Skírnir - 01.01.1949, Qupperneq 178
172
Gísli Brynjúlfsson
Skírnir
að svolgra í mig, öngvar rósrauðar varir til að kyssa. Hún
er háttuð. Ég er búinn að vera hjá henni svo enginn vissi,
nema þú færð að vita það núna. Allt var háttað, en ég kom
út úr dimmunni eins og ræningi og flaug að brjósti hennar.
Hún beið min með opinn faðminn. Hún hélt mér svo heitt
við hjarta sitt og bauð mér góðar nætur með kossi. Þó ég
alltaf ætti að vera að sjúga varir hennar og mætti aldrei
anda, þá gæti ég samt alltaf sogið nógan lífsanda af þeim.
En hún varð að fara inn til foreldra sinna, og enginn mátti
vita þetta. Hún skalf í faðmi mínum af hræðslu og ást, og
hjartað barðist svo ótt, svo ótt. En nú er hún háttuð, og nú
er ekki nema næturkyrrðin í kringum mig. Draugarnir eru
að dansa og stjömurnar að gægjast út á milli skýjanna, og
ef ekki Jón Jónsson sæti rétt hérna við borðið hjá mér og
væri að yrkja um álfaskóga, gyllt ský og álfameyjar, þá er
ég hræddur um, að draugarnir réðust að mér, ef ég ekki
stæði undir vernd þessa mikla álfakonungs.
Einu sinni í sumar fóru allir úr prófastshúsinu ofan eftir
einn sunnudag. Síra Helgi var inni í Viðey. Ástríður var
ein eftir og ætlaði ekki fyrr en seinna. Ég var inni hjá henni,
eins og vant var, og þegar hún var búin að láta á sig sjal
og hatt og ætlaði út, þá gat ég ekki annað en gripið utan
um hana. Hún var að reyna að slíta sig af mér hægt og
hægt. Hún var ekki reið, en þegar hún fór að tala, og þegar
ég heyrði röddina, sem var blandin ást og sorg, þá gat ég
ekki lengur. Ég sleppti henni og varð hræddur, að henni
þætti við mig. En hún fór út fyrir dyrnar og tók í höndina
á mér svo hjartanlega og innilega, að ylurinn af hendinni
fór inn að hjarta mér.
Oft hef ég síðan hugsað um þetta handtak. Það var hið
fyrsta innilega og heita. Ég sá tár í augum hennar, og sorg-
blandin gleði skein í gegnum tárin. Þessi fögm augu, sem
allténd áður brostu, þau vöknuðu nú yfir mér. Ég spurði
hana, hvort hún væri reið.
„Nei, Gísli,“ sagði hún, „því er nú miður, ég get það ekki.“
Ég spurði hana, hvort hún ætlaði þá allténd að fyrirgefa
mér allt.