Skírnir - 01.01.1949, Page 93
Skírnir
St. Nikulás og dýrkun hans
87
kraftaverkin. Þar er t. d. sagan um það, að hann vekur til
lífs þrjá skólapilta, sem veitingamaður, sem þeir höfðu gist
hjá, hafði drepið, slátrað og saltað ketið niður í tunnu. Þetta
kraftaverk St. Nikulásar verður til þess, að hann verður sér-
stakur verndardýrlingur námsmanna, eldri og yngri. Sagan
um það, er hann fleygir þremur pyngjum með gullpeningum
inn gegnum glugga til fátæks manns, sem ætlaði að selja
þrjár dætur sínar til óskírlífis, verður til þess, að þar sem
pyngjurnar eru oft myndaðar sem gylltar kúlur (en það
merki var á Italíu oft notað sem atvinnumerki bankamanna
og víxlara), þá hafa þær stéttir manna valið sér St. Nikulás
sem verndardýrling. En þar sem peningamenn voru stundum
öfundaðir og hataðir, hefur þessi sérstaklega dýrkun þessara
stétta á St. Nikulási líklega valdið því á Englandi, að þar er
orðið St. Nicholas’ clerks notað um stigamenn, þjófa og svik-
ara, t. d. hjá Shakespeare (Henry IV, I, 2, 1), þar sem maður
er látinn segja: „Ég veit þú dýrkar St. Nikulás eins heiðarlega
og falskur maður getur“. Ef til vill er enska nafnið á djöfl-
inum, „Old Nick“, í sambandi við þetta, en gæti þó líka átt
við einhvern vætt frá heiðna tímanum, sem var dreginn inn
í ærslin á Nikulásarhátíðinni fyrir jólin, sem áður er getið um.
Næst á eftir heilagri Maríu, móður Krists, er St. Nikulás
sá dýrlingur, sem mest er dýrkaður í grísk-kaþólskum lönd-
um, og það er því ekki ástæðulaust, að Mussolini efldi mjög
háskólann í Bár, en sú borg er nú líka á öðrum sviðum orðin
mikil menningarstöð, —- og gerði ársmarkaðinn þar, Fiera di
Levante (Levants-sölumarkaðinn), aðalverzlunarsamkomu
fyrir austurhluta Miðjarðarhafslandanna (Levantinn).
Viðvíkjandi listanum yfir kirkjur helgaðar St. Nikulási o. s.
frv., skal þess getið, að í 1. dálkinum eru tilfærð þau ártöl,
þar sem fyrst er getið um kirkjuna sem sérstaklega helgaða
honum sem nafndýrlingi eða verndardýrlingi, en um allar
breytingar á þessu er þar líka getið undir nafni hvers staðar,
og þar eru líka tilfærðar heimildir.
I 2. dálki er getið um kirkjur þær, sem eru helgaðar hon-
um sem nafndýrlingi.
6*