Són - 01.01.2012, Page 82
82 Bjarki Karlsson
saman. Ólíkt hinum skýringunum getur þessi varpað ljósi á upphaf
reglunnar og uppgang hennar.
Kristján Árnason, málfræðingur, (í vinnslu: kafli 6.3) vísar á mun
sem er á hugtökunum málfræði og málreglur annars vegar en
málkunnátta hins vegar í generatívri málfræði þar sem gerður er
skýr greinarmunur á þeirri hæfni eða kunnáttu sem málnotendur búa
yfir, líka þeir sem hafa engar málfræðireglur lært í skóla (málkunnátta),
og lýsingum á reglum og hömlum sem kunnáttan hvílir á (málfræði,
málreglur). Þessu megi snúa upp á bragfræði og tala um bragfræði,
bragreglur og bragkunnáttu. Bragkunnáttan sé þá einhvers konar
hæfni eða kunnátta og skilningur eða tilfinning sem menn öðlist á svip-
aðan hátt og móðurmálskunnáttu á máltökustigi, fremur en af tilsögn.
Hins vegar er afar örðugt að gera sér hugmyndir um málkunnáttu
(og þar með bragkunnáttu) fólks án þess að hafa aðgang að lifandi
málhöfum (braghöfum). Því verða hugmyndir um hvað olli reglunni í
öndverðu aldrei annað en getgátur.
Aftur á móti er hægt að athuga hvort eitthvað eimi eftir af ómeð-
vituðum reglum eða hömlum, sem skýrt gætu sértæku stuðlaregluna,
í bragkunnáttu hagyrðinga og rímnaunnenda nú á dögum. Í því
skyni sendi ég út fyrirspurn til nokkurra tuga manna, annars vegar í
hagyrðingahópnum Boðnarmiði á sam félagsvefnum Facebook en hins
vegar á Leir, póstlista hagyrðinga. Fyrirspurnin var á þessa leið:
Hvernig bregst brageyra þitt við eftirfarandi vísum:
Finnst þér boðlegt stuðlafall mín staka,
þriðja og fimmta þótt í lið
þokist stuðlar út á hlið?
Leyfir eyra þitt að vikhend vísa
stuðli í liðum fjögur, fimm?
Fara hár að rísa?
Þá tók ég sérstaklega fram að ég væri ekki á höttunum eftir vitnisburði
bragfræðibóka, enda ljóst að þær mæltu gegn svona stuðlun. Ég væri
aðeins að spyrja hvort þetta hljómaði rétt eða skakkt.
Mér bárust fimmtán efnisleg svör. Hér á eftir fer kjarninn úr hverju
og einu þeirra:
a. Stuðlasetningin í vísunum særir ekki mitt brageyra.