Skírnir - 01.01.1949, Qupperneq 12
10
Einar Ól. SveinsSon
Skimir
hverfi sitt og valdhafa samtíðar sinnar. Það er ekki rúm fyrir
Götz, enda kann hann ekki að beygja sig, og þeir sameinast
móti honum. Hann tekur svari þeirra, sem minna mega sín,
hann verður fyrirliði í bændauppreisn, en einnig þar eru
svik, og hann er loks sigraður og deyr með orðið „frelsi“ á
vörunum.
Götz var prentaður 1773, árið eftir kom annað verk, sem
gerði Goethe heimsfrægan, en það var Die Leiden des jungen
Werthers eða Raunir Werthers unga. Það er sorgarsaga ungs
manns, sem verður ástfanginn af heitmey annars manns;
ýmislegt annað mótdrægt kemur fyrir hann, sem fær á hann;
þetta verður honum að hugsótt, sem elnar, unz hann vill
ekki lifa lengur og ræður sér sjálfur bana. 1 þessu riti drottna
tilfinningarnar, ástríðan; þar er lýst ástinni sem náttúruafli,
sem getur magnað menn lífi og krafti, en líka orðið að sótt,
sem leiði til dauða. Þessi bók varð brátt kunn víða um heim,
og á efri árum sínum brosti gamli Goethe að því, að Kínverjar
máluðu Werther og Lottu á tebolla sína.
Margt fleira en þetta ritaði Goethe á þessum árum, sem
ég skal ekki fara að tína upp. Þó skal ég nefna leikritið Clavigo
með efni frá samtímanum; það fjallar um haráttu manns
milli ástar hans og framtíðarinnar, sem beið hans. Goethe
þekkti vel þá baráttu á þessum tíma, en hann hefur haft
mjög ríka þrá til að vera frjáls og bindast engum böndum,
enda fann hann heiminn standa sér opinn og mikil forlög bíða
sín. Á þessum árum bar mikið á því, sem síðar verður jafnan
vart í einkalífi hans, að liðið er liðið. 1 gær er ekki til, sagði
hann einu sinni. — Frá þessu tímabili er einnig hin fyrsta
gerð af Faust, sem nefnd hefur verið Frum-Faust (Ur-Faust)
og nær yfir meginatriðin í því, sem nú heitir I. hluti Fausts.
Kem ég að þvi riti síðar.
Goethe var nú orðinn frægur maður; hann var galdramað-
ur, sem hreif lesendur, og þó enn meir þá, sem kynntust
honum sjálfmn. Á þessum árum komst hann í kynni við
Karl Ágúst, hertoga af Weimar, og árið 1775 bauð hertoginn,
sem þá var átján ára og nýorðinn myndugur, honum til sín.