Skírnir - 01.01.1949, Side 13
Skírnir
Goethe tvöhundruÖ ára
11
Laust og bundið mun það hafa verið, hve lengi það heim-
boð stæði, en það teygðist úr því: Goethe átti samastað í
Weimar til dauðadags 1832.
Sjálfsagt hefur hann verið ánægður með að geta „hætt að
praktíséra“, enda finnur hann, að hans bíða mikil verk, sem
hann veit þó ekki hver eru. En það kemur brátt í ljós. Með
honum og hertoga tekst mikil vinátta, og þegar á miðju næsta
ári er Goethe orðinn ráðherra. Verkefni hans jukust, og eftir
nokkur ár var hann orðinn fjármálaráðherra og gegndi þó um
leið tveimur öðrum ráðherraembættum. Hann var þá líka
aðlaður.
Almennt er talið, að við Weimarhirðina hafi verið óvenju
lifandi áhugi á hvers kyns menntum, svo að Goethe fékk hér
vissulega hljómgrunn. En ef spurt er, hve heppilegt það hafi
verið, að hann lenti í Weimar, hlýtur svarið að fara eftir
því, frá hvaða sjónarmiði er litið. Ef ég vissi dæmi þess, að
hirðloft hefði til langframa verið hollt skáldi, þá mætti svo
vera um Goethe, en þau veit ég ekki. Hertoginn sagði einhvern
tíma, að ekki hefði mátt láta slíkan afburðamann komast hjá
starfi við stjórn ríkisins; en það er sannast sagna, að skáld
eru torfundin, en ef til vill hafa menn ekki vitað þá eins vel
og nú, hve ráðherrar eru auðfengnir.
En Goethe var ekki aðeins skáld, heldur líka stórmenni í
menningu síns tíma, og frá því sjónarmiði má auðvitað frekar
finna bæði með og móti. Það má ræða, hvað vannst og hvað
tapaðist, þegar ljónið tók að spekjast.
f Weimar kynntist Goethe konu, sem ætla má, að hann
hafi unnað um allar aðrar konur fram. Það var Charlotte von
Stein, kona yfirstallvarðar hertogans. Með þeim hjónum voru
litlar ástir, og á þeim tíma var litið nokkuð öðruvísi á hjóna-
handið meðal aðalsins en verið hefur jafnan meðal borgara-
stéttarinnar. Með Goethe og frú von Stein tókust miklar
ástir. Hversu þeim hafi verið háttað, hafa menn deilt um,
og sömuleiðis hvemig konan hafi í rauninni verið. Hitt er full-
ljóst, hver hún var í augum Goethes, að hann hefur ekki
séð sólina fyrir henni. Hún agaði Werther hinn unga, áður
en hann fengi unnið hylli hennar.