Skírnir - 01.01.1965, Page 123
Skírnir
Helgileikir og herranætur
113
leikjahald langt fram eftir 16. öld. En loks kom þá þar að,
að Confrérie de la Passion gat ekki keppt við atvinnuleik-
flokka, sem höfðu myndazt og sýndu annars konar viðfangs-
efni; þá leigðu passíubræðumir út samastað fyrir þær leik-
sýningar í Hotel de Bourgogne, sem varð þannig vísir að
föstu leikhúsi.
Þó að lítið sé um helgileiki í dag — ef frá er talinn passíu-
leikurinn í Oberammergau í Þýzkalandi — skyldi maður
ekki halda, að áhrif helgileikja hafi ekki verið mikil, hæði
meðan þeir stóðu sjálfir með blóma og eins á síðari leiklistar-
form. Skýringin á því, að mestur hluti helgileikja er ekki
lifandi bókmenntir í dag, er sú, að fremur var litið á þá sem
eins konar efnisumgerS eða undirstöðu. Það var flutningur-
inn sjálfur, sem varð meir og meir aðalatriði. Helgileikir
miðalda em vissulega eitt af blómaskeiðum leiklistarsögunn-
ar og áhrif þeirra á þjóðlíf og hugsunarhátt almennings vom
harla viðtæk.
Svo sem við er að búast, hefur leikmátinn í helgisiðaleikj-
unum verið stílfærður, þeir eru fluttir inni í kirkjunni, og
andi þeirra krefst þess. En smám saman þróast öll túlkunin
í raunsæisátt. Forsendan er meðal annars kirkjusöguleg og
almennt menningarsöguleg — í hinum „gradúalistiskt11 upp-
byggða trúarheimi er Jesús sem sigurvegari hið æðsta tákn,
sem allt snýst um. Eftir að hugmyndaheimur kaþólskunnar
er orðinn „nominalistiskur“ beinast augun meira og meira
að Kristi, sem þjáist. Fyrstu helgileikirnir lýstu trúnni, þeir
voru tjáning hennar í skýrum táknmyndum. En utan kirkj-
unnar er heimurinn, þjáningardalur með trú og málleysi.
Siðbótaleikirnir eru skýrt dæmi um þessi breyttu viðhorf:
Það er barizt um hverja einustu mannssál og frelsun hennar.
Og því fagurlegar sem hinni himnesku sælu er lýst og því
hroðalegar sem gin helvítis með árum sínum og djöflum verð-
ur ljóslifandi fyrir áhorfendum, þeim mun meiri von er til
þess, að breyskar mannverur rati hina réttu brautina.
Sviðssetningin verður æ íburðarmeiri, og krafizt er æ raun-
sæilegri, áhrifameiri lýsingar. Til eru þrjú höfuðform í sviðs-
setningu helgileikja. Simultansviðið — scéne simultanée —
8