19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 34
Finnur þú fyrir því að vera kona í því sem einu sinni
var kallað karlastarf?
Ég finn ekki fyrir því sem forseti Alþingis að ég er kona. Það
hafa orðið miklar breytingar á þinginu á undanförnum árum.
Konum hefur fjölgað mjög og eru nú 43% þingmanna og því
er nokkurt jafnræði með kynjunum. Við erum með einna jafnasta
kynjahlutfallið í heiminum. Eftir síðustu kosningar var til dæmis öll
forsætisnefnd Alþingis, þ.e. forseti og varaforsetar þess, skipuð
konum. Einnig er ástæða til að vekja athygli á því að í ár
eru allir þrír handhafar forsetavalds konur; forseti Alþingis,
forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar. Það er sögulegt því
það hefur ekki gerst áður.
Ertu meðvituð um það að eitt sinn datt engum í hug
að kona gæti gegnt þessu starfi?
Ó já, ég er vel meðvituð um það. Konur höfðu ekki kjörgengi
og atkvæðisrétt fyrr en með breytingu á stjórnarskránni sem
tók gildi þann 19. júní 1915. Það leið svo tæp hálf öld þar
til Ragnhildur Helgadóttir var fyrst kvenna kosin forseti neðri
deildar Alþingis, eina konan sem gegndi því embætti. Sautján
árum eftir það, 1988, varð Guðrún Helgadóttir fyrsti forseti
sameinaðs Alþingis og einn af handhöfum forsetavalds. Eftir
að Alþingi varð ein málstofa árið 1991 og embætti forseta
þingsins varð til í þeirri mynd sem nú er hafa fjórir karlar og
þrjár konur gegnt því, að mér meðtalinni.
Telur þú að komið sé öðruvísi fram við þig í starfinu
af því að þú ert kona en ef þú værir karlmaður?
Almennt tel ég svo ekki vera. Það hefur stundum verið erfitt
fyrir suma karla þegar konur stjórna og hafa ráðin. En það
heyrir til liðnum tíma sem betur fer.
Hvað telur þú að helst hafi orðið til þess að breyta
ríkjandi hugsunarhætti um að sumar stöður væru
ekki kvennastörf?
Jafnréttisbaráttan og breytt viðhorf í samfélaginu til kynjanna.
Fyrirmyndir eru líka mjög mikilvægar. Ef börn alast upp við að
sjá konu í hefðbundnu karlastarfi, eins og var reyndin þegar
Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands, þá verður það í huga
barnsins eðlilegt og sjálfsagt. Jafnvel vakti það furðu barna
að heyra að sums staðar væri karl forseti. Konur sem voru
frumkvöðlar í karlastörfum ruddu brautina fyrir þær sem á
eftir komu og breyttu viðhorfinu í samfélaginu smátt og smátt.
Jóhanna Sigurðardóttir er fyrsta konan til að gegna starfi
forsætisráðherra og er því mikilvæg fyrirmynd ungra kvenna
sem hyggjast hasla sér völl í pólitík.
Hverja telur þú vera ástæðuna fyrir því að konur
sækjast minna eftir stjórnunarstöðum en karlar?
Það er vitað að fjölskylduábyrgðin hefur hvílt meira á
herðum kvenna og stjórnunarstöður eru oft á tíðum mjög
krefjandi, það hefur án efa fælt konur frá því að taka á sig þá
ábyrgð sem stjórnunarstöðum fylgir. Konur eru einnig mjög oft
samviskusamar og varkárar og vilja ekki taka neitt að sér sem
þær eru ekki vissar um að geta sinnt hundrað prósent eða
fullkomlega. Þetta hafa rannsóknir sýnt.
Hvað telur þú geta aukið áhuga kvenna á setu í
stjórnum fyrirtækja?
Í vetur voru samþykkt lög á Alþingi um breytingu á lögum
um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Lögin hafa það
að markmiði að tryggja aukið jafnrétti kynjanna í stjórnum
fyrirtækja og við ráðningu stjórnenda. Ákvæðin um kynjakvóta
taka gildi í september 2013, svo fyrirtæki hafa aðlögunartíma
til stefnu. Því miður var frumkvæði markaðarins ekki til staðar
svo lögfesta þurfti kynjakvóta, þótt vissulega hafi staða
kvenna í atvinnulífi batnað frá því sem áður var. Vonandi mun
þessi aðlögunartími vekja áhuga kvenna á setu í stjórnum
fyrirtækja, en ekki síður stjórnenda og hluthafa fyrirtækja á að
velja konur í stjórnir. Það er allra hagur að hlutföll kynjanna í
stjórnum fyrirtækja séu sem jöfnust. Ég trúi því staðfastlega
að það sé hagur karla og kvenna, en síðast en ekki síst hagur
fyrirtækjanna sjálfra.
Hvað getum við gert til að hvetja konur til að sækja
um valdastörf?
Frumkvöðlarnir eru mikilvæg fyrirmynd, bæði þeir sem
veljast til pólitískra starfa sem og í atvinnulífinu. Þeir hafa því
mikilvægu hlutverki að gegna við að sýna konum fram á að
þær geta fengist við öll störf og eiga jafnan rétt til þess. Það
er ekki síst mikilvægt að koma þessum skilaboðum skýrt til
ungra kvenna.
Hvers vegna er enn til kynbundið launamisrétti á
Íslandi?
Kynbundið launamisrétti er því miður enn þá til staðar en
breytingar á lögum um fæðingarorlof áttu þátt í að jafna launamun
kynjanna frá því sem áður var. Slíkar breytingar taka tíma og ég
held að aukið jafnrétti í atvinnulífinu og stjórn þess, ásamt hærra
hlutfalli kvenna á þingi, muni hafa áhrif. Dropinn holar steininn og
við verðum að vera vakandi í baráttunni við að jafna þennan mun,
bæði við sem sitjum á þingi, verkalýðsforystan, vinnuveitendur,
menntastofnanir og í raun samfélagið í heild sinni. Það má aldrei
slá slöku við í jafnréttisbaráttunni.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ég er kona ... og er Forseti Alþingis
34
32-41 Eg er kona5styrk.indd 4 6/1/10 2:13:27 PM