Són - 01.01.2012, Page 27
„Yggjar bjór hver eiga myni, ósýnt þykir lýða kyni“ 27
Keldum suður að Odda er ekki ýkja löng (15–20 km) en gefur þó tóm
til góðra samræðna. Þegar þau svo komu í Odda stillti Snorri svo til
„[…] at Solveig hafði koseyri65 af arfi, þeim er hon rétti hendr til.“66
Hér er ekki um að villast. Sturla Þórðarson gefur í skyn að Snorri
ætli sér að ganga að eiga Solveigu og hann láti sér annt um hags-
muni hennar því að þar séu jafnframt hagsmunir hans. Þetta fer þó á
annan veg. Sá sem hreppir hnossið er bróðursonur hans, Sturla Sig-
hvatsson. Brúðkaup þeirra Sturlu og Solveigar fór svo fram eftir páska
vorið 1223 í Hruna hjá Þorvaldi Gissurarsyni en þær mæðgur höfðu
bundið honum á hendi allt sitt ráð, eins og tekið er til orða í sögunni.
Solveig fer síðan vestur í Dali með Sturlu og tekur við búi á Sauðafelli.
Viðbrögð Snorra við þessum tíðindum eru ekki látin liggja í láginni:
„Fár varð Snorri um, er hann frétti kvánfang Sturlu, ok þótti mönnum
sem hann hefði til annars ætlat.“67 Sá sem ritar er viss í sinni sök og til
þess að för þeirra Solveigar og Snorra suður í Odda frá Keldum verði
lesendum enn eftirminnilegri og hlutur Snorra sjálfs hálfu hlálegri en
ella segir hann frá því að þau hafi mætt konu nokkurri á leið sinni sem
var fremur fátæklega búin og var einn maður með henni. Þetta reyndist
vera féríkasta kona á Íslandi, Hallveig Ormsdóttir. Snorri brosti að og
þótti ferð hennar heldur hæðileg, segir sagan. En skömmu síðar átti
það einmitt fyrir Snorra að liggja að ganga að eiga Hallveigu.68
Nokkrum árum eftir að þau Sturla og Solveig hefja búskap sinn á
Sauðafelli í Dölum á sér stað svokölluð Sauðafellsför. Tildrög hennar
voru þau að Sturla hafði staðið í deilum við Þorvald Vatnsfirðing
Snorrason. Þau urðu örlög Þorvalds að synir Hrafns Sveinbjarnarson-
ar á Eyri í Arnarfirði brenndu hann inni en þeir áttu harma að hefna
þar sem Þorvaldur var. Þorvaldur Vatnsfirðingur var tengdasonur
Snorra, kvæntur Þórdísi Snorradóttur. Sturla Sighvatsson hafði veitt
þeim Hrafnssonum liðsinni og þess vegna beindist hefnd Vatnsfirðinga
65 Orðið virðist samkvæmt Fritzner (1973) ekki koma annars staðar fyrir en í orðabók
hans er það skýrt sem ‘afnámsfé’ (sbr. kjörgripr). Guðbrandur Vigfússon (1874/1957)
þýðir það með ‘choice things’ = kjörfé.
66 Sturlunga saga I (1946:299).
67 Sturlunga saga I (1946:300).
68 Óskar Guðmundsson (2009:220–221) bendir á það í bók sinni um Snorra Sturluson
að Sturla Þórðarson (fæddur 1214) sé á barnsaldri þegar þetta atvik hafi átt að eiga
sér stað og spyr í framhaldi af því hver muni vera heimildarmaður Sturlu. Rétt er
einnig að minna á að frásagnir Sturlungu verður að skoða að margra mati samkvæmt
bókmenntasögulegum frásagnarlögmálum því að sögumaðurinn noti oft anekdótur
eða smáatvikasögur til þess að bregða upp svipmyndum af persónunum. Sjá t.d.
Úlfar Bragason og rit hans um Sturlungu (2010:119–120).