á eftir verða rakin dæmi um einhvers konar samsvaranir eða hlið-
stæður á milli Snorra og verka hans annars vegar og Málsháttakvæðisins
hins vegar. Dæmin verða rakin eftir því sem þau koma fyrir í hverju
erindi fyrir sig og réttri röð erindanna fylgt en þau eru 30 talsins. Öll
erindin eru varðveitt heil, að heita má, nema það fyrsta, sextánda og
lokaerindið.16
Fyrsta erindi kvæðisins er því miður nokkuð skert en þar fáum
við þó að vita hvað vakir fyrir skáldinu: færa ætlum forn orð saman, þ.e.
skáldið hyggst safna saman málsháttum og láta þá mynda meginefni
kvæðisins.
Í öðru erindinu ræðir skáldið um ætt sína og persónu. Fram kemur
að ættin er þekkt fyrir ‘flimtun’17 og skáldið segist ekki hafa farið með
slíkt tal en kynni þó fyrir ættar sakir að eiga hægt um vik í þeim efnum:
15 Vries II. (1967:69–70).
16 Ekki er hægt að birta hér nema lítil brot úr kvæðinu en bent skal á t.d. Den norsk –
islandske skjaldedigtning (Skjd. B.II:138–145) og 2. hefti Sónar (Gunnar Skarphéðinsson
2004:41–67) þar sem lesa má kvæðið í heild.
17 flimtun: orðið kemur ekki oft fyrir í skáldskap en merkingin er þekkt: ‘háð, spott, dylgj-
ur’. Yfirleitt var flím eða flimtun (flimtan) bundin við kveðskap og varð oft uppspretta
átaka og jafnvel mannvíga. Það þótti löstur á mönnum að fara með háð og spott.
T.d. segir svo um Ólaf Brynjólfsson í Ljárskógum í Sturlungu: „Þá var með Svertingi
Ólafr Brynjólfsson ok hafði sik jafnan til þess að flimta sér betri menn.“ Sturlunga saga
I (1946:332).