19. júní


19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 23

19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 23
Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, er ráðgjafi í starfsþróun og starfsmannamálum. Hún segir að konur verði að snúa þessari þróun við með öllum tiltækum ráðum. „Þegar VR fór af stað með auglýsingaherferð um launaviðtalið árið 2000 kom vel í ljós, m.a. í raunverulegum auglýsingum, sem vöktu mikla athygli, að konur nefndu mun lægri tölu en karlar. Einnig kom í ljós eftir að markaðslaunin voru tekin upp að ýmsir hópar sátu eftir. Helst voru þetta konur sem voru aðeins eldri og höfðu aldrei þurft að fara í launaviðtal og fannst það jafnvel óþægilegt. Þessi mikli launamunur er í raun óútskýrður en maður spyr sig hvort þetta geti verið okkur sjálfum að kenna,“ segir Ingrid. Það er kúnst að verðleggja sig áður en farið er í launaviðtal. Ingrid segir að mikilvægt sé að nefna ekki of lága tölu en heldur ekki of háa. „Mjög gott er að undirbúa sig vel með því að skoða m.a. launakannanir sem gerðar hafa verið, hvað starfsmenn í sambærilegum störfum eru að fá í laun, hvert er markaðsvirði þekkingar þinnar o.s.frv. Það er vissulega erfiðara en áður að gera launakröfur núna þegar margir eru að taka á sig minna starfshlutfall og launalækkanir. Engu að síður þurfa konur að vera með ákveðnar hugmyndir um laun þegar sótt er um starf. Það er einnig afar mikilvægt að aflétta launaleynd,“ segir hún. Konum fækkar í stjórnum „Fyrirtækið Skýrr hefur tekið ákveðna forystu en þar eru gerðar árlegar launakannanir innanhúss og launarammi fyrir hvert starf hjá fyrirtækinu er ákveðinn óháð kyni. Launaleynd hefur verið afnumin hjá fyrirtækinu, þannig að starfsmenn geta rætt opinskátt um laun sín. Þetta skapar gott fordæmi og góðan vinnuanda. Hjá Reykjavíkurborg var tekið upp starfsmat sem notað er til þess að leggja með kerfisbundnum hætti mat á starfslýsingu og kröfur til starfs. Með starfsmati skapast þannig hlutlæg viðmið til grunnröðunar á störfum. Forsendur launaákvarðana byggðar á starfsmati eru skýrar, sýnilegar og aðgengilegar starfsmönnum. Vissulega er menntun fólks þó fjölbreytt og erfitt getur verið að verðleggja reynslu.“ Það er staðreynd að fáar konur eru í stjórnum fyrirtækja og stjórnunarstöðum í stórum fyrirtækjum. „Margir vilja kenna konunum sjálfum um,“ segir Ingrid. „Að þær hafi ekki nægilegt sjálfstraust til að sækjast eftir betur launuðum stjórnarstörfum. Konum hefur því miður fækkað í slíkum stöðum eftir hrunið. Ég trúi því hins vegar varla að þær séu ekki tilbúnar til að taka að sér ábyrgð. Maður hefur oft heyrt það viðhorf að konur þurfi að sjá um heimilið og geti því ekki eða vilji vinna jafnlangan vinnudag og karlar. Einnig eru fordómar í gangi, sumir karlmenn telja konur lakari kost en karla. Það er staðreynd að konur sækja fremur í stoðdeildir fyrirtækja, markaðs- eða starfsmannadeildir,“ bætir Ingrid við. „Í rannsókn sem ég vitnaði í í fyrirlestri sem ég hélt fyrir nokkru kom fram að konur taka sjaldnar til máls á fundum en karlar. Þær eru líklegri til að taka mistök persónulega og þær eru einnig líklegri til að líta á árangur sem afleiðingu ytri aðstæðna fremur en að hann sé þeim að þakka. Einnig eru þær margar haldnar fullkomnunaráráttu.“ Sjálfsskoðun „Það er algengt þegar konur fara í sjálfsskoðun, t.d. á námskeiðum, að þær dragi úr styrkleikum sínum. Þær eiga auðvelt með að draga fram galla en hika þegar þær eru spurðar hvað þær geri vel. Mjög mikilvægt er að hafa trú á sjálfri sér, sýna frumkvæði og stefna að ákveðnum markmiðum. Ef við gerum ekki neitt þá gerist ekki neitt. Sveltur sitjandi kráka, fljúgandi fær,“ segir Ingrid sem hefur mikla trú á því að konur séu vel til þess færar að ná árangri á þessu sviði. „Mér finnst mjög mikilvægt að konur standi vörð um réttindi sín.“ Ingrid tók þátt í verkefninu Konur til forystu sem sett var í gang árið 2001. Háskóli Íslands var meðal þeirra sem komu að því. „Verkefnið var sett í gang vegna þess hversu fáar konur leituðu í raunvísindagreinar og fáir karlar í hefðbundnar kvennagreinar. Gefinn var út bæklingur sem nefnist Lykillinn að velgengni á vinnumarkaði. Í honum voru fólki kennd fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Við ættum þó ekki að vera of upptekin af því hvort störf séu dæmigerð kvenna- eða karlastörf vegna þess að það getur aukið á fordóma gagnvart ýmsum störfum. Félag kvenna í atvinnurekstri hefur verið duglegt við að ýta á konur að taka að sér setu í stjórnum fyrirtækja. Þar hefur verið gerður listi yfir hæfar konur sem eru tilbúnar að taka að sér stjórnarsetu í fyrirtækjum eða stjórn þeirra.“ Stundum heyrast þær raddir að konur séu verri stjórnendur en karlar. Þær séu ráðríkar og erfiðar að eiga við. Ingrid kannast ekki við það. „Nei, þetta er klisja. Bandarísk kona, Judy Rosener, rannsakaði af hverju karlar þola illa konur í stjórnunarstörfum. Þar kom í ljós að karlar hafa tilhneigingu til að líta á konur fyrst og fremst sem mæður eða kyntákn en ekki sem stjórnendur,“ segir Ingrid og bætir því við að konur verði að vera tilbúnar til að taka áhættu. „Ég var á konukvöldi fyrir stuttu þar sem nokkrar konur sögðu frá því hvernig þær komust til áhrifa. Kona ein sem þar kom fram hafði fyrir nokkru stofnað sprotafyrirtæki í hugbúnaðargerð og leitaði að meðeiganda. Hún leitaði fyrst til kvenna og talaði við tíu konur. Allar sögðu nei en fyrsti karlinn sem hún spurði sagði já. Kannski er þetta stundum spurning um að þora.“ Treysta ekki karlinum -Telur þú kynjakvóta rétta leið? „Það er viðkvæmt mál. Úr því að það gengur svona illa að ná fram jafnrétti í launum þá veltir maður kynjakvóta fyrir sér. Það hefur virkað ágætlega í Noregi en það getur líka haft í för með sér neikvæðar hliðar því markmiðið ætti alltaf að vera að ráða hæfasta einstaklinginn burtséð frá því hvort hann sé karl eða kona. Konur eiga stundum erfitt með að sleppa. Hvort þær eigi að treysta karlmönnum að annast um börnin eða til að sjá um heimilið. Ég var einu sinni með námskeið fyrir konur þar sem þetta vantraust var til umræðu. Ein konan var að byrja að vinna aftur eftir fæðingarorlof. Hún sagði frá því að á kvöldin tæki hún til allt það sem barnið ætti að fara í morguninn eftir. Fötin voru í þeirri röð sem barnið átti að klæðast flíkunum. Einn daginn hringdi karlinn í hana og spurði hvort barnið ætti ekki að fara í skó? Hún hafði þá gleymt að taka til skóna með hinum fötunum.“ a Nýlegar kannanir sýna töluverðan launamun kvenna og karla og hann jókst frekar en hitt í góðærinu. Þessi kynbundni launamunur er enn mikill þrátt fyrir áratuga baráttu kvenna. Því hefur oft verið haldið fram að konur biðji um 30% lægri laun en karlar þegar þær fara í launaviðtal eða sækja um vinnu. Úr bæklingnum Lykillinn að velgengni á vinnumarkaði • Bíðið ekki eftir tækifærunum, heldur leitið þau uppi. Frumkvæði er algert skilyrði til að komast í þau störf sem sóst er eftir. Sérstaklega á þetta við í hinum hefðbundnu karlagreinum þar sem áralöng venja er að karlar vermi sætin, þar er mun ólíklegra að verið sé að svipast um eftir konu. • Munið að það er ekki endilega heppilegt að gera allt í einu og forgangsraðið því þeim þáttum sem þið hafið stjórn á í lífi ykkar. Ábyrgðarmikil störf taka sinn toll af einkalífinu og það borgar sig að gera sér grein fyrir því fyrirfram. • Vertu óhrædd við að vera kona og vera þú sjálf. Reyndu ekki að verða eins og strákarnir. Það er styrkur þinn að sjá mál frá öðrum hliðum og nálgast þau öðruvísi en þeir. Vertu ekki of háð hópnum. Aflétta þarf LAUNALEYND 23 22-23 LaunaleinIngrid.indd 3 6/2/10 11:12:07 AM

x

19. júní

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: 19. júní
https://timarit.is/publication/671

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.