Skírnir - 01.01.1949, Page 64
62
Lárus Sigurbjörnsson
Skírnir
Rosmersholm.
I.
Aldrei, — aldrei verður grískur harmleikur endurtekinn
eða Islendingasaga endursögð. Á vorum tímum verða yfir-
leitt engir harmleikir. Trúin á persónuleg forlög er dauð.
Sorgarleikir vorra tíma sýna langflestir aumkunarverð ör-
lög. Ris harmleiksins, spenniþol sögunnar er brotið. Af fornri
forlagaheiðni eimir lítið eitt eftir í staðbundinni þjóðtrú, og
vissulega hefur þjóðsagan verið aflvaki í nútíma list, en hún
er sem brotið mánaskin í kórglugg hjá sjálfu sólarljósinu.
Skír trúin á persónuleg máttarvöld er birtan, sem lýsir yfir
hinum fornu grísku og íslenzku listaverkum. Þaðan stafar
kaþarsis (hughreinsun) þeirra Grikkja og vorrar þjóðar heilsu-
bót. Það er í sjálfu sér hörmulegt, að nútímaleikritun er jafn-
fátæk í þessu efni og raun ber vitni, því að það eru ekki
bugaðir menn, sem hafa velþóknun á að sjá sína líka knúða
ýtrustu hugarkvöl til hinztu átaka.
Henrik Ibsen hefur komizt næst því að skrifa harmleik
samtíðar sinnar —- og vorrar samtíðar með, ef því er að skipta.
Nógsamlega hefur verið á það bent, að hann hafi lært leik-
rittækni sína hjá frönskum, Scribe, Sardou og Dumas fils,
en því minni gaumur gefinn, að hann var skólaður í grísku
harmleikjunum og hafði, að eigin sögn, numið orðkynngi
í íslendingasögum. I sjónleiknum Rosmersholm grípur Ibsen
á kjarna málsins og skilur um leið á milli hinna fornu rita
og sorgarleiks samtíðarinnar. Rétt áður en séra Jóhannes
Rosmer gengur út og drekkir sér ásamt Rebekku West, segir
hann: „Það er enginn dómari yfir okkur, því verðum við
sjálf að leggja á okkur refsinguna." Sæti dómarans hefði ekki
staðið autt hjá Æskýlosi, og Njáluhöfundur hefði varla kunn-
að að nefna hugarvingl prests, sennilega litið á atburðinn
sem hreint og klárt morð, en hér er Ibsen samt í grundvall-
aratriði á braut harmleiksins eins og hann verður bitrastur
í samtíðinni. Baráttan hefur færzt á innra svið, rödd sam-
vizkunnar er meðleikandi, ósýnileg, alla vega hrelld og hrjáð