Són - 01.01.2012, Side 29
„Yggjar bjór hver eiga myni, ósýnt þykir lýða kyni“ 29
Að síðustu lýsir sagnaritarinn því hversu margir hafi særst og látist
á Sauðafelli þessa skelfilegu nótt. En lokaorðin lýsa þeim umskiptum
sem orðið hafa á bænum: „Þat var mælt, at þeira hýbýla væri mestr
munr, hversu gnóglig váru ok góð fyrir klæða sakir ok annars, áðr þeir
[Vatnsfirðingar] kómu um nóttina, ok hversu órækilig ok fátæk váru,
er þeir fóru á brott. Flaut blóð um öll hús, en niðr var steypt drykk
öllum ok spillt öllu því, er þeir máttu eigi með komast.“74
Sauðafellsför átti sér stað um miðjan janúar árið 1229.
Þessi tíðindi berast um allt land eins og vænta má og sagan segir
að flestir menn hafi lagt þungt orð til Snorra „[…] ef hann hefði
verit vitandi ferðar þessar“.75 Látið er oftar að því liggja að Snorri hafi
hugsanlega verið vitorðsmaður þeirra bræðra í Vatnsfirði og víst er
um það að hann skopast að þessum atburðum: „Snorri hafði nökkut
í fleymingi,76 er hann spurði þessi tíðindi, ok kvað.“77 Allmargar vísur
eru ortar um Sauðafellsför (10 vísur) og frá beggja hendi og þar af á
Snorri eina vísu illa. Það er því ekki að undra að það sé heldur fátt
með þeim frændum, Snorra og Sturlu Sighvatssyni, eftir Sauðafellsför.
Þeir hafa verið að takast á um Snorrungagoðorð, sem Sighvatur á
Grund hafði farið með, en goðorðið var arfleifð þeirra bræðra þriggja:
Þórðar, Sighvats og Snorra. Sighvatur hafði látið það ganga til Sturlu,
sonar síns, til kvonmundar honum. Ef við leiðum hugann að glæsileika
og gáfum Solveigar og gerum jafnframt ráð fyrir að Snorri sé vonbiðill
hennar er þessi vitneskja síst til þess fallin að mýkja lund hans.
Vorið eftir Sauðafellsför (1229) fjölmenna menn mjög til þings.
Sagan segir að Snorri hafi ekki haft færra en sjö hundruð manna.
Þórður bróðir hans veitir honum lið og einnig Böðvar, sonur Þórðar.
Það er spennuþrungið andrúmsloft þegar menn ríða ofan frá Sleðaási
og suður á vellina og flokkar manna mætast þar. Hér hittast náfrændur
og venslamenn og telja ýmsir sig eiga högg í annars garði. Frá þessum
fundi fáum við hina glæsilegu lýsingu á Sturlu Sighvatssyni á hesti
sínum, Álftarlegg, sem fyrr var getið. En þegar Böðvar Þórðarson,
frændi hans, heilsar honum tekur Solveig til orða og mælir þessi
vísdómsorð til bónda síns: „Hygg at nú, hvé langt frændum þínum
ganga neðan kveðjurnar við þik.“78 Það vekur eftirtekt að Solveig skuli
74 Op.cit.
75 Sturlunga saga I (1946:330).
76 hafa nokkuð í fleymingi: ‘hafa að háði eða spotti’.
77 Sturlunga saga I (1946:329).
78 hvé langt frændum þínum ganga neðan kveðjurnar: ‘hvort kveðjur frænda þinna koma frá
hjartanu’.