Són - 01.01.2012, Page 135
„Óðarfleyi fram er hrundið“ 135
Það þarf ekki lengi að lesa í grein Gríms um stöðu Íslands
í Skandinavíu til þess að sjá að hún beinist öll að því að auka
menningarlegt vægi Íslands eða sanna menningarlegt gildi þess. Vikið
er að þjóðlegu sakleysi Íslendinga sem skynja í senn hinn gamla og nýja
tíma, enda landfræðilega séð jafnlangt frá nýja og gamla heiminum.
Ennfremur er Íslendingum, eins og áður var nefnt, líkt við Grikki og
varðveislu norrænnar menningar við varðveislu grískrar menningar.
Fordæmi má hér greinilega sjá í frumkvöðlum rómantísku stefnunnar
á árdögum hennar í Þýskalandi. Bæði Goethe og Schiller höfðu til
dæmis mikið dálæti á sígildri grískri menningu og hún var í hávegum
höfð allt rómantíska tímabilið.53 Sjálfur lagðist Grímur í þýðingar á
grískum stórskáldum löngu eftir að hann flutti þennan fyrirlestur.54
Í Grikklandi stóð vagga vestrænnar menningar og það gefur auga
leið að tenging íslenskra fornbókmennta við norrænar á sama hátt
og grískra við evrópskar liggur vel við höggi. Til þess að auka vægi
þjóðarbókmennta vildu menn á 19. öld einhvern arf sem unnt væri að
fella undir skýringarlíkön klassískra fræða sem aðferðafræðilega voru
undanfari þjóðarbókmenntafræða.
Í hinu mikla riti Erichs Auerbach, Mimesis. Framsetning veruleikans í
vestrænum bókmenntum, sem fyrst var gefin út 1946 en birtist í íslenskri
þýðingu 2008, er borinn saman menningarheimur Hómers og
Biblíunnar55 og þar eru athyglisverð líkindi við samanburð Gríms á
grískum menningarheimi og norrænum. Samanburður Auerbachs á
grískum textum og Biblíutextum byggist í stuttu máli á því að hinir
grísku textar séu ljósir og skýrir og þá sé illmögulegt að túlka sem
táknrænir og margræðir væru. Bókmenntahefð Biblíunnar heldur
hins vegar skýringum til baka og þar er hið ósagða iðulega það sem
mestu máli skiptir. Báðar þessar stíltegundir standa í andstæðum sín-
um fyrir grunngerðir, annars vegar mótandi lýsingu, jafnmikla birtu,
órofa tengingu, frjálsa ræðu, forgrunnsstöðu, skýrleika, afmarkanir á
sviði sagnfræðiþróunar og mannlegra vandamála; hins vegar er birtu
varpað á suma þætti meðan aðrir eru myrkvaðir, tengsl eru rofin, áhrif
hins ósagða gefin í skyn, bakgrunnsstaða, margræðni og túlkunarþörf,
krafa um heimssögulegt gildi, uppbygging sagnfræðilegrar verðandi
og djúpur áhugi á mannlegum vanda.56
53 Schiller 2006.
54 Grímur Thomsen II 1934: 130–270.
55 Auerbach 2008: 27–57.
56 Auerbach 2008: 56.