Skírnir - 01.01.1949, Page 54
52
Lárus Sigurbjörnsson
Skímir
II.
Það er ekki hlaupið að því að átta sig á persónum leiksins
eftir leikendaskránni. Hans Mathis, méara an bhaile, leikinn
af Éamon Guailli. Er þetta sami maðurinn, sem var kynntur
fyrir mér sem Eddie Golden? Það reynist vera, og þannig er
það um nafn eftir nafn; það er hreinasta getraun að lesa leik-
dómana í blöðunum, þar sem ensk nöfn leikaranna eru sett
í stað hinna írsku í leikendaskránni. Á víðavangi í höfuð-
borginni, á húshornum og í strætisvögnum eru vinsamlegar
leiðbeiningar fyrir þá, sem um strætin fara, oft á báðum
tungumálum, stundum eingöngu á írsku, og maður anzar
eiginlega ekki enskunni, heldur lætur sér vel lynda að villast
endalaust í þessari borg, því að fólkið er svo hjálpsamt og
hjartaprútt, að það tekur á sig krók til að fylgja manni og
fer þá venjulegast aldrei beinustu leið, til þess að geta létt
af hjarta sínu við bláókunnugan vegfaranda og ef til vill
snapað upp einhvem fróðleik hjá honum. Alvarlegra miklu
er að villast í þessu plaggi, sem mér er lagt upp í hendur til
skýringar og leiðbeiningar um leikinn. Foireann, fyrir ofan
nöfn leikenda, þýðir vitaskuld: persónur eða leikendur, en það
gefur litla stoð og jafnvel þó að maður gizki á sitthvað annað,
méara an bhaile, borgarstjóri í bænum, Catríona, a bhean,
Katrín, kona hans, Annette, a iníon, Annette, dóttir hans,
Sáirsint póiliní, lögregluforingi, An dochtúir, læknir, o.s.frv.
Hér stoðar ekkert annað en setja kóssinn eftir atburðarásinni
á leiksviðinu og festa sér í minni viðbragð leikarans í ein-
stökum atriðum.
En nú vill svo til, að það rennur upp fyrir manni, nær
nokkuð er liðið á leikinn, að hér er á ferðinni gamall kunn-
ingi. Na cloigíní, Klukkurnar, leikritið, sem sýnt er, er samið
upp úr þekktum reyfara „Le juif polonais“ (Pólski gyðingur-
inn) eftir Erckmann og Chatrian og er einkum frægt í hin-
um enska heimi fyrir leik Henrys Irvings í aðalhlutverkinu.
Það slær að mér óhug, því að það hvarflar ekki að mér, hvaða
erindi þessi gamli reyfari og stjömuleikur á upp á leiksvið í
þjóðleikhúsi, og hvað sízt hinu írska.