Skírnir - 01.01.1949, Síða 83
Skírnir
St. Nikulás og dýrkun hans
77
kletti, þar sem mikill raki er, sem kemst inn í skrínið og
að beinunum, og hefur þar blandazt saman við smyrslin á
beinunum. Þetta er í sjálfu sér sennilegasta skýringin á því,
að menn á miðöldunum trúðu því, að ilmandi olía rynni frá
beinunum. Til heiðurs kaþólsku kirkjunni, vil ég taka það
fram, að prestarnir í Bár hafa engin svik í frammi og eru
ekkert að leyna því, hvernig á vökvanum stendur.
Nú á dögum eru menn, það ég frekast veit, hættir að
smyrja beinin. Lærður kaþólskur prestur, X. Barbier de Mon-
tault, hefur samið rit um St. Nikulásarkirkjuna í Bár og
rannsakað þetta mál mjög ítarlega.1) Hann bendir á, að botn
grafarinnar sé svo lítið yfir sjávarmál, að sjávarvatnið geti
mjög auðveldlega komizt inn í kryptinn og skrínið sjálft.
Hann hefur sjálfur verið sjónarvottur að því, hvernig menn
nú á dögum fara að því, að ná í vökvann úr skríninu. Á
hverjum morgni milli 7 og 9 koma 4 kanúkar og opna alt-
arið, láta svo njarðarvött síga í silfurfesti niður í skrínið, þar
sem beinin liggja, og pressa svo vökvann úr honum, er þeir
hafa dregið hann upp, og er hann svo látinn á flöskur. Menn
hafa fundið klómatríum í vökvanum, og gæti það bent á,
að sjávarvatn hafi komizt að skríninu. Hinn skozki fornfræð-
ingur Chambers getur um það,2) að á flösku, sem hann skoð-
aði, hafi verið hreint vatn, og hann fann jafnvel leifar af
grænum blöðum, sem á einhvern hátt höfðu komizt inn í
vökvann; presturinn, sem sýndi honum þetta, sagðist vera
sannfærður um, að þetta bæri vott um, að vökvinn hefði sér-
staka helgi.
En hvernig sem nú á vökvanum stendur, — víst er um
það, að hann er til í skríninu og rennur þar enn þann dag
í dag, og þúsundir trúaðra kaþólskra manna hafa fengið og
fá enn bót meina sinna af þessum vökva.
1) X. Barbier de Montault: L’église de St. Nicolas á Bari. 1 ritum
hans: Oeuvres complétes, XIV, 1899, bls. 3—247, sérst. bls. 40 o. éfr., 74
o. áfr. og 78. Hér tilfært eftir Anrich: Hagios Nikolaos, II. bls. 518.
2) R. Chambers: Book of days, við 6. des. — Þar er ágæt lýsing á
Bár og héraðinu þar í kring, og mikið um Nikulásardýrkunina, einkum
á Englandi á miðöldunum.