Són - 01.01.2012, Page 57
Gagn, gæði og gömul vísa um Grímsey 57
jafnvel smjaðrað fyrir tilteknum valdsmönnum sem ráða þar ríkjum,
en í vísum Einars og Bjarna gætir neikvæðari tóns. Lofið er blandið
ádeilu og eins og Margrét bendir á getur verið stutt á milli hróss og
háðs þegar íslenska landslagið á í hlut. Það er ekki beint gaman að
vera íslenskur bóndi á 17. öld, en þeir sem yrkja landlýsingarkvæði um
Ísland beina athygli að því að eylandið sé ekki allt saman urð og grjót;
þrátt fyrir allt er ýmislegt sem löndum þeirra ber að þakka Guði fyrir,
t.d. heyr enginn stríð í landinu og sjórinn er gjöfull landsmönnum. Í
öllum landlýsingarkvæðum sem Margrét fjallar um eru „andleg gæði“
í fyrirrúmi, og í þessum sálargæðamálum standa Íslendingar engum
að baki þótt grasið sé óneitanlega grænna víða annars staðar.
Vísnaflokkur um Grímseyjar gæði
Vísur Bjarna Gissurarsonar eru yngri en Rímur af Sál og Davíð en
ekki er útilokað að Guðmundur Erlendsson hafi þekkt Vísnaflokk
um Íslands gæði og sótt sér innblástur þaðan, en það mætti segja að
Guðmundur yfirfæri boðskap Einars um Ísland – að þetta eyland aumt og
kalt / orðið Guðs nú blómgar allt / með mjúkri miskunn sinni43 – í mansöng
sínum um Grímsey. Í Grímseyjarlandlýsingu sinni bregður Guðmundur
upp mynd af eyju sem er ennþá minni, vesældarlegri og einangraðri
en meginlandið Ísland – sem er algjört Tívólí miðað við byggðina við
heimskautsbaug. En eftir að hafa skissað upp aumkunarverða andlits-
drætti Grímseyjar skiptir hann um tón og telur upp landsins kosti og
bendir á ýmis dæmi máli sínu til sönnunar.
Sagan og náttúran í Vísnaflokki um Íslands gæði viðkoma Íslandi
öllu, t.d. þylur Einar upp romsu um náttúrufyrirbæri sem einkenna
eyjuna (jökla, sand, aur og grjót) án þess að staðsetja þau nánar í
landslaginu og fjallar aðeins um söguviðburði sem snerta landsmenn
alla. Sýnin í mansöng Guðmundar er öllu þrengri: Rímnaskáldið yrkir
aðeins um það „sérgrímseyska“ eins og hann hefur lært það af Gríms-
eyingum og tileinkað sér af eigin reynslu. Samanburður við aðrar
heimildir um líf í Grímsey á 17. og 18. öld bendir til að mansöngurinn
flokkist alls ekki sem ádeila á hrörnun eyjunnar/eyjarmenningarinnar.
Þótt Guðmundur viðurkenni að sér finnist erfitt að aðlagast og hugsi
oft til meginlandsins, snýst mansöngurinn ekki um kvartanir skáldsins:
43 „Vísnaflokkur um Íslands gæði,“ Bragi óðfræðivefur, sótt 26.11.2012, <http://bragi.
arnastofnun.is/ljod.php?R=2&ID=2155>.