Són - 01.01.2012, Page 116
116 Kristján Jóhann Jónsson
myndir Byrons um stríðan skáldskaparstíl og allt er það satt og rétt.
Hér ræði ég ekki form rímnanna heldur vísa til þess sem Sveinn hefur
sagt um það mál.
Nokkuð góð rök benda til þess að Búa rímur Gríms séu ortar á 8.
eða 9. áratug 19. aldar, eða einhver drög að þeim.4 Í rímu Símonar eru
eins og áður var nefnt meinlegar glósur um Grím, skáldskapur hans
sagður fornlegur og ekki talinn vera þjóðinni að skapi.
Það er reyndar athyglisvert að yrkja rímu seint á 19. öld og ásaka í
henni önnur skáld fyrir gamaldags skáldskap! Rímur eins og þær sem
Símon orti voru ekki beinlínis nýjasta nýtt á síðustu áratugum 19. aldar.
Sveinn bendir á skýr textatengsl milli rímna Símonar og Gríms en þau
eru lítil og vafamál hvaða ályktanir verða af þeim dregnar. Í kvæði
Símonar er skáldskapnum líkt við skip, eins og í kvæði Gríms, en í kvæði
Símonar er það skip í skorðum sögunnar. Grímur segir í sínu kvæði:
„skorðum sögu er skip ei bundið“.5 Það er yfirlýsing um að sögukvæðið
eigi ekki að skorðast af sögunni. Þar með er þó ekki sagt að markmið
Gríms með Búa rímum sínum hafi verið að ná sér niðri á Símoni og
Matthíasi. Þórður Helgason hefur beinlínis vísað því á bug.6 Í grein
Þórðar er ítarleg umræða um þróun rímna og umræðna um rímur.
Ýmsir samtímamenn Gríms höfðu á honum andúð, tengdu hann
við hroka og útlönd og ekki síst við menntun og reglur fína fólksins um
smekk og þekkingu. Skálda- og hagyrðingatalið sem Símon Dalaskáld
setti inn í rímu sína um Búa Andríðsson fellur ágætlega inn í þá mynd.
Það er af sama toga og glósur Sigurðar Breiðfjörð um Fjölnismenn,7
hugmyndir sem á seinni tímum hafa verið flokkaðar sem andúð á
menntamönnum og eru gjarnan varnartilburðir hefðarsinna sem þyk-
ir að hugmyndum sínum vegið. Dæmigerð er einmitt hugmyndin um
að ríman eigi að einskorðast við efni sögunnar sem ort er um, í stað
þess að leita út á opið haf. Um andúð á Grími Thomsen, skáldskap
hans og hugmyndum, hef ég áður fjallað nokkuð ítarlega.8
Sveinn Yngvi telur að heitið á kvæði Gríms um Búa og Fríði sé íron-
ískt. Kvæðið heitir „Rímur af Búa Andríðssyni og Fríði Dofradóttur“
og Sveinn telur að orðið rímur standi þar: „... eins og háðsleg glósa um
það verk sem kvæði Gríms var ætlað að kveða í kútinn“.9 Meginrök-
4 Sveinn Yngvi Egilsson 1999: 139.
5 Grímur Thomsen 1934: 143.
6 Þórður Helgason 2011: 107.
7 Þórður Helgason 2011: 82–88.
8 Kristján Jóhann Jónsson 2012: 65–74.
9 Sveinn Yngvi Egilsson 1999: 146–147.