19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 45

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 45
Vissulega má segja að margt hafi áunnist síðustu 100 árin eða svo. Staða kvenna, hvort sem litið er til tækifæra til menntunar, atvinnuþátttöku eða áhrifa er margfalt meiri nú en fyrir 50 árum, framfarirnar eru merkjanlegar. Hins vegar er enn afar langt í að jafnvægi sé náð. Kynbundinn launamunur er því miður ennþá staðreynd og þrátt fyrir stöðuga framför síðustu 25 árin eru konur í stjórnmálum enn talsvert færri en karlar. Þegar kemur að stjórnunar-, valda- og áhrifastöðum í viðskipta- og fjármálalífi er staðan afar döpur, en það er einmitt sú staðreynd sem veldur því að það er rík ástæða til að hafa áhyggjur. Fjármagni fylgja völd og ábyrgð Viðskiptalífið er mikilvæg stoð í samfélaginu. Þar skapast atvinnutækifæri, þar er lífæð vöru- og þjónustuframboðs og farvegur fjármagns. Fjármagni fylgir mikið vald, en eins og dæmin sanna er því miður hægt að misnota vald. Það er því afar mikilvægt að forystusveit viðskiptalífs og fjármálageira sé skipuð hæfum og reyndum einstaklingum með góða siðferðiskennd. Þá er einnig afar mikilvægt að þennan hóp skipi fjölbreyttir og víðsýnir einstaklingar, þar séu skoðanaskipti virk og gagnrýninni hugsun beitt. Of mikil einsleitni í forystusveitinni dregur úr gagnrýninni hugsun og afleiðingin verður hjarðhegðun. Það má með sanni segja að einsleitni og hjarðhegðun hafi einkennt íslenskt viðskiptalíf á síðustu árum. Þeir sem ekki fylgdu forystusauðunum að málum eða leyfðu sér að spyrja gagnrýninna spurninga áttu ekki upp á pallborðið. Fæð kvenna í þessum geira má því hugsanlega skýra með því að þær hafi ekki „passað í hópinn“. Á hinn bóginn má svo spyrja sig að því hvort aukin fjölbreytni, m.a. með tilkomu fleiri kvenna, hefði getað komið í veg fyrir að viðskiptalífið var sett á hliðina. Aukin aðkoma kvenna bætir verklag og ákvarðanatöku Niðurstöður doktorsrannsóknar sem ég hef unnið að síðustu ár gefa sterklega til kynna að aukin aðkoma kvenna að stjórnum fyrirtækja getur bætt verklag og ákvörðunarferli til muna. Rannsóknin leiddi í ljós að verklag stjórna þar sem karlar voru í miklum meirihluta einkenndist af frekar almennu innleggi stjórnarmanna og lítilli gagnrýni. Stjórnirnar voru almennt lítið virkar á formlegum vettvangi, en óformleg tengsl og samskipti milli stjórnarfunda voru talin skipta miklu máli. Þær fáu konur sem skipuðu þessar stjórnir voru mun virkari en karlarnir við að spyrja gagnrýninna spurninga og knýja stjórnendur til ábyrgðar, en þar sem þær tilheyrðu ekki hinu óformlega tengslaneti hafði innlegg þeirra lítil áhrif. Verklag stjórna þar sem hlutfall karla og kvenna var jafnt eða konur í meirihluta var gjörólíkt. Stjórnirnar voru mjög virkar og bæði konur og karlar lögðu áherslu á að spyrja gagnrýninna spurninga og knýja stjórnendur til ábyrgðar. Umræðan var bæði virk og opinská sem leiddi til betur ígrundaðra ákvarðana og umræður og ákvarðanir fóru fram á stjórnarfundunum en ekki á óformlegum vettvangi. Hversu hægar breytingar eigum við að sætta okkur við? Það er ljóst að það verklag sem hefur viðgengist í viðskipta- og fjármálalífi hefur leitt til hörmunga. Það er löngu tímabært að brjóta upp vana þess og ósiði. Aukin aðkoma kvenna að valda- og áhrifastöðum í viðskiptalífinu er ein fljótlegasta og skilvirkasta leiðin til að auka fjölbreytni sem aftur hvetur til gagnrýninnar hugsunar og vandvirkari vinnubragða. Okkur er ekki stætt á því lengur að bíða þess að í fyllingu tímans muni breytingarnar gerast af sjálfu sér. Gleymum því ekki að þær breytingar sem hafa unnist til þessa komu til vegna kjarks, áræðni og þrautseigju þeirra sem á undan okkur gengu. Við megum því til með að taka við kyndlinum og knýja framfarir með öllum dugandi ráðum. Látum ekki segja okkur að við eigum ekki að sækjast eftir völdum. Það er afar brýnt samfélagslegt málefni að valdi og áhrifum í viðskipta- og fjármálalífi sé dreift meðal bæði karla og kvenna. Látum ekki segja okkur að það skipti ekki máli. Aukin völd til kvenna eru forsenda umbóta og heilbrigðara samfélags. a Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Auði Capital Pössuðu konurnar ekki í hópinn? Ég hef á síðustu árum orðið vör við vaxandi áhyggjur og óþolinmæði kvenna yfir því hversu hægt gengur að auka hlutdeild kvenna í valda- og áhrifastöðum. Hreyfumst við of hægt? Eða skortir okkur þolinmæði til að meðtaka þá staðreynd að allar breytingar taka tíma? Fleiri konur í valda- og áhrifastöðum í viðskiptalífinu – heilbrigðara samfélag 45 44-45 PossuðukonurnarÞoranna.i3 3 6/1/10 2:21:05 PM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.