Són - 01.01.2012, Side 155
Barnafossar 155
Stíga þau dans í strjálum skóg,
Er stjarna skín í vestri,
Og tóa þýtur: ga – ga – gó,
En gengið er frá lestri.
Sjálfsagt er vísan gamall húsgangur en vert er að velta því fyrir sér hvað
því veldur að Grímur velur einmitt þessa vísu sem inngang ljóðsins
(hugsanlega stef). Í vísunni má sjá andstæðupar: lestur / náttúra. Lestur-
inn tengist lærdómi og innisetu en andstætt honum er náttúran; þar er
dansað úti í frjálsri náttúru, þar sést til stjörnu á himni og heyrist til nátt-
úrulegra hljóða dýra. Vísan á því ekki illa við sem inngangur Barnafoss.
Andstæðuparið, lestur (nám) – náttúra kemur víðar við sögu í skáld-
skap Íslendinga á 19. öld en hjá Grími.10 Steingrímur Thorsteinsson
dásamar náttúruna í ljóðinu Fossinn minn: 11 „Ég kem til þín, minn foss í
fjarðar klettum, / Að finna þig um miðja sumartíð, / …“. og ber saman
við skólann og innisetuna: „Ég heilsa þér, úr höftum leystur þéttum,
/ Sem héldu mér við skólabekk um hríð; / …“. Jónas Hallgrímsson
orðaði sömu eða líka hugsun í Hulduljóðum sínum:12 „Að fræða! Hver
mun hirða hér um fræði? / heimskinginn gerir sig að vanaþræl.“
Í ljóðum Jónasar og Steingríms er náttúran athvarf, eins konar
griðastaður þar sem sálin fær hvíld frá siðmenningunni sem stund-
um kann að verða sem ok um háls. Náttúruvætturin, gýgurin, í ljóði
Gríms opnar hins vegar dyr inn í siðmenninguna, inn í æðra líf lista
og menningar sem þrífst utan náttúrunnar, í sölum borganna. Því má
svo náttúrlega ekki gleyma að sú leið liggur einmitt gegnum náttúruna.
Hátturinn
Bragarháttur ljóðsins er sérstakur. Hann er fjögurra lína þar sem fjórir
bragliðir eru í þremur fyrstu línunum en tveir í hinni síðustu. Hann er
óreglulegur að því leyti að oftast hefst hver lína á forlið auk þess sem
einn þríliður er í flestum línum sem annars einkennast af tvíliðum.
Þetta á við um fyrstu þrjár línurnar; hin fjórða hefst alltaf á forlið.
Rímið er parrím eða runurím: aabb, eða aaaa.
10 Sjá Þórður Helgason (2006).
11 Steingrímur Thorsteinsson (1958:29).
12 Jónas Hallgrímsson (1989:116).