19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 43

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 43
vildi ekki bananann. Skömmin að tarna. Nú mundi ég það, hún hafði sagt mér að elda hafragraut, hvernig eldar maður hafragraut? Ég ákvað að lesa mér til um það, setti grjón í pott og dálítið vatn. Hringdi í Arndísi til að fá frekari leiðbeiningar en hún var svo ósvífin að svara ekki öðru en því að hún væri mjög upptekin í nýja starfinu. Ég yrði að finna út úr mínum vandamálum sjálfur. Maður á fimmtugsaldri hlyti að geta leyst það verkefni að vera einn dag með barninu sínu. Það var þá! Ég hlustaði á sóninn pípa eftir að hún skellti á mig og var skapi næst að henda símanum út um gluggann. Fréttamaður Íslands í heimilisbaxi, kolrangur maður á kolröngum stað, sjóðandi hafragrjónin allt of lengi. Starkaður gerði mér þó þann greiða að borða dálítið af grautnum og gaf frá sér hljóð sem hefur hvatt mig æ síðan til að gera vel við hann í mat og drykk. Ummmhummm, sagði sá stutti. En ekki fyrr en ég hafði kælt grautinn hæfilega. Fyrstu skeiðarnar sem ég rétti honum voru alltof heitar. Ég vissi ekki neitt. Það næsta sem ég man eftir var óheppileg lykt. Átti ég að vaða í það stórprójekt, aleinn? Það þurfti að undirbúa stund og stað fyrir ósköpin, skiptiborðið hafði einhverra hluta vegna farið á haugana. Mamma hans hafði séð um þetta svo lítið bar á en ég var ekki viss um græjurnar. Ég ákvað að bera hann inn í hjónarúm og ná í blautklúta, handklæði og nýja bleiu. Svo þurfti ný föt af því að það var kúkur í gömlu fötunum. Það var kúkur út um allt. Þetta var hryllingur. Hve margar hendur höfðu húsmæður? Tvær voru á mér en mig vantaði að minnsta kosti aðrar tvær í viðbót. Drengurinn spriklaði og tókst að ata bæði hendur og fætur í kúk. Lætin svo mikil að fyrr en varði var allt hjónarúmið orðið löðrandi og ég líka. Og ég sem þoli ekki annarra manna kúk. Þegar allt var orðið þannig að það gat ekki orðið verra tók ég Starkað með annarri hendi en línið af rúmunum með hinni og hljóp með það niður í þvottavél. Soninn þvoði ég aftur í stórum vaski í þvottahúsinu en það verk vannst bæði hægt og illa, enda hreyfði hann bæði háværum og sannfærandi mótbárum. Einhvern veginn tókst mér þó að þrífa hann en þegar ég hafði fundið ný föt og klætt hann uppá nýtt var ég orðinn veiklaður mjög og votur af svita. Hvers konar helvítisstarf var þetta hús-móðurdjobb? Næst settumst við niður inni í stofu og reyndum að kubba saman, eða sko, ég raðaði saman kubbum en hann reif þá jafnharðan niður. Minnti mig á gelgjuskeiðið. Svo fór hann að verða geðvondur og þá mundi ég að sennilega væri kominn svefntími. Mér gekk hins vegar afar illa að klæða Starkað í útigallann og gat alls ekki ólað hann niður í kerrupokann sinn, það lærðist ekki fyrr en síðar. Með herkjum tókst mér þó að koma honum í vagninn en drengurinn var vanþakklátur og hrein eins og grís. Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að stinga upp í hann snuðinu sem litli kúturinn gat sofnað. Nú gæfist loks einhver smátími fyrir sjálfan mig. Best að fara í tölvuna, kíkja á Facebook. Ég hafði verið með síðu þar síðan hrunið dundi yfir, ég hafði verið víðlesinn meistari kaldhæðninnar. Beittasta spjót búsáhaldabyltingarinnar. En nú bar svo við að mér datt ekkert eitrað í hug. Sem náttúrlega var afleiðing af hinu estrógeníska dundi í kringum Starkaðinn. Það tekur ekki langan tíma að detta út úr þjóðmálaheimum. Aldrei þessu vant vissi ég ekki hver hafði sagt hvað um morguninn eða hvað hafði gerst. Ekki vildi ég vera gaurinn sem byggir brandara sína á úreltum upplýsingum. Þannig að ég tók ekki sénsinn á að vera fyndinn og snjall á Facebook heldur lokaði tölvunni og horfði í kringum mig á alla óreiðuna sem hafði myndast á aðeins rúmum klukkutíma. Dótið var út um allt, drengurinn hafði komist í skúffur og skápa, tosað hitt og þetta draslið út og suður. Svo voru veggir kámugir og sjónvarpið útatað í einhverju. Fyrir utan það náttúrlega að konan mín virtist hafa verið sérlega ódugleg að þrífa heimilið síðustu daga. Það stóð hreinlega ekki steinn yfir steini. a Björn ásamt syni sínum, Starkarði, en hann kunni tæpast að skipta á bleiu þegar hann tók við barnauppeldinu á heimilinu. 43 Mynd: Jóhann Ólafur Halldórsson 42-43 AtvinnumissirBjornþorlak3 3 6/2/10 10:18:19 AM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.