Són - 01.01.2012, Page 13
„Yggjar bjór hver eiga myni, ósýnt þykir lýða kyni“ 13
Ekki hefi eg með flimtun farið,
fullvel ætta eg til þess varið,
yrkja kann eg vánu verr,
vita þykist það maðurinn hverr;
Skáldið segir enn fremur að honum væri ekki stolið úr ætt þótt hann
kveði slétt (eða slætt, þ.e. ‘slælega’), nokkuð ætta eg kyn til þess. Þannig lýkur
erindinu. Ljóst er að skáldið er af kunnri skáldaætt sem einnig er kunn
fyrir háð og spé. Möbius bendir á Mýramannakyn og Sturlunga í
þessu sambandi. Hann bendir á fyrsta kafla í Gunnlaugs sögu ormstungu
þar sem getið er allmarga skálda í ætt Mýramanna.18 Kaldhæðni og
gráglettni Hvamms-Sturlu og Sighvats Sturlusonar er ágætlega kunn
úr Sturlungu svo að vel gæti skáldið til dæmis verið að vísa til þessara
manna.19 Þriðja og fjórða hendingin: yrkja kann eg vánu verr,/vita þykist
það maðurinn hverr; minnir á atburð sem frá segir í Sturlungu. Snorri hafði
í fyrri utanferð sinni ort tvö kvæði um Skúla jarl Bárðarson og voru
í drápunni klofastef alhend.20 „Sunnlendingar drógu spott mikit at
kvæðum þeim, er Snorri hafði ort um jarlinn, ok sneru afleiðis. Þór-
oddr í Selvági keypti geldingi at manni, at þetta orti“:21
Oss lízk illr at kyssa
jarl, sás ræðr fyr hjarli,
vörr es til hvöss á harra,
harðmúlaðr es Skúli.
Hefr fyr horska jöfra
hrægamms komit sævar,
þjóð finnr löst á ljóðum –,
leir aldrigi meira.
Í þriðja erindi kemur hin ‘svinneyga drós’ við sögu. Solveigu Sæ-
mundardóttur hefði vel mátt kalla ‘svinneyga drós’, því að vitur hefur
hún verið og stór í sniðum. Kona hefur farið illa með skáldið og slitið
tryggðum. Mál þeirra hefur komist í hámæli, sbr. fyrsta vísuorðið: Þjóð
spyr allt það er þrír menn vitu, og skáldið liggur ekkert á því að í kvæðinu
munu hittast hermdarorð eða bituryrði og að þar megi finna reiði eða
18 Málsháttakvæði (1873:25).
19 Gunnar Skarphéðinsson (2004:42).
20 Sjá athyglisverða grein um þetta efni eftir Heimi Pálsson (2010:25–37).
21 Sturlunga saga I (1946:278–279).