19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 47

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 47
Hildur og Þóra Sigríður höfðu báðar starfað lengi hjá Máli og menningu þar sem karlar réðu ferðinni, eins og hjá öðrum bókaforlögum. „Okkur langaði að breyta áherslunum. Flestar ákvarðanir í fyrirtækinu voru teknar af körlum,“ segir Hildur en hún keypti hlut Þóru árið 2002 og hefur rekið fyrirtækið ein síðan. Hildur segir að bókaútgáfa á Íslandi sé áhættusöm. Markaðurinn sé lítill og mesta bóksalan fari fram fyrir jólin. Hildur vill þó ekki meina að það sé erfiðara fyrir konu að stýra bókaútgáfu þótt vissulega hafi þetta alltaf verið karlaheimur. „Þetta hefur örlítið breyst á undanförnum árum því konur hafa verið að koma inn sem meðstjórnendur. Maður sér hins vegar víða erlendis að konur eru í háum stöðum hjá bókaforlögum.“ Önnur áhersla Er önnur áhersla á bókmenntir sem gefnar eru út af konum en körlum? „Við teljum það. Okkur áhersla hefur verið að búa til bækur sem konur vilja lesa, bækur sem konur skrifa og fyrir konur. Það hefur gengið vel. Ef við fáum áhugaverða bók sem karl skrifar þá gefum við hana auðvitað út líka. Þótt við leggjum áherslu á konurnar þá viljum við starfa á jafnréttisgrundvelli. Konur eru mjög duglegar að lesa og eru bókmenntaunnendur. Það er dýrt að gefa út bækur og þær hafa stuttan líftíma á markaðnum. Þess vegna getur bókaútgáfa verið áhættusöm. Við höfum líka gefið út fjölda af handbókum. Bækur sem rækta hugann, sjálfshjálparbækur, ferðabækur og bækur sem stuðla að bættri líðan; þ.e. heilsubækur. Einnig erum við með hefðbundnar bækur eins og skáldsögur og ævisögur,“ segir Hildur ennfremur. Vinsælar handbækur Salka gefur út bækur allt árið og hefur nýlega sent frá sér útivistarbækur með 25 gönguleiðum um höfuðborgarsvæðið og Fjallabók barnanna en þær hafa hitt í mark. „Hefðin á Íslandi hefur verið sú að kaupa bækur einungis til jólagjafa og enn eimir eftir að þeirri hefð. Fólk kaupir handbækur hins vegar allt árið. Einnig höfum við gefið út dagbók fyrir konur sem er hönnuð og ritstýrð af konu og við erum ákaflega stoltar af. Í hverri viku á kona smellin orð sem við myndskreytum í dagbókinni. Um leið styðjum við gott málefni því hluti ágóðans rennur til góðgerðamálefna.“ Bók um kvennafrídag Þegar kvennafrídagurinn átti þrjátíu ára afmæli árið 2005 gaf Hildur út bók um þennan merka viðburð í íslenskri sögu. Þar var rætt við konur sem komu að deginum, sagan bakvið tjöldin tekin saman og haldið til haga merkum staðreyndum. „Mér fannst verðugt verkefni að gefa út þessa bók í tilefni afmælisins,“ segir Hildur og bætir við: „Hildur Hákonardóttir, sem tók þátt í kvennafrídeginum, vann bókina með mér. Bókinni var vel tekið enda var mikið lagt í hana. Hún er enn fáanleg,“ segir Hildur og við fengum leyfi til að birta hluta úr kafla bókarinnar. Úr bókinni Já, ég þori, get og vil Hvar kviknaði hugmyndin að kvennafrídegi? Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvar hugmyndin kviknaði þótt það væri gaman að vita það. Hún var einfaldlega rökrétt afleiðing baráttunnar fyrir launajöfnuði og lýsti einlægri löngun til að sýna fram á hvað vinnuframlag kvenna var mikið – jafnt í íslensku þjóðfélagi sem í öðrum þjóðfélögum, inni á heimilum og úti á vinnumarkaðnum. Það er þekkt úr mannkynssögunni að sama hugmynd sprettur oft upp á sama tíma á fleiri en einum stað án þess að nokkurt samband virðist vera á milli. Það er til vitnis um að þróun er komin á ákveðið stig. Nýstárleg hugmynd Björg Einarsdóttir segir frá: „Hugmyndin um að konur sameinuðust um að leggja niður vinnu samtímis barst hingað erlendis frá. Hér á landi tók hún breytingum og aðlagaðist aðstæðum. Á fundi í Norræna húsinu í ársbyrjun 1973, sem Rauðsokkahreyfingin hélt til kynningar á starfsemi hreyfingarinnar, var í almennum umræðum sagt frá nýstárlegri hugmynd. Frásögumaður, ein þeirra kvenna sem frá upphafi hafði verið virk í Rauðsokkahreyfingunni, hafði á ferðum sínum erlendis heyrt um það rætt að allar konur í heiminum ættu að taka sig til og leggja niður vinnu samtímis í einn dag og sýna þannig í eitt skipti fyrir öll hver hlutur þeirra væri á heimsbyggðinni. Raunar mun sömu hugmynd hafa verið komið á framfæri hjá hreyfingunni 1970.“ Verkfall kvenna Verkfall kvenna er fyrst orðað meðal rauðsokka, svo staðfest sé, á kynningarfundi Rauðsokkahreyfingarinnar í Norræna húsinu 19. október 1970, og það var Vilborg Dagbjartsdóttir sem það gerði. Frá því er sagt bæði í Vísi og Þjóðviljanum. Í Vísi segir að á fundinum hafi á ýmsan hátt kveðið „við nýjan tón, þar sem voru veggspjöld með ýmsum athugasemdum og fræðslu sem hengd höfðu verið upp og einnig hvatning Vilborgar Dagbjartsdóttur um að konur fjölmenntu á áheyrendapalla borgarráðs, að giftar konur gerðu verkfall í einn dag, svo að minnst sé á tvær uppástungur hennar“. Í Þjóðviljanum segir að Vilborg Dagbjartsdóttir hafi flutt „skörulega ræðu um slæma aðstöðu útivinnandi mæðra og benti á tillögu sem Adda Bára Sigfúsdóttir lagði nýlega fram í borgarstjórn um að giftum konum verði séð fyrir dagvist handa börnum sínum og þeim þannig gert kleift að stunda nám eða vinnu utan heimilis. Yrði tilkoma slíks dagvistarheimilis ómetanlegur áfangi, og lagði hún til að konur sýndu áhuga sinn á málefni þessu í verki með því að mæta á áheyrendapöllum þann dag sem tillagan yrði afgreidd eða grípa til róttækari ráðstafana, svo sem efna til verkfalls.“ (Millifyrirsagnir eru blaðsins) a 47 Bókin um kvennafrídaginn kom út árið 2005 þegar kvennafrídagurinn átti 30 ára afmæli. Myndskreyting sem Hildur Hákonardóttir gerði fyrir kvennafrídaginn 1975 og birtist í bókinni Já, ég þori, get og vil. 46-47 Salka.indd 3 6/2/10 2:05:47 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.