Bændablaðið - 05.06.2014, Page 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Kraftur og gróska einkenna ferðaþjónustu á Norðurlandi:
Áhersla lögð á að beina fólki inn á
fáfarnari ferðamannasvæði í sumar
Mikill kraftur og gróska hefur
einkennt ferðaþjónustu á
Norðurlandi á liðnum misserum
og hefur ferðafólki sem heimsækir
landshlutann fjölgað ár frá ári.
Gert er ráð fyrir að nú á komandi
sumri muni margir verða á
faraldsfæti í landsfjórðungnum
og ferðaþjónustufólk hefur að
undanförnu verið önnum kafið
við að undirbúa komu þessu.
Víðfrægar náttúruperlur eru á
norðanverðu landinu og hafa þær
mikið aðdráttarafl, en fjölbreytnin
er einnig mikil þegar kemur að
afþreyingu og er hún af ýmsu
tagi. Mikil uppbygging hefur
átt sér stað í ferðaþjónustunni í
landshlutanum og ekki útlit fyrir
annað en áframhaldandi vöxt í
greininni.
Arnheiður Jóhannsdóttir er
framkvæmdastjóri Markaðsstofu
Norðurlands, en starfssvæði
stofunnar er stórt, nær frá Hrútafirði í
vestri og austur um til Bakkafjarðar.
Nú þriðja sumarið í röð fara
markaðsstofur landshlutanna í
samvinnu við Ferðamálastofu
af stað með verkefnið Ísland er
með‘etta og segir Arnheiður að nú
í sumar verði áhersla lögð á minna
þekkt og umtöluð svæði og reynt
verði að beina umferð ferðafólks inn
á jaðarsvæði, svæði þar sem jafnan
er ekki eins margt um manninn og
á hinum betur þekktu.
„Við leggjum í ár áherslu á að
fá Íslendinga til að sækja inn á
svæði sem þeir alla jafna eru ekki
að heimsækja. Einnig munum við
hvetja þá til að njóta upplifunar,
kaupa þjónustu af þeim sem bjóða
upp á afþreyingu á sínu heimasvæði
sem og sækja veitingastaði og annað
sem í boði er á hverjum stað. Þannig
skilji þeir meðvitað eftir sig tekjur
á svæðunum og leggi þannig sitt
af mörkum til að heimamenn geti
haldið áfram sinni uppbyggingu. Í
kjölfar þess að Íslendingar sæki inn
á fáfarnari svæði má búast við að
útlendingar fylgi í þeirra fótspor og
þannig muni þetta á endanum hafa
jákvæð áhrif á alla ferðaþjónustu,“
segir Arnheiður.
Gleðilegur árangur af kynningu
á jaðarsvæðum
Markvisst átak hefur staðið yfir
í þeim efnum að beina ferðafólki
inn á fleiri svæði en þau allra
þekktustu. Sem árangur af því má
nefna að ferðalöngum hefur fjölgað
á Norðvesturlandi frá því sem var.
„Ferðatímabilið á því svæði hefur
lengst og nú er ekki óalgengt að
erlendir ferðamenn séu þar á ferðinni
í október og nóvember sem var mjög
fátítt fyrir fáum misserum,“ segir
Arnheiður.
Meðal þess sem fólk fýsir að
sjá í þeim landshluta eru selir en
óvíða hér við land er betra að fara í
selaskoðunarferðir en á Vatnsnesi.
Á svæðinu hefur verið byggð upp
ákjósanleg aðstaða til selaskoðunar,
boðið er upp á selasiglingu og
þeim fjölgar sífellt sem fara í
slíkar ferðir. „Þetta er ein af þeim
nýjungum sem hefur slegið rækileg
í gegn og fellur mjög í kramið hjá
ferðalöngum,“ segir hún og bætir
við að ferðafólk á svæðinu sæki
líka í að skoða ullarverksmiðjuna
Kidka á Hvammstanga, en þar
gefst fólk kostur á að fylgjast með
framleiðsluferlinu.
„Ullarverksmiðjan hefur mikið
aðdráttarafl og er góð viðbót við þá
afþreyingu sem í boði er á svæðinu.
Hún fær fólk til að staldra lengur
við.“ Hvítserkur hefur að auki sitt að
segja, stendur alltaf fyrir sínu eins
og Arnheiður orðar það.
Vegir víða ekki í góðu ástandi
Samgöngumálin má segja að sé
ákveðinn flöskuháls, en vegurinn
um Vatnsnes er langt í frá góður
og kallar á uppbyggingu að sögn
framkvæmdastjóra Markaðsstofu
Norðurlands.
„Það þarf að gera bragarbót
þar á, það yrði mikil lyftistöng
fyrir ferðaþjónustuna. Vatnsnes
er fjölfarin ferðamannaslóð, en
vegurinn um nesið erfiður,“ segir
hún. Aukin umferð kalli á betri veg,
auk þess sem nauðsynlegt sé að
útbúa útskot fyrir ferðalanga til að
staldra við, stíga út úr bílum sínum
og taka myndir af því sem fyrir ber.
Sama er uppi á teningnum
þegar kemur að Reykjaströndinni,
út frá Sauðárkróki. Vegurinn
að Grettislaug sem æ fleiri hafa
áhuga á að heimsækja er ekki
góður og þolir illa aukna umferð.
„Umferðin þar um á bara eftir að
aukast en því miður er nokkrir
vegir í fjórðungnum þessu marki
brenndir. Það er mjög brýnt að
átak verði gert í vegagerð og ekki
síður snjómokstri á þeim svæðum
þannig að aðgengi að ýmsum
náttúruperlum verði auðveldað,“
segir Arnheiður. Vegurinn yfir Kjöl
er líka gott dæmi, hann er langt í
frá nægilega góður til að taka við
þeirri miklu umferð sem um hann
fer að sumarlagi.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands, segir að mikill hugur sé í ferðaþjónustufólki