Són - 01.01.2012, Page 58
58 Katelin Parsons
Neikvæðar hugsanir breytast í landslagslýsingu sem reynist síðan vera
vettvangur fyrir andlegar hugleiðingar um samband Guðs, náttúru og
manns – einmitt að hætti landslagskveðskapar barokktímans.
Í útfærslu er Grímseyjarlýsingin undir greinilegum húmanískum
áhrifum og þrátt fyrir að þar finnist ýmislegt „óraunverulegt“, hunsar
Guðmundur allar þær kynjaverur og yfirnáttúrulegu fyrirbæri sem
tilheyra landslaginu í hugum margra landa hans.44 Rímnaformið er
auðvitað róluvöllur slíkra furðuvera, sem þrífast bæði í kenningum og
fantasíukenndum frásögnum af hetjudáð og tröllabardaga, sbr. lýsingu
Magnúsar Ólafssonar á Flatey á Skálfanda. Við fyrstu sýn henta rímur
ekki sérstaklega vel sem vettvangur fyrir lýsingu á raunsæislandslagi
hversdagsins. Það að Guðmundur Erlendsson kýs mansöng til að
lýsa Grímsey stafar þó ekki af því að hann eigi engra kosta völ; hann
gerir ýmsar tilraunir með önnur kvæðaform, t.d. orti hann mikið af
sálmum, vikivakakvæðum og kvæðum undir fornyrðislagi. Hins vegar
tilheyrir hann þeim skóla 17. aldar rímnahöfunda sem vilja gera rímur
að „uppbyggilegu“ skemmtiefni og ráðast á garðinn þar sem hann er
hæstur.
Með því að setja eyjarlýsingu í búning mansöngs ná góðar athuga-
semdir Guðmundar alþýðuáheyrn – í Grímsey er hann skáld fólksins
en ekki fjarlægra höfðingja. Um leið notfærir hann sér rímnahefðina á
skemmtilegan og nýstárlegan hátt og leikur sér svolítið með væntingar
áheyrenda sinna í þessum efnum. Útkoman er vel heppnað „cross-
over“ þar sem eiginleikar úr tveimur ólíkum bókmenntaáttum mætast.
Mansöngurinn er þannig ekki aðeins einstakur vitnisburður um líf í
Grímsey, heldur einnig um gleymdar bókmenntatilraunir í orrustunni
um sáluhjálp rímnanna.
HEIMILDASKRÁ
Handrit og hljóðrit
ÍB 509 4to
JS 232 4to
Lbs 780 4to
44 Í þessum efnum vekur einnig athygli að Guðmundur steinþegir um þá brunna í
Grímsey sem Guðmundur góði á að hafa blessað á sínum tíma, en Grímseyingar
upplýstu Jón Norðmann um nokkra slíka á 19. öld. Um þessa brunna og læknandi
eiginleika vatnsins, sjá Margaret Cormack, „Holy Wells and National Identity in
Iceland,“ 237–38.