Skírnir - 01.01.1965, Page 121
Skírnir
Helgileikir og herranætur
111
harmleikjunum — þríleikjunum — og fjölluðu ef til vill um
sama efni af öllu meira virðingarleysi.
Asninn á festa asinarium virðist stundum hafa verið mann-
eskjan — klædd í litrík klæði og með bjöllukúf á hausnum.
Eftir að geistleg félög eða hálfgeistleg voru farin að standa
fyrir helgileikjaflutningi mynduðust einnig leikfélög óæðri
klerka og próflausra stúdenta. Þessi félög nefndust Societés
joyeuses og stóðu fyrir gleðskap, festa stultorum ■— hátíð
heimskingjanna —, sem sumum þótti víst harla óguðleg. Yið
þekkjum nöfn nokkurra af þessum félögum, Les Basochiens
— þar munu lagastúdentar einkum hafa komið við sögu —
og Les Enfants sans Souci — Hin áhyggjulausu börn. Það
efni, sem þessir flokkar fluttu, mun einkum hafa verið skop-
leikakyns, en ádeilan hafði þar heiðurssess og ósjaldan var
henni beint gegn kirkjunni sjálfri. Fyrir einn slikan félags-
skap samdi ádeiluskáldið Gringoire leik, er hann nefndi Le
Prince de Sots — þar sem söguhetjurnar eru kirkjan, páfinn,
konungurinn og alþýðan. Kirkjan ber titilinn Mére Sotte og
hvorki páfa né kóngi er í neinu hlíft i þessu riti. Annars
mun hafa verið algengara, að festa stultorum hafi ekki verið
skipulögð leiksýning á bókmenntalegum grundvelli, heldur
leikrænn uppsteytur, öfgafullt, óskipulegt andóf. Fíflið í festa
stultorum getur hafa átt sinn bróður eða forföður í trúðum
miðalda, ef þeir voru þá til, með asnanum og fíflinu eru
mikil líkindi og skyldir eru þeim kómiskir djöflar, sem æ al-
gengari höfðu orðið í mysteríuleikjunum.
Skömmu síðar eða á 16. öld er kunnugt um hliðstæðu í
Bretlandi. Það er hin svokallaða Boy bishop tradition, þar
sem líka er haldin hátíð og brugðið á leik, þar sem guðs-
þjónustur og skrúðgöngur eru skopstældar. Einn nemenda
er valinn dominus festi, það er The Boy bishop, sem stýrir
athöfninni. Aðrir skipuðu svo óæðri virðingarstöður. Text-
inn, sem fluttur var, hefur verið með ýmsu móti, bæði í
Bretlandi og í Frakklandi. Hjá Frökkum hafði þróazt form,
sem kallað hefur verið Monologue dramatique eða leikrænt
eintal, sem ekki hefur verið óþekkt á markaði eða við hirð.