Skírnir - 01.01.1965, Page 72
62
Hermann Pálsson
Skimir
Ef vér teljum ættliðina frá Játmundi, eins og þeir birtast
í ættartölum, sjáum vér, að Teitur Isleifsson var sjöundi
maður frá honum og svo Þuríður, en Þorkell var áttundi
liður frá Játmundi. Ari fróði rakti ættir sínar aftur til Ját-
mundar að minnsta kosti á tvo vegu, og á báða var hann
níundi liður frá Játmundi. En ættliðafjöldinn einn getur ekki
skýrt fyrir oss, hve skammt var í rauninni frá Ara fróða
og aftur til landnámsaldar, þótt hann sé fæddur tæpum
tveim öldum eftir upphaf landsbyggðar. Sjálfur átti Ari kost
heimildarmanns, sem mundi aftur fyrir aldamótin 1000, og
frásagnir af atburðum landnámsaldar þurftu ekki að hafa
gengið á milli fleiri en þriggja manna, er þær náðu eyrum
hans seint á elleftu öld.
Hér að framan hefur verið fjallað um heimildir Ara fróða
að íslenzku viðburðunum 870 og 874, en þar sem tímatal
þeirra er háð ævi Haralds hárfagra, er rétt að hyggja nokk-
uð eftir heimildum Ara um norska atburði. Um Ara segir
Snorri á þessa lund í Heimskringlu: „Hann ritaði, sem hann
sjálfr segir, ævi Nóregskonunga eptir SQgu Odds Kolssonar,
Hallssonar af Síðu, en Oddr nam at Þorgeiri afráðskoll, þeim
manni, er vitr var ok svá gamall, at hann bjó þá í Niðar-
nesi, er Hákon jarl inn ríki var drepinn.“ Að öllum lík-
indum mun „ævi“ norskra konunga hafa hafizt með Haraldi
hárfagra. 1 þessu sambandi er vert að minnast þess, að í
Þingeyraannál, sem stuðzt hefur við konunga ævi Ara eða
annálsrit eftir hann, er Haraldur fyrstur nefndur norskra
konunga. Þar er Hálfdanar svarta engu orði getið. Um feril
norskra konunga frá Haraldi hárfagra hefur Oddur kunnað
glögg skil, þar sem heimildarmaður hans var svo gamall, að
hann býr í Niðarnesi árið 995, er Hákon Hlaðajarl er drep-
inn. Eitt af því, sem Ari fróði hefur numið af Oddi, var um
valdatíma einstakra konunga, og eftir þeirri vitneskju var
auðvelt að reikna út, hvenær konungar komu til ríkis og
hvenær þeir létu af völdum. 1 Islendingabók er ekki ein-
ungis getið um valdatímabil Haralds hárfagra, heldur einnig
aldur hans. Slíkt gat og hafa varðveitzt í munnmælum, ekki
sízt þar sem um var að ræða konung, sem hafði ríkt svo