Skírnir - 01.01.1949, Page 20
18
Einar Öl. Sveinsson
Skímir
að meira í einveru, hefði ég verið hamingjusamari og ritað
miklu meira. En eftir Götz minn og Werther áttu að sann-
ast á mér orð viturs manns: Ef einhver hefur gert veröldinni
eitthvað til geðs, þá kann hún að sjá svo um, að hann geri
það ekki aftur.“
Þetta sagði öldungurinn. Menn gæti þess vel, að hann var
enginn nöldurkarl; aldurinn færði Goethe þvert á móti heið-
ríkju og frið eftir storma lífsins. Heiðríkjan gerir mörg orð
Goethes frá efri árum svo einkennilega lík dómi, sem ekki
verður áfrýjað.
En hvað sem Goethe hugsaði um gæfu sína á efri árum,
og hversu sem hann dæmdi um hana, þá tók hann gjöfum
hennar á yngri árum sem kærum, en þó sjálfsögðum hlutum.
í mörgum kvæðum frá þeim tíma ávarpar hann „Genius“
sinn; það er eins konar verndarvættur, og er raunar ekki ann-
að en persónugerð lífstilfinning hans og trú á, að hann sé
ætlaður til mikilla hluta. Þegar Goethe vill ekki bindast og
metur meira list sína og framtíð, finnst honum án efa, að
hann sé að hlýða Genius sínum.
Goethe var ekki aðalsmaður að uppruna, en hann var sólar-
megin frá upphafi. Sú var hans þjóðfélagsaðstaða. Hann var
alinn upp á dögum einveldis og aðalsveldis, og hann varð
dyggur starfsmaður hertoga síns. 1 pólitískum efnum varð
hann íhaldsamur maður. Hann trúði ekki á fjöldann, hann
trúði á stórmennin og hina fáu, sem af alefli reyndu að ná
þroska. Einstaklingsþroski er markmiðið, sem stefna ber að.
En þetta er þó ekki af því, að hann sjái ekki fleira og vilji
ekki fleira. En svo bjart sem er yfir anda Goethes, þá eru
bjartsýni hans vissulega takmörk sett. Reynsla hans og um-
hverfi veldur sjálfsagt miklu um það.
Ekki er þó svo að skilja, að hirðþjónustan hafi svæft anda
hans, þó að hún hafi tamið hátterni hans. Þegar hann er bú-
inn að vera 49 ár við einhverja merkustu hirð Evrópu, þar sem
menntir voru í mestu hávegum hafðar, verður honum eitt
sinn að orði: „Hirð er sérstakur heimur. Allt, sem ekki heyrir
til hennar, er látið sem ekki sé til; hirðsiðirnir koma í stað
sjálfstæðrar hugsunar.“ Goethe hafði látið Götz deyja með