Skírnir - 01.01.1949, Page 120
STEFÁN EINARSSON:
ALÞÝÐUKVEÐSKAPUR FRÁ MIÐÖLDUM.
Alþýðukveðskapur frá miðöldum (um 1350—1550) grein-
ist að minnsta kosti í þrjá eða fjóra flokka: dansstef, rimur,
sagnadansa og þjóðsögukvæði, svo að ekki séu taldar smærri
greinir eins og bænir, særingar, gátur, barnagælur og þulur.
Hér er ekki staður til að lýsa neinum þessara flokka ná-
kvæmlega, — til er þykk bók um rímurnar einar, —- enda
get eg ekki hrósað því, að eg hafi rannsakað neinn af þess-
um flokkum rækilega. Hygg eg, að mér sé hér bezt að reyna
aðeins að gefa yfirsýn yfir fyrstu þrjá flokkana: dansstefin,
rímurnar og sagnadansana. Þessar þrjár ljóðagreinir standa
í ákveðnu sambandi, og er varla hægt að skilja eina, nema
menn viti nokkur deili á hinum tveim.
I.
Dans er getið fyrst á Islandi (og á Norðurlöndum) í Jóns
sögu helga eftir Gunnlaug Leifsson munk (d. 1218) frá því
um 1200. Þar segir svo: „Leikr sá var kærr mönnum, áðr
hinn heilagi Jón varð biskup (1106), at kveða skyldi karl-
maðr til konu í danz blautlig kvæði ok regilig, ok kona til
karlmanns mansöngsvísur; þenna leik lét hann af taka ok
bannaði styrkliga. Mansöngskvæði vildi hann eigi heyra né
kveða láta, en þó fekk hann því eigi af komit með öllu.“ x)
Ef þessi sögn er rétt, hlýtur dans að hafa verið kunnur
á Islandi jafnvel fyrir 1100. En bæði orðið og leikurinn eru
af frönskum uppruna.
1) Biskupa sögur I, 237.