Són - 01.01.2012, Síða 51
Gagn, gæði og gömul vísa um Grímsey 51
Erlendsson hafi þekkt til slíkra kvæða eða að hann sé undir beinum
áhrifum frá Brandi og Þormóði þegar hann yrkir mansöng sinn.20
Elsta landfræðilega lýsingin af Grímsey í lausu máli finnst mörgum
öldum seinna í riti eftir Gísla Oddsson biskup (1593–1638). Gísli
samdi verkið árið 1638 eða aðeins fáeinum mánuðum áður en hann
lést, en nokkrum árum eftir að Guðmundur fjallaði um Grímsey
í mansöng sínum (sem mun vera ortur á árunum 1631–34). Ketill
Jörundsson (1603–1670) sneri verki Gísla síðan yfir á latínu sem De
mirabilibus Islandiæ.21 Frumrit Gísla hefur ekki varðveist, en Jónas Rafnar
enduríslenskaði latneska útleggingu Ketils og verður hér stuðst við
þýðingu Jónasar (Undur Íslands).22 Í 22. kafla ritsins er sagt stuttlega frá
Grímsey. Gísli viðurkennir að hann viti fátt um staðinn, en nefnir sem
heimildarmann Grímseying nokkurn „sem sízt er ljúgfróður, heldur
skilríkur“.23 Landfræði Grímseyjar fær þó minna vægi hér en afkoma
íbúa og matarmenning í Grímsey, sem er greinilega nokkuð frábrugðin
þeirri sem tíðkast annars staðar á Íslandi, því fiskur veiðist hér árið
um kring og er þannig mikilvægari fæða á öllum tímum ársins. Aftur
á móti er landbúnaður lítið stundaður. Gísli vekur sérstaka athygli á
jurt sem Grímseyingar kalla kálgresi (Ketill Jörundsson: kaalgrese)24 sem
hefur bæði hunangskeim og það frábæra einkenni að lækna bjúg, sem
er mjög algengur í eyjunni. Segir Gísli jafnframt að „ef eyjan væri svipt
þessu heimilislyfi, teldu sumir hana alveg óbyggilega framvegis“.25 Í Ís
lenzkum sjávarháttum er kafli um skarfakál og nýtingu þess. Hér er vísað
til Grímseyjarlýsingar Gísla sem elstu heimildar, „sem ég ber kennsl
á, þar sem getið er um, að Íslendingar eti skarfakál“26 en á 17. öld
virðist kálát ekki hafa tíðkast annars staðar á landinu og þannig talist
„fréttnæmt“ kvæðaefni. Grímseyjarlýsing Guðmundar er nokkrum
árum eldri en lýsing Gísla, og samkvæmt því á hann ekki aðeins
heiðurinn af að skrifa elstu varðveittu lýsingu á Grímsey heldur einnig
um brúkun skarfakáls á Íslandi.
20 Það er engu að síður athyglisvert í þessu samhengi að Guðmundur orti m.a. vís-
ur undir dróttkvæðum hætti sem segja frá svaðilför hans og níu Grímseyinga og
skemmtilegt væri að vita hvort hann valdi þennan bragarhátt vitandi vits að hann
kallast þar á við eldri kveðskap tengdan Grímsey.
21 Gísli Oddsson, „Annalium in Islandia farrago and De mirabilibus Islandiae,“ 1–84.
22 Gísli Oddsson, Íslenzk annálabrot og Undur Íslands.
23 Sama rit, 106.
24 Gísli Oddsson, „Annalium in Islandia farrago and De mirabilibus Islandiae,“ 64.
25 Gísli Oddsson, Íslenzk annálabrot og Undur Íslands, 107. Af lýsingu Gísla má ráða að
hann leggur sér aldrei sjálfur slíkt kál til munns.
26 Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir 1, 170.