Són - 01.01.2012, Page 56
56 Katelin Parsons
Íslenskur landlýsingarkveðskapur
Fyrir rúmum áratug birti Margrét Eggertsdóttir grein í Skírni um
svokölluð landlýsingarkvæði (þ. topographisch-historische Dichtung)
frá 16., 17. og 18. öld.41 Í slíkum kvæðum samtvinnast lofsamlegar
lýsingar á ákveðnu landsvæði og frásagnir um sögu þess, en þessi bók-
menntagrein upphefur ekki þjóð í anda þjóðernishyggju og flokkast
ekki beinlínis sem ættjarðarkveðskapur þó hún sé vissulega undanfari
hans. Landlýsingarkvæði byggjast oft á landfræðilegum heimildum
skrifuðum í lausu máli – það er „raunvísindalegri“ blær yfir landslaginu
– og í mörgum tilvikum er kvæðið flutt við ákveðið tækifæri. Enn eitt
einkenni landlýsingarkvæða sem greinir þau frá ættjarðarkveðskap
er að hið landfræðilega/sögulega þarf ekki nauðsynlega að vera í
fyrirrúmi; landslag og saga geta myndað saman ákveðinn útgangspunkt
fyrir boðskap eða hugleiðingar sem skáldið vill koma á framfæri.
Kveðskapur barokktímans þjónar gjarnan samfélagslegum tilgangi –
hvort sem skáldið kveður rímur eða yrkir flúraðan lofsöng um konung
sinn – og meðvitund um þetta samfélagslega hlutverk endurspeglast í
ríkum mæli í meðferð skáldsins á viðfangsefninu.
Frægasta kvæðið af þessu tagi á Norðurlöndum er sennilega Nord-
lands Trompet (Norðurlandstrómet) eftir norska stórskáldið Petter
Dass (f. um 1647, d. 1707), sem fjallar um heimkynni skáldsins í Nor-
egi. Ekki er vitað til þess að verkið hafi þekkst á Íslandi, en a.m.k.
eitt samtíðarskáld Dass sem naut talsverðra vinsælda hér á landi
samdi fjölda landlýsingarkvæða, þ.e. Daninn Thomas Kingo (1634–
1703),42 og í grein sinni færir Margrét rök fyrir að bókmenntagreinin
hafi einmitt borist til Íslands á öldunum eftir siðaskipti. Samkvæmt
grein Margrétar eru til nokkur íslensk verk sem geta flokkast undir
landlýsingarkvæði, þ. á m. Vísnaflokkur um Íslands gæði eftir Einar
Sigurðsson og tvö kvæði eftir Bjarna Gissurarson (1621–1712), Vísa
um Mjóa fjarðarkosti og Um landsins góða kosti.
Íslenskur landslagskveðskapur fylgir þó ekki erlendum fyrirmynd-
um sínum að öllu leyti. Í landlýsingarkvæðum Kingos og annarra er-
lendra skálda er farið mörgum og lofsamlegum orðum um landið og
41 Margrét Eggertsdóttir, „Um landsins gagn og gróða: íslensk landlýsingarkvæði.“
42 Sigrún Steingrímsdóttir hefur skrifað um kynni Íslendinga af Kingo, en hann er auð-
vitað yngra skáld og kemur ekki til greina sem mögulegur áhrifavaldur Guðmundar.
Sigrún Steingrímsdóttir, „Passíusálmar Kingos og aðrir sálmar hans á íslensku.“