Són - 01.01.2012, Qupperneq 162
162 Þórður Helgason
var Bertel Þorleifsson (Bertel E. Ó. Þorleifsson). Eftir hann birtust
nokkur ljóð í Verðandi. Eitt þeirra er Barnafoss.
Enginn getur nú svarað því hvers vegna Bertel ákvað að yrkja ljóð
um fossinn sem Grímur hafði ort um stuttu fyrr (Ljóðasafn Gríms kom
út árið 1880 auk þess sem kvæðið birtist í Þjóðólfi árið 1868 svo sem
fyrr greinir). Hugsanlega, raunar líklega, vill hann sýna viðfangsefnið
í nýju og raunsærra ljósi, sýna hið raunsæja andstætt hinu rómantíska.
Bertel tekur yrkisefni sitt allt öðrum tökum en Grímur. Þeir eiga
það þó sameiginlegt að þjóðsagan sjálf truflar þá ekki mikið, Grím þó
minna svo sem vænta má.
Ljóð Bertels er langt, í þremur þáttum. Sá fyrsti og lengsti, alls átta
erindi, er mikil raunsæ lýsing sveitafólks sem býst til kirkjuferðar. Hún
hefst á náttúrulýsingu:
Það er sumar, sunnudagur, sólin skín um haga´ og völl,
blika hólar, bleikir teigar, bláir hálsar, mólit fjöll.
Silfrar vötnin, svanir móka, syngur „dýrðin“ ló í mó,
vindur sefur, sveitir allar signir helgidagsins ró.
Nú víkur sögunni til mannfólksins í sex næstu erindum. Vinnan við
heyskap liggur niðri. Drengir sækja hesta í haga sem síðan eru beisl-
aðir og járnaðir. Vinnukonur laga föt, færa vinnumönnum vatn og þvo
af þeim „vikugrómið“. Fólkið býst síðan við skart og leggur af stað, en
móðirin kveður syni sína og biður þá að fara ekki frá bænum á meðan.
Þeir lofa því:
Kvennhollari karlmenn leiða kvennahesta´að bæjarstjett,
klæði´ og sessu´ í söðul breiða, svanni hoppar upp í ljett.
Móðirin kveður syni sína, sjeu heima ungir tveir,
biður að fari burtu ekki bænum frá. Því lofa þeir.
Í öðrum hluta ljóðsins er fylgst með sveinunum. Bertel fer að því leyti
eftir þjóðsögunni að hann lætur drengina fýsa til kirkjuferðar eins og
hitt fólkið á bænum – en bregður út af henni í því að hann lætur þá
leika kirkjuferð að hætti barna.
Sveinar eftir hópnum horfa, hylzt ´ann sjónum jóareyk,
Fram svo hesta, leggi, leiða, líka vilja fara´ á kreik.
Allvel fákar aldir skeiða, upp um túnið reið þá ber,
þeir til kirkju hyggja halda, hóll á túni kirkjan er.