19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 41

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 41
Finnur þú fyrir því að vera kona í því sem einu sinni var kallað karlastarf? Já og nei - að langmestu leyti finn ég ekki fyrir því. En mér finnst þó oft að starfsfólk geri öðruvísi kröfur til mín því ég er kona hvað varðar að sýna því tilfinningalega meiri stuðning en það færi fram á við karlstjórnanda. Mér finnst þetta hið besta mál því ég held að við konur náum oft nánari tengslum við starfsfólk okkar sem er auðvitað bara jákvætt. Ertu meðvituð um það að eitt sinn datt engum í hug að kona gæti gegnt þessu starfi? Þegar ég kom út úr háskóla var ég mikill feministi. Var fullviss um að mér væru allar bjargir bannaðar fyrir það eitt að vera kona. Ég komst fljótlega að því að svo var ekki - ég hef alltaf fengið þau störf sem ég hef sóst eftir. Auðvitað verð ég að viðurkenna að mér hefur oft fundist það taka lengri tíma en ég hafði vonað og oft hefur maður þurft að vinna ári mikið til að komast þangað. Því má segja að ég hafi fundið það strax þegar ég kom út í atvinnulífið að kona sem bankastjóri væri alveg mögulegt. Hvort það sé þess virði þegar upp er staðið er svo annað mál. Telur þú að komið sé öðruvísi fram við þig í starfinu af því að þú ert kona en ef þú værir karlmaður? Ég tel svo ekki vera, nema þetta sem ég nefndi í fyrstu spurningunni. Hjá Íslandsbanka eru samskipti nokkuð hispurslaus og opin. Þannig vil ég hafa það. Ég segi yfirleitt skoðun mína nokkuð umbúðalaust og ætlast til þess að aðrir geri slíkt hið sama við mig - ég fæ það oftast óþvegið! Hvað telur þú að helst hafi orðið til þess að breyta ríkjandi hugsunarhætti um að sumar stöður væru ekki kvennastörf? Ég held að við getum þakkað þeim konum sem tóku slaginn á sínum tíma, stóðu í lappirnar og sýndu fram á að konur væru jafnokar karla í þeim störfum sem í eina tíð voru talin eingöngu á færi karlmanna. Ég held að við ættum að passa að koma því til skila til kvenna komandi kynslóða að þetta kom ekki átakalaust en á sama tíma að koma því skila að karlar og konur eigi að standa jafnfætis. Hverja telur þú vera ástæðuna fyrir því að konur sækjast minna eftir stjórnunarstöðum en karlar? Ég held að konur mæli lífshamingjuna oft á annan hátt en karlmenn. Þær gera sér grein fyrir því að það er ekki lesið upp úr ársreikningum fyrirtækja yfir kistum manna. Höfum það í huga að konur hafa sinnt mikið merkilegri störfum í gegnum aldirnar við að koma næstu kynslóð á legg. Það fer því alltaf aðeins í taugarnar á mér að konur urðu ekki merkilegar fyrr en þær fóru að gera það sama og karlmenn. Hvað telur þú geta aukið áhuga kvenna á setu í stjórnum fyrirtækja? Breyttar áherslur í stjórnun fyrirtækja og aukin áhersla á virkar stjórnir. Ég held að áhugann vanti ekkert. Ég hef beðið konur um að sitja í stjórnum og þær hafa sagt já undantekningalaust og hent sér í verkefnin af áhuga og elju. Hvað getum við gert til að hvetja konur til að sækja um valdastörf? Með því að styðja þær - tala þær upp en ekki niður eins og við konur dettum stundum í að gera. Konur hafa allt til að bera - menntun, reynslu og kraftinn. Hvers vegna er enn til kynbundið launamisrétti á Íslandi? Já, það er með ólíkindum að þetta sé enn til staðar. Ég vil tengja þetta sögunni, þ.e. þegar konur voru ekki aðalfyrirvinna heimilisins. Síðan eru liðin mörg ár. Það var reynsla mín þegar ég kom fyrst út á vinnumarkaðinn að konur væru ekki að ýta eins mikið á laun og karlar. Mér finnst það breytt. Þarna þarf viðhorfsbreytingu stjórnenda, þ.e. að þeir tryggi að þetta viðgangist ekki. Ertu sammála því að rétt sé að setja kynjakvóta? Sammála. Mér finnst þetta ganga of hægt og slíkar reglur eru bara til að hjálpa fyrirtækjum að taka rétta ákvörðun. Það er mikið til af vel menntuðum og reynslumiklum konum svo það verður aldrei vandamál að uppfylla kvótann. Hvernig hefur konum gengið að feta sig í stjórnun í því fagfélagi sem þú ert í? Ég er í Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Eðli málsins samkvæmt eru konur í því fagfélagi nokkuð áberandi í stjórnunarstöðum. En betur má ef duga skal.a Birna Einarsdóttir Mynd: Ari Magg. Ég er kona ... og er bankastjóri 41 32-41 Eg er kona5styrk.indd 11 6/1/10 2:13:38 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.