Són - 01.01.2012, Page 53
Gagn, gæði og gömul vísa um Grímsey 53
það vex, fyrir sjóarboðum, og vegna þessara báginda kunna þeir
ei að fá so mikið af þessu grasi sem þeir hafa þörf fyrir, þar með
brestur þá eldivið til að kokka það sjer til drykkjar, so þeir skyldu
nóg hafa.31
Ofangreindar prósalýsingar á landslagi eyjarinnar kallast skemmtilega
á við þá mynd sem Guðmundur Erlendsson bregður upp af Grímsey.
Kálnýting, vatnsskortur og krónískur skyrbjúgur mynda ákveðin stef í
lýsingum á Grímsey sem birtast í öðrum heimildum á ekki ósvipaðan
hátt og hjá Guðmundi. Um leið fyllir lausamálið upp í ákveðnar
eyður í frásögn Guðmundar í mansöngnum og styður það að Guð-
mundur leitist hér við að mála Grímsey í raunsæislegum litum, en ekki
að draga dár að eyjarskeggjunum með gróteskum og ýkjukenndum
lýsingum á eymdinni og líkamlegri vesöld íbúanna að hætti Stefáns
Ólafssonar.32 Ekki virðist Guðmundur heldur undir áhrifum frá Flat-
eyjarrímu eftir Magnús Ólafsson í Laufási (um 1573–1636) þar sem
prestaferð til Flateyjar á Skjálfanda byrjar með brennivíni og endar
með ósköpum. Því fjær meginlandinu sem frásögnin teygist, því dýpra
sogast „kátir klerkar“ Magnúsar inn í furðuheim og eyjunni sjálfri er
lýst sem algjöru bæli „óljóss álfa“.33 Kynlegar verur búa ekki í Grímsey
og ísbirnirnir sem eru tíðir gestir þar eru ekki furðuleg skrímsli, heldur
tilheyra dýraríki drottins alveg eins og ljónið.
Í þessu samhengi er að lokum vert að nefna tvær Grímseyjarlýsingar
skráðar á 19. öld af prestum í Grímsey. Þá eldri ritaði Magnús Jóns-
son árið 1839 að beiðni Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmanna-
höfn og fylgir hún mjög samviskusamlega spurningalista frá félaginu.34
Bróðurparturinn snýst um landslag og veðurfar en í þeim köflum sem
snúast um íbúa Grímseyjar fær lesandinn sterklega á tilfinninguna að
þessi prestur líti ekki beinlínis upp til sóknarbarna sinna:
Grímseyingar eru þar í líkir flestum ómenntuðum Íslendingum,
að þeir eru mjög vanafastir, seinir og tregir til að taka öllum
nýjum siðum, er þeir ekki hafa áður vanizt, einkum þeir eldri.
31 Sama rit, 317–18.
32 Sjá t.d. Margrét Eggertsdóttir, Barokkmeistarinn: list og lærdómur í verkum Hallgríms
Péturssonar, 129–58.
33 Rímnafélagið gaf út Flateyjarrímu árið 1960 en hún mun hafa verið ort um
1626/1628, þegar Guðmundur bjó í næsta nágrenni við Magnús. Finnur Sigmunds-
son (ritstj.), Stakar rímur frá 16., 17., 18. og 19. öld, 27–54.
34 Magnús Jónsson, „Grímseyjarkall No. 3,“ 205–14.