Són - 01.01.2012, Síða 100
100 Heimir Pálsson
dróttkvæði. Síðasti bragliður hverrar línu er þó alltaf tvíliður, jafnt hér
sem ella í dróttkvæðum Jónasar.8
Hvatningar- eða ellivísan „Að vaði liggur leiðin“ fer ágætlega undir
dróttkvæðum hætti frjálsum. Útgefendur (1989 IV:207) telja einboðið
að leggja í hana táknrænan skilning, enda mun hún vafalítið ort undir
ævilok Jónasar:
Að vaði liggur leiðin
lífs á fljótið, en brjóta
háa bakka hvekkir;
hafurmylkingar fylkja;
yfir ættum að klifa
ofar þá, ef guð lofar;
drögum ei par að duga,
og dengjum oss í strenginn!
Um þessa vísu skrifaði Hannes Pétursson (1979) ritgerðina „Ofar
vaðinu“ og er engu við túlkun hans að bæta. Hannes veltir ekki fyrir
sér, frekar en aðrir, vali bragarháttarins, bendir á, eftir handriti og
Matthíasi Þórðarsyni, að líkur séu til að Jónas hafi hugsað sér að birta
vísuna sem tvær ferhendur eins og í „Grátittlingnum“. Vel kann hann
að hafa hugsað sér með þeim hætti að skapa brag sínum aukna sér-
stöðu, marka skil milli hans og hins forna dróttkveðna háttar.
Fjögur kvæði með dróttkvæðum hætti
Guðmundur kaupmaður Guðmundsson lést 1841 og erfiljóð orti Jónas
vafalaust að beiðni bróður hins látna (155–157). Þetta er ólíkt öðrum
8 Sveinn Yngvi Egilsson (1999:334) hafði þessi orð um kvæðið „Víti“: „Kvæðið má
kallast ort undir því tilbrigði dróttkvæðs háttar sem nefnt er draughent í Háttalykli
hinum forna og Háttatali Snorra-Eddu. Bragurinn víkur frá frumhættinum í því að
aukaatkvæði, sem raunar er áhersluminna hjá Jónasi en fornskáldunum, er bætt við
fyrstu kveðu hvers vísuorðs. Sú kveða verður því þríliður í stað tvíliðar, en í Víti er
það þó stundum önnur kveðan sem gerð er að þrílið, stundum engin, og er það frávik
frá reglulegri draughendu.“ Kristján Árnason gerir svofellda athugasemd: „Sveinn
Yngvi Egilsson … telur að aukaatkvæðið sem sett er inn í línuna megi rekja til þess
háttar sem nefndur er draughenda í fornum háttatölum. En eins og Sveinn bendir á er
aukaatkvæðið veikara hjá Jónasi en í gamalli draughendu, sbr t.d. dæmið sem Snorri
gefur um háttinn (65. vísa Háttatals). Ekki er alveg ljóst hvernig túlka ber orð Snorra,
en samhengisins vegna mætti ætla að draughendan væri einhvers konar afbrigði af
hrynhendu, þ.e. með fjórum risum. Atkvæðin eru sjö, en í flestum línum virðist mega
setja fjögur ris.“ (2005b:226).