Skírnir - 01.01.1965, Síða 135
Skírnir
Helgileikir og herranætur
125
þegar nálgast aldamótin, er að sjá sem konungur sé orðinn
dominus festi, ekki sízt þegar Skraparotsprédikun hefur ver-
ið aflögð. Og í krýningunni er lagt meira upp úr veraldleg-
um mannvirðingum en áður, heimsmynd guðfræðiskóla hef-
ur breytzt í veraldlega heimsmynd með pólitískum hakþönk-
rnn. Á endurreisnartímanum komust í tízku í Evrópu kon-
unglegar hátíðaskrúðgöngur, sem voru leiklistarlegs eðlis og
þar sem haldið var upp á furstabrúðkaup, fæðingar ríkiserf-
ingja og aðra slíka merkisathurði. Þessi siður, sem var vin-
sæll á 17. og 18. öld, hefur ekki farið fram hjá skólapiltum,
þar um er til vitnis skrudda, sem til var í skólanum um 1790
og ber þennan titil: „Discours au Roy“ og „Lust-Balette,
weuches Sr. Churfl. Durchfl. von Sachsen, Johan dem Vier-
ten zu Ehren den 9. Febr. 1962 in Berlin getanzt erworden.“
Kannski sóttu skólapiltar hugmyndir í þessa skruddu.
Upphaf Herranætur er gáta. Sjálf ber hún og Skraparots-
prédikun einkenni, sem kunn eru úr leiklist Evrópu og eru
svo ákveðin, að varla getur tilviljun valdið; hér er sennileg-
ast um áhrif að ræða. 1 fyrsta lagi er þá hægt að hugsa sér,
að leikhefð hafi myndazt snemma í kaþólsku, sem borizt hafi
t. d. frá Bretlandi, þar sem líkingin er þar mest, þó að ýmis-
legt minni á Festa stultorum eða supdiaconarum í Frakklandi.
1 öðru lagi má gera ráð fyrir áhrifum frá Danmörku eftir
siðaskipti, eða jafnvel ekki fyrr en í byrjun átjándu aldar,
sbr. nafnið Herradagur, krýningin o. s. frv. Biskupskjör og
prédikun ætti þá að hafa uppstaðið af sjálfu sér í því um-
hverfi, sem piltar lifðu og hrærðust i. 1 þriðja lagi er nátt-
úrlega ekki óhugsandi, að saman við slitur úr hefð frá páp-
isku hafi blandazt ný áhrif að utan, ekki sízt frá Danmörku,
og þykir mér það sennilegast.
Lok Herranætur eru ekki eins á huldu. Hún aflagðist um
aldamótin 1800 og með nýrri öld kom ný leiklist, röðin var
komin að borgurunum í þeim uppvaxandi smábæ Reykjavík
að standa fyrir leiksýningum — af þeim tilraunum er sprott-
in leiklist okkar í dag. Hið frumlegasta í leiklist okkar hvarf
með Herranótt. En hlutverk Herranætur skyldi ekki van-
þakka: hún fæddi af sér íslenzka leikritun.