Són - 01.01.2012, Page 127
„Óðarfleyi fram er hrundið“ 127
Grímur oft með röksemdum frá Hegel og vísar þá gjarnan til rita hans.
Grundvöllurinn er trú á guðlega Hugmynd með heiminum, einhvers
konar anda eða tilgang sem skapi samhengi í sögunni og felist í öllum
okkar verkum og geri þau merkingarbær þó ýmsum kunni að virðast
annað um sinn.
Ef gert er ráð fyrir því að hvert tímabil sé nýtt stig í sögu Hug-
myndarinnar, segir Grímur, þá birtist Hugmyndin okkur sem lífræn
meginregla sem ræður svipmóti tímans. Þessi skilningur hefur verið
kallaður lífræn heildarhyggja. Hugmyndin birtist í vísindum og
skáldskap, stjórnmálum og sögu; einstaklingarnir eru tæki hennar, bæði
í siðrænni mótun sinni og einstaklingseðli. Staða Hugmyndarinnar
birtist í þróun þeirra og ásigkomulagi. Kraftmest er birting Hug-
myndarinnar þó sögð vera í tíðarandanum sem alltaf lætur til sín taka
í einstaklingum sem móta söguna eða „verdenshistoriske Individer“. Í
þeim persónugerist eðli Hugmyndarinnar sem stöðugt sækir fram. Þess
vegna birtist tíðarandinn okkur í formi mikilmenna. Það er ekki ólíkt
því þegar Guð tók á sig mannsmynd. Tíðarandinn birtist í einum eða
fleiri persónuleikum til þess að hafa áhrif á manneskjurnar og stuðla
að framgangi Hugmyndarinnar. Búi Andríðsson í rímu Gríms virðist
eimitt vera sögulegur einstaklingur úr fortíðinni. Í fari hans birtist
norræn ástríða og stilling sem er samkvæmt hugmyndum rómantísku
stefnunnar og skandínavismans sá kjarni norrænnar skapgerðar sem
okkur ber að vernda.
Setjum nú þessar hugmyndir í samband við skens Símonar Dala-
skálds. Það virðist skiljanlegt að Þórður Helgason efast um að Grímur
hafi ort 260 erindi til þess að taka í lurginn á Símoni. Hins vegar virðist
afar trúlegt að Grímur hafi hugsað þetta langa kvæði sem eins konar
yfirlýsingu um það hvert höfundum söguljóða bæri að stefna. Þeim ber
samkvæmt kvæðinu, öfugt við Símon, að hrinda skipi sínu úr skorðum
í nausti ogt fleyta því út á opið haf.
Skandínavismi
Grímur Thomsen var löngum talinn eini Íslendingurinn sem hefði
tekið alvarlega þá stefnu sem kölluð var skandínavismi og byggðist
framar öðru á þeim skilningi að Norðurlandaþjóðirnar, sérstaklega
Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Ísland og Færeyjar, væru skyldari en
svo að þeim bæri að skipta upp í mörg þjóðerni. Bandaríki Norður-
Ameríku voru soðin saman úr mörgum mismunandi hópum og
Þýskaland var einnig samsett úr ólíkum ríkjum. Norðurlönd hröktust