19. júní - 19.06.2010, Blaðsíða 16
„Öðlingurinn 2010 er átak sem ég hugsa til að brúa þetta
kynbundna bil og hleypa karlmönnum meira inn í umræðuna.
Ég er með bókina til sölu á þessum vef og allur ágóðinn af
henni fer óskiptur í baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Næst
á dagskrá hjá mér er svo kvennafrídagurinn mikli 25. október.
Þegar haldinn er stór útifundur þá fylgir því mikill kostnaður, t.d.
við að flytja inn ræðuskörunga frá útlöndum og leiga á ýmiss
konar búnaði. Þeir sem kaupa bókina mína geta með beinum
hætti styrkt útifundinn í haust en kjarni hans verður samstaða
gegn kynbundnu ofbeldi. Ég er í undirbúningsnefnd fyrir þennan
stóra dag og fer fyrir hópi sem sér um listræn atriði. Það verður
ýmislegt um að vera víðsvegar um bæinn.“
Þórdís Elva verður þrítug á þessu ári og var því ekki fædd
á fyrsta kvennafrídeginum. Hún segist þó sjá stjörnur í augum
móður sinnar og ömmu þegar rætt er um daginn. „Móðir mín
áttaði sig ekki á hversu víðtæk samstaða kvenna yrði þennan
dag og sat því heima með lítið barn. Hún hefur aldrei fyrirgefið
sér það.“
Bók og barn
Sjálf varð Þórdís Elva móðir í fyrsta sinn um sama leyti
og bókin hennar kom út. „Það liðu aðeins 36 tímar á milli
útkomu bókar minnar og fæðingar sonar míns. Þetta var því
viðburðaríkasta vika ævi minnar og fæðingarorlofið hefur verið
litað af því að fylgja bókinni eftir. Sonur minn var til dæmis
bara þrettán daga gamall þegar ég var beðin um að ávarpa
Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á landsþingi Ungra
jafnaðarmanna. Síðan þá hef ég verið út og suður. Það hefur þó
ekki komið niður á sambandi okkar mæðgina,“
segir hún.
Baráttumál á svið
Þórdís Elva var ung þegar hún vakti fyrst
athygli sem leikskáld. Hún segir að lífið sé sífellt
að koma sér á óvart. Hún hafi aldrei verið með
neina meðvitaða stefnu heldur æxlast hlutirnir
frekar á óvenjulegan hátt. Eftir menntaskóla
þar sem hún dúxaði í námi hélt hún til
Bandaríkjanna í leiklistarnám og fékk fullan
námsstyrk. Ástæða þess að hún fór þangað var
sú að engin inntökupróf voru í Leiklistarskóla
Íslands þetta árið. Þórdís Elva dúxaði einnig í
leiklistarnáminu og útskrifaðist þaðan 23 ára.
Þegar hún kom heim var ekki hlaupið að því
að kynna sig fyrir leiklistarheiminum og hún fór
að vinna á bílasölu. „Sumir dagar voru rólegir
og ég fór í gamni að skrifa leikritið Brotið sem
Hafnarfjarðarleikhúsið keypti síðan og setti upp.
Það fjallaði um geðræn vandamál. Þar með var
boltinn farinn að rúlla og ég var beðin að skrifa
fleiri leikrit,“ segir Þórdís Elva. Í framhaldinu
var sett upp leikverkið Hungur eftir hana í
Borgarleikhúsinu. Það fjallar um átröskun. Þá
vann hún leikritasamkeppni á vegum Leikfélags
Reykjavíkur og fór þriðja verkið hennar á svið en
það heitir Fýsn og fjallar um mann sem haldinn
er barnagirnd. Á sama tíma var Þórdís að skrifa
bókina Á mannamáli. Þórdís Elva hefur ríka
réttlætiskennd. Öll hennar verk hafa snúist um
ákveðin baráttumál og hvernig á þeim er tekið
í samfélaginu.
Skrifin hafa setið á hakanum undanfarið en
hún er með nýtt leikverk á teikniborðinu sem
verður byggt á norrænu samstarfi. „Hugmyndin
er að safna raunverulegum sögum, taka púlsinn
á tíðarandanum í hverju landi fyrir sig og skoða
muninn.“
Fyrir utan allt þetta hefur Þórdís Elva verið
að leika. Margir muna kannski eftir henni úr
glæpaseríunni Svörtum englum þar sem hún
lék barnshafandi konu.
Klámvæðing
Þegar hún er spurð hvort hún gæti hugsað sér að fara út í
pólitík neitar hún því ekki, þótt stefnan sé ekki sett í þá áttina. „Ef
boltinn minn rúllar þangað er samt aldrei að vita. Ég hef sterkar
skoðanir á stjórnmálum en þau baráttumál sem eru mér hugleikin
eru þverpólitísk. Ég er líka mikil kvenréttindakona og femínisti en
það orð er því miður oft misskilið. Sumir framhaldsskólanemar
sem ég hef haldið fyrirlestra fyrir telja femínista vera konur
sem séu á móti karlmönnum. Ég útskýri við svona tækifæri að
femínisti sé manneskja sem er hlynnt jafnrétti kynjanna. Síðan
spyr ég: Og erum við þá ekki öll femínistar?“
Margir eru á því að bakslag hafi komið í kvennabaráttuna
með aukinni klámvæðingu á undanförnum árum. Þórdís er
sammála því og fjallar um það í bókinni Á mannamáli. „Ég held
að foreldrar hafi því miður verið sofandi á verðinum gagnvart
klámi á netinu. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn skoða
drengir á framhaldsskólaaldri klám að staðaldri og þeir eru
með brenglaða mynd af kynlífi. Við erum auk þess afar slök
við kynfræðslu í skólum og ég tel það mikið áhyggjuefni,“
segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir sem er afar spennt yfir þessu
merkilega afmælisári kvennabaráttunnar. „Mér finnst frábært að
vera þátttakandi í þessu. Ég vil hvetja alla til að gerast öðlingar
á www.odlingurinn.is og mæta með baráttugleðina meðferðis á
útifundinn í haust.“ a
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Bók hennar Á mannamáli hefur vakið mikla athygli og
nú vill hún hvetja alla til þess að vera öðlingar.
16
14-17 BarattukonaÞodis3efni.4 4 6/1/10 10:52:41 PM