Bændablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Sagt var frá því í Bændablaðinu
í apríl síðastliðnum að hvalveiðar
Íslendinga hefðu valdið því
að íslenskt lambakjöt var
ekki auglýst í Whole Foods-
verslununum í Bandaríkjunum
á síðasta ári. Sökum þess gengu
áætlanir um söluaukningu frá
árinu 2012 ekki eftir. Beita þurfti
talsverðum fortölum til að fá
Whole Foods til að halda áfram
að selja íslenskt lambakjöt vegna
veiðanna. Þá hefur kanadíska
matvælafyrirtækið High Liner
Foods ákveðið að hætta viðskiptum
með íslenskan fisk við HB Granda
vegna tengsla fyrirtækisins við
Kristján Loftsson, eiganda Hvals
hf., en Kristján er stór hluthafi í
HB Granda og stjórnarformaður
fyrirtækisins.
Sigursteinn Másson, talsmaður
Alþjóða dýravelferðarsjóðsins
(International Fund for Animal
Welfare, IFAW), segir hvalveiðar
við Ísland nú þegar skapa mikil
vanda mál í viðskiptum og sam-
skiptum Íslendinga við önnur
ríki. „Þetta er bara mjög vont,
vont fyrir ímynd Íslands, fyrir
íslenska matvælaframleiðslu og
útflutning á íslenskum matvælum til
Bandaríkjanna, svo dæmi séu tekin.
Þetta skapar gríðarleg vandræði. Í
verslanakeðjunni Whole Foods í
Bandaríkjunum hafa menn ekki
verið tilbúnir að auglýsa íslenskt
lambakjöt vegna þess að Ísland
er, vegna hvalveiðanna, orðið að
einhvers konar skammaryrði í
matvælageiranum þar úti.“
Blaðamaður Bændablaðsins hitti
Sigurstein á dögunum og ræddi
við hann um hvalveiðar Íslendinga
og starfsemi IFAW, Alþjóða
dýravelferðarsjóðsins, sem var settur á
fót árið 1969 og er með starfsemi í yfir
fjörutíu löndum. Sjóðurinn er rekinn
á styrkjum frá stuðningsmönnum vítt
og breitt um heiminn og þiggur hann
ekki fjármuni frá fyrirtækjum eða
opinberum aðilum.
Upphaf að hvalaskoðun
Sigursteinn segir að starfsemi
sjóðsins hér á landi megi rekja til
ársins 1990.
„Sjóðurinn lét sig fyrst varða
dýravelferðarmál á Íslandi árið
1990 þegar við stóðum að fyrstu
hagkvæmnisathugun sem fram fór
hér á landi varðandi hvalaskoðun. Sú
athugun fór fram á Höfn í Hornafirði.
Það má segja að það sé upphafið á því
sem síðar hefur orðið í hvalaskoðun
hér á landi.“
- Var sú athugun gerð til að benda
á valkost varðandi nýtingu á hval, í
stað veiða?
„Sjóðurinn hefur alltaf viljað
nálgast viðfangsefni þannig að við
bendum á jákvæða valkosti, í stað
þess að koma inn í samfélög með
fingur á lofti og segja mönnum hvað
þeir eigi að gera eða ekki að gera.
Varðandi hvalaskoðunina kom það
í ljós, fyrst í Hornafirði og síðan
þegar menn fóru að fikra sig áfram
með þetta í Eyjafirði, Keflavík,
Húsavík og víðar, að þetta væri hin
skynsama og ábatasama nýting á
hvalastofninum. Við getum verið
sammála um að það sé hin rétta leið,
svo framarlega sem hvalaskoðun er
stunduð á skynsaman og ábyrgan hátt
og með velferð dýranna í fyrirrúmi.
Ef rétt er staðið að hvalaskoðun er
þetta langsjálfbærasta nýtingin á
þessari náttúruauðlind sem hægt er
að hugsa sér.“
Benda á aðra kosti
Sigursteinn segir að barátta gegn
hvalveiðum hafi verið megin
starfsemi sjóðsins hér á landi síðustu
ár. Þá hafi sjóðurinn sömuleiðis
unnið með aðilum í ferðaþjónustu
tengdri selum og refum.
„Við höfum átt í samskiptum við
selasetrið á Hvammstanga, sem er
að gera mjög merkilega hluti. Þar
eru að koma um 60.000 manns á
hverju sumri, sem er gríðarlega góð
nýting á auðlindinni sem selurinn
er í ferðamennsku. Sömuleiðis
höfum við verið í samstarfi við
Melrakkasetrið á Súðavík um refinn
á Hornströndum. Við viljum sem
sagt nálgast okkar viðfangsefni án
þess að fara með offorsi eða látum
gegn þeim sem kunna að vera okkur
ósammála, hafa hagsmuni eða telja
sig hafa hagsmuni af veiðum á
þessum skepnum. Stundum er þetta
byggt á misskilningi, til dæmis í
hvalveiðunum. Þar eru menn bara
að tapa peningum og viðskiptin hafa
gengið illa. Það væri því æskilegt
að menn sæju ljósið og nýttu sína
reynslu fremur í hvalaskoðun en
þessar veiðar.“
Skipta sér ekki af landbúnaði
Sigursteinn segir að þrátt fyrir
þetta fari því fjarri að IFAW sé
alfarið á móti nýtingu dýraafurða.
Engar athugasemdir séu gerðar við
sjálfbærar nýtingu, veiðar, eldi og
slátrun, svo framarlega sem velferð
dýranna sé virt. Þá hafi sjóðurinn
ekkert á móti hefðbundnum
landbúnaði.
„Við tökum ekki afstöðu gegn
landbúnaði eða hvernig landbúnaður
er stundaður. Við erum vitanlega
dýravelferðarsamtök og berjumst
því gegn því að farið sé illa með dýr,
hvort sem það eru húsdýr, gæludýr
eða villt dýr. Við sérhæfum okkur
hins vegar í því að vinna fyrir villt
dýr. Við höfum hins vegar aldrei
skipt okkur af landbúnaði og það
stendur ekki til.“
200.000 ferðamenn
skoða hvali árlega
-Snúum okkur aftur að
hvalveiðunum. Gefum okkur að
það væri almenn eftirspurn eftir
hvalkjöti í heiminum og veiðarnar
hagkvæmar í efnahagslegu tilliti.
Hvaða afstöðu myndi sjóðurinn þá
taka varðandi hvalveiðar?
„Við berjumst alveg sérstaklega
gegn veiðum sem við teljum
tilgangslausar. Ef staðan væri sú að
í heiminum væri sérstök eftirspurn
eftir hvalkjöti, það væri talið
nauðsynlegt að veiða hval, til dæmis
út frá fæðuöryggissjónarmiðum og
færð fyrir því góð rök myndum
við áreiðanlega skoða málið. Það
er hins vegar bara ekki svo. Það
eru engin rök fyrir því að veiða
hvali. Allar hugmyndir um að
veiðar á hval stuðli að einhvers
konar jafnvægi í hafinu eru út í
hött og hlegið að þeim af öllum
vísindamönnum úti í heimi. Engar
af þeim röksemdum sem settar hafa
verið fram um hvers vegna þurfi að
veiða þessi dýr hafa staðist skoðun.
Fullyrðingar um að þetta væru
milljarða útflutningsverðmæti hafa
reynst orðin tóm og svo framvegis.
Heimurinn hefur á síðustu þrjátíu
til fjörutíu árum tekið sig saman um
að vernda þessa tegund dýra. Það
eru þrjú ríki í heiminum sem stunda
veiðar í viðskiptaskyni á hval, í
andstöðu við mikinn meirihluta
ríkja heims og í andstöðu við
alþjóðlegar samþykktir. Íslendingar
þurfa verulega að hugsa sinn gang
í þessum efnum. Það liggur fyrir
hver besta nýtingin á hval í hafinu í
kringum Ísland er. Það er að ríflega
200.000 ferðamenn fari árlega í
hvalaskoðunarferðir. Allt í allt erum
við að tala um gjaldeyrisinnstreymi
í kringum fjóra milljarða króna í
gegnum þessa starfsemi.“
Líkt og æðarfuglinn
Að stunda hvalveiðar er því eins og
að saga undan sér greinina sem setið
er á, að mati Sigursteins.
„Bændur þekkja þetta vel
varðandi æðarfuglinn. Það er mjög
eðlilegt að bera þetta tvennt saman.
Æðarfugl er í veiðanlegu magni á
Ísland. Af hverju eru menn þá ekki
að veiða æðarfugl? Jú, vegna þess
að menn hafa komist að þeirri
niðurstöðu að það séu svo miklu
meiri nytjar af honum lifandi.
Þannig er það líka með hvalinn.“
Ekki persónuleg skoðun
-Sjóðurinn gerir sem sagt ekki upp á
milli dýrategunda, þó þið einbeitið
ykkur að villtum dýrum? Starfið
snýst sem sagt ekki um að búið
sé að skilgreina hval sem gáfaðar
og fallegar skepnur sem megi ekki
veiða vegna þess, eða hvað?
„Nei, það er ekki á þeirri forsendu
sem við vinnum að vernd hvala.
Það er ekki vegna þess að þeir séu
svo skynsamir og skýrir, þetta er
ekki persónulegt. Mannkynið er nú
mjög nálægt því að ná niðurstöðu
um að friða þessa dýrategund.
Ástæðan fyrir því er auðvitað sú
að á síðustu 150 til 200 árum var
gengið svo nærri hvalastofnum að
þeir eru mjög langt frá því að jafna
sig. Margir stofnar munu jafnvel
ekki gera það. Dæmi um slíkt er
til dæmis sléttbakurinn í Norður-
Atlantshafi en stofn hans er svo illa
farinn að það eru í mesta lagi 300
til 400 einstaklingar í honum. Það
er vart nóg til að koma í veg fyrir
útdauða þess stofns. Þetta er hin
raunverulega staða sem við stöndum
frammi fyrir.“
Vinna ekki gegn
frumbyggjaveiðum
„Eftir standa svo auðvitað
frumbyggjaveiðarnar og við erum
alls ekki að vinna gegn þeim. Þær
eru í eðli sínu allt öðruvísi en
viðskiptaveiðar. Viðskiptaveiðar
snúast um auka sölu og flytja
afurðirnar langar leiðir milli landa
á meðan frumbyggjaveiðar eru
algjörlega til heimabrúks. Með þetta
hafa menn verið að rugla hér, sagt að
Bandaríkin séu mesta hvalveiðiþjóð
í heimi og hafa dregið inn í það
slysaveiðar í net. Það er hins vegar
ekkert hægt að bera þetta saman
við skipulagðar viðskiptaveiðar
þar sem verið er að flytja kjötið
heimshornanna á milli, þar sem það
virðist reyndar ekki vera velkomið.“
Samtök til sem vilja beita sterkari
meðölum
-Er þá að þínu mati hætt við
að það muni valda Íslendingum
enn frekara tjóni og vandræðum
varðandi útflutning, verði ekki lát
á hvalveiðum?
„Þetta er nú þegar vandamál.
Við sjáum að þetta er farið að
valda vandræðum í fiskútflutningi
til að mynda. Ég hef heyrt í
samtökum úti í Bandaríkjunum
sem vilja ganga miklu lengra en
við hjá IFAW höfum viljað gera.
Alþjóða dýravelferðarsjóðurinn
hefur til dæmis aldrei talað fyrir
viðskiptaþvingunum á Ísland og
mun ekki gera á meðan ég er tengdur
sjóðnum. Það er hins vegar fullt af
samtökum sem þrýsta á um alvöru
efnahags- og viðskiptaþvinganir á
hendur okkur vegna þessa. Ég hef
sagt við þessa aðila að það sé ekki
vænlegt til árangurs, Íslendingar
muni berjast harkalega gegn því.“
Einn maður
„Það skiptir máli að því sé haldið
á loft að Íslendingar sem þjóð eru
ekki að veiða hval. Það er fyrst
og fremst einn maður sem er að
þessu á kostnað þjóðarinnar, á
kostnað bænda og útflutnings á
íslenskum matvælum. Það er bara
Kristján Loftsson sem stendur í
hvalveiðum. En eftir því sem þetta
dregst á langinn og eftir því sem
tilgangsleysi þessara hvalaveiða
verður augljósara, öllum heiminum
og líka okkur hér, því erfiðara verður
að halda uppi vörnum.“
-Færðu á tilfinninguna að
afstaða íslensks almennings
varðandi hvalveiðar hafi breyst
mikið á undanförnum árum?
„Já, skoðanakannanir hafa sýnt
okkur það. Það kom smá afturkippur
í kringum hrunið en svo hefur það
verið að verið að færast til baka upp
á síðkastið. Við sáum það í Gallup-
könnun í október síðastliðnum að
í fyrsta skipti studdi minnihluti
svarenda veiðar á langreyði. Þetta
er að koma, ungt fólk og konur
virðast til dæmis vera meira á þeirri
skoðun að hvalveiðar þjóni ekki
hagsmunum Íslands og að þær séu
í nafni okkar sé afleitt fyrir Ísland.“
Þjóðinni til gagns
að hætta veiðum
– Ertu þá bjartsýnn á að hvalveiðum
við Ísland muni linna á næstunni?
„Ég er bjartsýnn á að þeir tímar
séu að renna upp að fólk átti sig í
auknum mæli á því að það þjónar
ekki hagsmunum Íslands og
Íslendinga að haldið sé áfram að
veiða hvali í viðskiptaskyni. Ef menn
eru tilbúnir að standa í þessu fyrst og
fremst vegna þess að hingað álpaðist
vesalings maður, Paul Watson, og
gerði þann óskunda að sökkva
tveimur bátum í Reykjavíkurhöfn,
ef sú mynd ásækir fólk svona stíft,
þá er það að vissu leyti skiljanlegt
en afskaplega óskynsamlegt. Eins
og með önnur áföll verða menn að
komast yfir það með einhverjum
hætti, bara til að geta haldið áfram
með lífið.“ /fr
Hvalaskoðun sjálfbær atvinnugrein sem skilar fjórum milljörðum í gjaldeyristekjur árlega:
Tilgangslausar hvalveiðar
skaða ímynd Íslands
– Eins og að saga greinina sem setið er á undan sér, segir Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóða dýravelferðarsjóðsins
Sigursteinn Másson, talsmaður Alþjóða dýravelferðarsjóðsins (International Fund for Animal Welfare, IFAW)