Són - 01.01.2012, Page 43
Gagn, gæði og gömul vísa um Grímsey 43
Skrifari handritsins, Jón Ólafsson á Grímsstöðum (1691–1765), stað-
setti vísuna á milli skrárinnar yfir kirkjujarðir í Hólabiskupsdæmi og
lista yfir þingstaði á Íslandi. Vísan geymir hnyttna lýsingu á sporöskju-
laga eyjunni og líklegt að henni hafi verið bætt inn í handrit Jóns af
þeirri ástæðu en ekki vegna þess að hún kitlaði brageyra skrifarans.
Upprunalega orðalagið („Er hún beint til enda strengd“) hljómar
einkennilega þegar það kemur ekki í beinu framhaldi af öðru erindi
um sama efni og því hefur fyrstu tveimur orðum í braglínunni verið
víxlað, annaðhvort í handriti Jóns (eða annarri skriflegri heimild sem
hann notar hér sem frumrit) eða þá í munnlegri geymd.4
Jón Þorkelsson birti Grímseyjarvísuna eftir Lbs 827 4to í stuttri
grein um héraðsvísur í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags fyrir árið
1913. Í prentuðu greininni leiðrétti Jón stuðlasetninguna með því
að setja „öll“ í staðinn fyrir „beint“ en gerði athugasemd þar um í
neðanmálsgrein. Í útgáfu Jóns hljómar vísan þannig:5
Hún er öll, til enda streingd,
átján hundruð faðma á leingd,
til helftar breið, á þverveg þreingd, –
þessu valda björgin spreingd.
Vísurnar í grein Jóns Þorkelssonar (eða úrval þeirra) voru endur-
prentaðar nokkrum sinnum í íslenskum tímaritum á næstu áratugum,
m.a. í Lögbergi frá árinu 1913 (undir „Alþýðuvísur“),6 í Sjómannablaðinu
Víkingi árið 1941 (undir fyrirsögninni „Héraðavísur“)7 og Sunnudags
blaði Alþýðublaðsins 1964 (undir fyrirsögninni „Héraðsvísur frá 1750“).8 Í
öllum þessum endurprentunum kemur endurgerða myndin „öll“ í stað
„beint“ athugasemdalaust og virðist festast þannig í munnlegri geymd,
sbr. upptöku frá árinu 1971 þar sem viðtakandinn fer með vísuna eftir
4 Örlítill orðamunur er á þessari uppskrift af Grímseyjarvísunni og þeirri sem birtist
í Lbs 936 4to (sem er vísna- og kvæðahandrit). Skrifarinn er séra Friðrik Eggerts en
óljóst er hvaðan hann hefur vísuna. Fyrsta vísuorðið er eins en í því þriðja stendur „til
helftar breið og þaðan þrengd“.
5 [ Jón Þorkelsson], „Héraðavísur,“ 66.
6 „Alþýðuvísur,“ 7.
7 „Héraðavísur,“ 31.
8 „Héraðsvísur frá 1750,“ 382.